c

Pistlar:

18. apríl 2019 kl. 14:54

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Vagga Vefarans á Ítalíu

Meira að segja á ítalskan mælikvarða er bæjarstæði Taormina einstakt. Bærinn teygir sig um hlíðar fjalllendis sem rís upp af ströndinni rétt norðaustan við eldfjallið Etnu. Taormina er miðja vegu á milli Catania og Messína og í eins og hálfs tíma akstursfjarlægð frá Sýrakusu. Daginn sem við kíktum við þá huldi skýjahula Etnu sem rís eins og tvöföld Hekla upp úr landslaginu á Sikiley. Í heiðskýru veðri sést hún viða og má sem dæmi taka að niðri í Ragusa - í um 100 kílómetra fjarlægð - blasir Etna við á heiðskírum dögum sagði óljúgfróður leiðsögumaður okkur.tor

En þó að það geti verið erfitt að lifa í skugga eldfjalls er það ekki að sjá í Taormina sem er eins og útivistar- og menningarparadís á einum og sama stað. Bærinn dreifist um fjalllendið en ný jarðgöng og vegir hafa náð að gera aðgengi að bænum þægilegt og lipurt í hvívetna. Þannig virðist skilningur á því að fólk í bíl þurfi að komast leiðar sinnar meiri hér en í ónefndri norðlægri höfuðborg. En fegurðin kostar sitt og er nú svo komið að yfir sumartímann drukknar Taormina í ferðamönnum og við sáum eima af því þegar við gengum aðalgötu gamla bæjarins, Strik þeirra Taormina-búa - Corso Umberto að þar var orðið þröngt um manninn, með veitingastaði og ferðamannaverslanir á báðar hendur. Þetta versnar eftir því sem líður á sumarið var okkur sagt en fegurð staðarins dalar aldrei.

Bókmenntasaga Íslands

En Taormina á sér líka sess í íslenskri bókmenntasögu. Halldór Kiljan Laxness dvaldi alllengi á Sikiley árið 1925 - mestallan tímann á Taormina - og skrifaði meðal annars áhugaverða ferðalýsingu í Morgunblaðið 29. júlí 1925, sjálfsagt til að hafa upp í farareyri en hann mætti nánast blankur þangað! Skáldið er kominn til Sikileyjar í maí 1925 eins og rakið er í bók Halldórs Guðmundssonar um ævi hans. Þar kemur glöggt fram að ferðin er farin af litlum efnum eins og áður var bent á. Halldór litli frá Laxnesi á ekki einu sinni fyrir lestarmiðanum frá Róm og þarf að blikka tvær enskar dömur svo þær „lánuðu" honum fyrir miðanum þegar vörðurinn kemur til þeirra í lestinni. Ekkert smá blikk það! Á Taormina fær hann inni á hóteli sem er eiginlega lokað yfir sumartímann, en dönsk kona hóteleigandans lætur hann hafa herbergi og lánar honum fyrir mat fyrst um sinn, „af því hún sagðist aldrei á æfi sinni hafa vitað dæmi um slíkt Dristighed, að koma peningalaus til Sikileyjar, og gekk öll í bylgjum af hlátri að þessum furðulega atburði, og náttúrulega hló ég líka, þó mér fyndist alt annað en hlægilegt," skrifar Halldór Kiljan Laxness.arm

Í áðurnefndri Morgunblaðsgrein skrifar skáldið: „Miðja vega milli Catania Messína stendur Taormina á hæð um við sjó, og hæðirnar vaxnar grjóthörðum kaktus, sem er í laginu eins og fútúristísk mynd af norrænum trjágróðri." Hinn viðurkenndi ævisöguritari hans, Halldór Guðmundsson, segir að ekki þurfi að lesa þá grein lengi til að sjá að Halldór er heillaður af þessum stað sem þá var einn frægasti ferðamannastaður Evrópu og hafði verið frá miðri 19. öld. Halldór Laxness lýsir báðum ásýndum Taormina; ítalska smáþorpinu með sterkri fjölskyldusamheldni sinni í faðmi kaþólsku kirkjunnar, og ferðamannastaðnum með litríkum blæbrigðum mannlífsins. Lýsing hans á ítalska hluta þorpsins er vinsamleg en ekki fer á milli mála hvor hliðin hrífur hann meir segir ævisöguritarinn. Hann skrifar um tísku bæði kvenna og karla af innlifun og þekkingu, og þegar hann lýsir veitingastaðnum Old Indian, þar sem hann er vanur að borða, er á honum sama sveiflan og í Vefaranum!

Fegurð og fordómalaus friður

„Hér leika allar heimsins tungur í einni ringulreið: Kínverskir pótentátar skála við hispursmeyjar úr Bandaríkjunum, og málaðar auðmæringafrúr frá Piume og Marseille rétta handarbakið að vörum hálfblankra listamanna norðan úr heimi og þiggja koss, en enskar kellingar, sem líta út eins og hundrað og fertugir indjánahöfingjar, taka upp vindlinhylki og bjóða hómósexúalistískum dansmeisturum frá Napóli, en meðan alt þetta gerist, er stiginn foxtrott og tangó, sungið og híað og hlegið, eða talað hljóðskraf og þuklað og strokið, en jazz-djöfullinn grenjar á alt saman með viðlíka krafti og uppskipunarvél í Leith."

Engum dylst að Taormina er einstakur staður, fegurð og fordómalaus friður. Ferðamennska fyrri tíma var auðvitað ólík því sem við þekkjum í dag en þýska ljóðskáldið Johann Wolfgang von Goethe (1749 - 1832) var þekktur af ást sinni á Ítalíu, Sikiley en sérstaklega Taormina. Aðrir þekktir ferðalangar sem hafa tengst Taormina um lengri eða skemmri tíma eru, samkvæmt heimasíðu Hótel Villa Schuler, sem á sér greinilega merka sögu: Johannes Brahms, Guy de Maupassant, Oscar Wilde, Richard Wagner, Játvarður VII og Georg V, Thomas Mann, André Gide, Jean Cocteau, D. H. Lawrence, Christian Morgenstern, Tennessee Williams, Truman Capote, Somerset Maugham, Greta Garbo, Marlene Dietrich, Joan Crawford, Rita Hayworth, Cary Grant, Sofia Loren, Elisabeth Taylor, Richard Burton og Christian Dior. Halldór Kiljan Laxness hefur verið þarna í góðum hópi þó ekki liggi fyrir með hverjum hann deildi tíma á Taormina.

Hér verður ekki gerð tilraun til að kryfja Vefarann mikla frá Kasmír sem ku hafa komið undir í Taormina. Má vera að Guðmundur Finnbogason hafi hitt á réttan tón í gagnrýni sinni en vissulega er bókin mikilvæg í íslenskri bókmenntasögu og þróun skáldsins sem fékk Nóbelinn 30 árum síðar. Í bókinni er oft vikið að Ítalíu, þangað sem Steinn Elliði fer og Diljá spyr eðlilega: „Hvað ætli sé sosum varið í Ítalíu!“leikhús

Undursamlegt leikhússtæði

Einn staður er öðrum eftirtektarverðari í Taormina. Þar má finna leikhús uppi í hæðunum með ótrúlegu útsýni yfir hafið. Leikhúsið er grískt að uppruna en margvíslegar seinni tíma viðbætur, meðal annars frá 18. öld. Líklega hafa þeir Hadrianus og Trajanus Rómarkeisarar gert mestu endurbæturnar á 2. öld eftir Krist og um tíma voru skylmingaþrælar í aðalhlutverki þarna. Þó dregur enginn í efa að það er ávallt leikhússtæðið sem er í fyrsta sæti, eins undursamlegt og það er með útsýni yfir Naxos-flóann. Að stærð er leikhúsið það næst stærsta á Sikiley, aðeins leikhúsið í Sýrakusu er stærra en stærri leikhús fundust varla til forna. Sagt er að gamanleikurinn hafi verið fundinn upp í gríska leikhúsinu í Sýrakusu en harmleikurinn í Aþenu. Hvað sem hæft er í því er nánast hægt að tárast yfir fegurð Taormina.