c

Pistlar:

8. apríl 2019 kl. 17:38

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ítalía enn á ný

Mér reiknast til að ég sé nú í þrettánda sinn staddur á Ítalíu sem væri dágott ef kona mín væri ekki að slá mér við með sinni átjándu ferð! Af þessu má sjá að við erum nokkuð elsk að þessu fallega landi. Hvað veldur er ekki erfitt að útskýra; náttúran, maturinn, vínið, menningin, sagan og fólkið. Og svo hugsanlega pínulítið öll vandræðin sem fylgja Ítalíu, bæði í nútíð og fortíð. Glæsileg þjóð sem alltaf virðist geta gert sér hlutina erfiðari en ástæða er til. Þrátt fyrir söguna virðast Ítalir vera dálítið bernskir þegar kemur að lýðræði og praktískum úrræðum. Frægt er hér í suðrinu að menn tala ekki svo illa um Benito Mussolini, hann átti nefnilega heiðurinn af því að láta lestirnar koma á réttum tíma, koma mafíunni í fangelsi og börnunum í skólann! Allt þetta telst til afreka hér á Suður-Ítalíu. Það voru líka Norður-Ítalir sem drápu Mussolini að lokum en þá hafði hann ríkt á Ítalíu í ríflega 20 ár. Í dag er barnabarn hans, Alessandra Mussolini, að gera sitt besta til að gera ítölsk stjórnmál enn ruglingslegri en þau eru en um það hefur verið fjallað í nokkrum pistlum hér.sýrakúsa

Að þessu sinni lá leiðin til Sikileyjar sem er stærsta eyja Miðjarðarhafsins, um það bil einn fjórði af flatarmáli Íslands, nokkurn veginn í miðju Miðjarðarhafsins. Af þessu leiðir að Sikiley hefur verið í þjóðbraut frá örófi alda og menningarstraumarnir sem um íbúana leika eru svo margbreytilegir að erfitt er að festa hendur á hvað er hvaðan. Kirkjurnar hér í Sýrakusu draga dám af þessu en þær eru nánast byggðar ofan í hverja aðra eins og í leit að stöðugu framhaldslífi, óháð þeim trúarbrögðum sem ráða hverju sinni. Sérkennileg er ný basilika sem er byggð uppi á fastalandinu. La basilica santuario Madonna delle Lacrime er eins og geimskip í laginu, var lengi í byggingu en er sannarlega óvenjulegt guðshús eigi að síður. Hér fylgir með mynd af henni en sagt verður nánar frá henni síðar.

Fegursta borg Grikkja

Sýrakusa var stofnuð á eyjunni Ortygia (má líka skrifa með einföldu i) og telst vera um það bil 2.700 ára gömul. Nafn og uppruni nær aftur til Grikkja sem settust hér að í fyrndinni og byggðu hér svo fagra borg að eftir var tekið. Sjálfur Cicero mun hafa sagt Sýrakusa fegurstu borg Grikkja og kemur því varla á óvart að árið 2005 var Sýrakusa eins og hún leggur sig sett á heimsminjaskrá UNESCO. Hér er sama hvar litið er eða grafið, allstaðar má finna fornminjar. Á eyjunni Ortygia er til dæmis að finna merkt grískt hof sem helgað var Aþenu til forna og tekur það dágott svæði í hjarta miðbæjarins. Í raun sérkennilegt að sjá svæðið lokað og markaði og mannlíf allt í kring, en þetta má nú víða sjá á Ítalíu. Annars er miðbæjarlífið ítalskt í margbreytileika sínum, fólk virðist alltaf finna tíma til að hitta vini og kunningja og taka rölt um bæinn.

Sýrakusa með sína 130 þúsund íbúa dreifist hér um nokkurt svæði þó Ortygia sé þéttbyggð með afbrigðum. Reyndar eru götur svo þröngar að bílaumferð á í vandræðum og nýir vegir því lagðir út með ströndinni. Við gistum hér ekki langt frá torgi sem kennt er við sjálfan Arkimedes sem er einn fkirkjarægasti borgari Sýrakusu, stýrði vörnum hennar í eina tíð og skyldi eftir sig nokkrar glöggar eðlisfræðiskilgreiningar. Við torgið sem kennt er við hann má nú finna banka í hverju horni: Ítalski bankinn, Sikileyski bankinn og einhver sparisjóður sem heimamenn virðast treysta á. Á miðju torginu er til þess að gera nýlegur gosbrunnur sem tileinkaður er gyðjunni Diönu. Nánar um allt þetta síðar.