c

Pistlar:

5. apríl 2019 kl. 9:45

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Rafmagnsbílarnir að taka yfir

Orkuveita Reykjavíkur hefur spáð því að rafmagnsbílar verði um 100.000 talsins árið 2030 eða um um 40% af bílaflotanum. Þetta er athyglisverð spá og sýnir kannski betur en annað þá miklu breytingu sem er að verða í bílgreininni. Auðvitað eru Íslendingar sér á báti þegar kemur að rafmagnsbílum og eru ásamt Norðmönnum í einstakri aðstöðu til að innleiða þá eins og hefur verið bent á hér áður.

Staðreyndin er sú að fleiri og fleiri bílaframleiðendur eru að hefja framleiðslu rafmagnsbíla og við blasir að þeir eru að taka afgerandi forystu í orkuskiptum. Við sjáum að stöðugt fleiri framleiðendur eru að hefja framleiðslu á rafmagnsbílum en sumir þeirra sem eru núna að koma inn á markaðinn höfðu áður fundið þeim flest til foráttu. Rafmagnsbíllinn (mætti eins tal aum rafbíl) virðist þannig ætla að verða helsti valkosturinn við bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti og í sumum löndum hefur hann tækifæri til að taka yfir markaðinn að mestu leyti. Drægni þeirra eykst stöðugt og um leið hagkvæmni.rafbílar

3000 rafmagnsbílar í dag

Nýir hreinir (100%) rafmagnsbílar voru 7,26% af skráningum í nýliðnum marsmánuði en voru 2,40% í sama mánuði í fyrra og 4,62% í febrúarmánuði. Fyrsta apríl voru um 3000 hreinir rafmagnsbílar á landinu og ljóst að þeim fjölgar hratt. Inni í þeirri tölu eru ekki sendibílar né hópbílar en Strætó er nú að fjölga rafmagnsstrætisvögnum sem er áhugavert verkefni.

Í gær var gengið frá því að byggðir verða upp innviðir fyrir hleðslubúnað rafbíla á níutíu stöðum í Reykjavík á næstu þremur árum samkvæmt samkomulagi sem Reykjavíkurborg, Orkuveita Reykjavíkur og Veitur skrifuðu undir í dag. Þá verður komið á fót 120 milljóna króna sjóði sem á að styrkja húsfélög til að koma upp hleðslubúnaði. Það er ljóst að borgaryfirvöld eru ekki að leiða þessa breytingu heldur bregðast við. Þróunin virðist vera að gerast hraðar en séð var fyrir.

Þrjátíu hleðslustöðvar verða settar upp við starfsstöðvar Reykjavíkurborgar eða í næsta nágrenni þeirra. Þá verða lagðar lagnir að hleðslubúnaði og hann settur upp á sextíu stöðum á borgarlandi á næstu þremur ár, tuttugu á ári. Markmiðið er að þjóna íbúum sem ekki hafa bílastæði á eigin lóð, að því er segir í tilkynningu vegna samkomulagsins. Hafa má í huga að meðalheimili kaupir eldsneyti fyrir hálfa milljón á ári, í rafbílnum fellst því ágætis sparnaður sem dugar fyrir alvöru hleðslustöð.

Sjálfur Bond á rafmagnsbíl

Íbúum verður gefinn kostur á að hafa áhrif á staðsetningar síðarnefndu stöðvanna með því að senda inn tillögur en Reykjavíkurborg og Veitur munu velja endanlegar staðsetningar í samræmi við fjölda íbúa og önnur hagkvæmnissjónarmið. Innviðauppbygging vegna rafmagnsbíla er næsta skref og brýnt að vinna hratt að því. Í stærra samhengi er skynsamara að reyna að flýta rafbílavæðingu en að eyða ómældum fjármunum í verkefni eins og ferjuna Herjólf sem er meira sýndarmennska en hagfræði.

En þróunin er hröð. Shenzen er 12 milljón manna borg í Kína og nánast allir leigubílarnir eru rafbílar. Kínverjar taka svona hluti með áhlaupum. Stærstu framleiðendur heims hamast við að þróa rafmagnsbíla og má sem dæmi taka að Mercedes-Benz EQC er væntanleg til landsins í haust en hann er 100% rafbíll með 400 km drægi og er aðeins 5,3 sek upp í hundraðið! Samkeppnin við Tesla harðnar. Og meira að segja sjálfur James Bond mun birtast á rafmagnsbíl í næstu mynd, þar sem hann mun aka á Ast­on Mart­in Rapi­de E. Tímarnir eru að breytast.