c

Pistlar:

29. apríl 2019 kl. 21:27

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Áfall í bergmálshellinum

Sá sem þetta ritar er eldri og reyndari en Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, og hefði líklega leyft sér að ráðleggja honum að skrifa ekki þá grein sem hann birti í Kjarnanum á sumardaginn fyrsta. Líklega hlustar hann þó ekki á mig frekar en aðra sem mæla til hans af skynsemi. Grein hans átti að öllum líkindum að vera einhvers konar svar við stuttri fréttaskýringu minni í síðasta hefti tímaritsins Þjóðmála þar sem ég reyndi að greina og meta stöðu Kjarnans í íslensku fjölmiðlaumhverfi.

Hvort sem okkur líkar betur eða verr verðum við fjölmiðlamenn, eins og aðrir, að sætta því að störf okkar séu grannskoðuð. Það virðist vefjast fyrir ritstjóra Kjarnans að skilja. Má vera að hann sé svo spilltur af eftirlæti að hann telji sjálfan sig hafinn yfir gagnrýni, -- eða jafnvel hvaða umfjöllun sem ekki er honum að skapi. Skrif hans benda til þess að áfall hafi orðið í bergmálshelli ritstjórans. Kveinstafir hans heyrast um víðan völl, nánast eins og hann sé staddur í miðjum harmleik en trúlega er hann þó aðeins sannleikanum sárreiðastur.

Í upphafi er rétt að benda á að í grein ritstjórans er ekki eitt einasta efnisatriði umfjöllunar minnar hrakið. Hann gagnrýnir þó og efast um ályktanir mínar. Honum er frjálst að gera það en það breytir því ekki að greinin stendur efnislega, eftir sem áður. Hann kýs þó leið hins rökþrota manns og ákveður að beina skeytum að persónu minni og starfsferli með sérkennilegum og rætnum hætti. Á bak við það lúra furðulegar samsæriskenningar hans um hverjir standi á bak við skrif mín. Grein hans ber heitið: „Hvað vakir fyrir Sigurði Má Jónssyni?“ Fyrirsögnin ein og sér afhjúpar að honum er fyrirmunað að skilja starf blaðamannsins þegar hann er sjálfur tekinn til umfjöllunar. Þegar á reynir telur hann þetta allt útbreitt samsæri, eins og meðfylgjandi færsla hans á Twitter um helgina sýnir:

Níðkapparnir vinna vanalega í bylgjum. Taktíkin er vanalega þannig að hermaður (Sigurður Már Jónsson og Þjóðmál) eru látin gefa upp þvælubolta, hann svo pikkaður upp af nafnlausu rotþróarpistlasvæðum í Mbl og/eða VB. Hér eru Staksteinar dagsins. Verður stuð að sjá næsta VB.

Er nema von að menn velti fyrir sér í hverskonar furðuheimi ritstjórinn lifir? „Hermaður!” -- í hvaða stríði á ritstjórinn eiginlega? Bæta má við að meðfylgjandi tilvitnun hans í „Staksteina hafði ekkert með grein mína að gera.

Til að kóróna vitleysuna telur hann sig finna höggstað á mér með því að víkja að störfum mínum á Viðskiptablaðinu og við hverja ég talaði frá einum tíma til annars á þeim stutta tíma þegar við störfuðum þar saman. Nú er það svo að í fjölmiðlum starfa menn hlið við hlið um lengri eða skemmri stund og verða auðvitað áskynja um margt, sem meðal annars tengist heimildarmönnum blaðamanna. Trúnaður inni á ritstjórn er eitthvað sem menn hafa almennt virt og er óskrifuð regla meðal blaðamanna. Um það virðist ritstjóra Kjarnans vera ókunnugt þó að hann hafi tekið að sér að kenna blaðamennsku við Háskóla Íslands. Auðvitað fer hann síðan rangt með, eins og hans var von og vísa.


Ritstjórinn upplýsir þessu til viðbótar að hann sé í klúbbi einhverra manna sem hafi gaman af því að tala illa um mig og störf mín sem upplýsingafulltrúa tveggja síðustu ríkisstjórna. Það kemur mér ekki á óvart og tel reyndar fullvíst að hann sé í mörgum slíkum klúbbum. Auðvitað er allt svona tal dapurlegt og sýnir fádæma málefnafátækt.

Ein helsta athugasemd ritstjórans felst í því að hann hafnar þeirri ályktunni minni að þeir sem stóðu að stofnun Kjarnans hafi verið vinstri menn. Er það ekki deila um keisarans skegg? Ekki voru þeir sjálfstæðismenn, ekki voru þeir framsóknarmenn og óhætt að segja að þeir teljist seint til stuðningsmanna Miðflokksins. Kannski hafa þeir þá verið eitthvað allt annað en það sem íslenskt flokkakerfi fangar. Skilgreining mín byggðist ekki á flokksskírteinum þeirra heldur á orðum og gerðum. Er þetta ekki jafn umdeilanleg ákvörðun eins og basl ritstjórans við að úthluta lýðskrums-stimpli á alla þá sem eru ósammála honum, svo að vitnað til bæði nýlegra og eldri skrifa.kjarninnmideind

Ekki sama aflandsfélag og aflandsfélag

Ritstjórinn virðist eiga mjög erfitt með að skilja af hverju er fjallað um Kjarnann og eigendur hans með þeim hætti sem gert var í greininni. Af hverju ætti ekki að mega fjalla um Kjarnann, rétt eins og ritstjórinn fjallar um aðra fjölmiðla? Var ekki orðið tímabært að benda á þann tvískinnung sem umlykur starfsemi Kjarnans og birtist skýrast í því að miðillinn er nú fluttur inn á skrifstofu Vilhjálms Þorsteinssonar fjárfestis. Þar deila þeir skrifstofum, ritstjórinn og fjárfestirinn. Þeir eru ekki aðeins á sömu hæð, eins og ritstjórinn reynir að segja, þeir deila sama skrifstofurými. Þar má lesa skýrum stöfum hlið við hlið, eins og um hjón væru að ræða, nafn Kjarnans og félagsins Miðeindar sem var systurfélag aflandsfélagsins M-Trading sem bæði eru dótturfélög Meson Holding S.A. Þannig að allur hagnaður þaðan fór auðvitað í móðurfélag Miðeindar sem fjármagnar síðan Miðeind. Hagnaðurinn gæti því þannig allt eins verið úr aflandsfélagi, eins og það blasir við.

Í samhengi hlutanna fór væntanlega ekki framhjá neinum að fjármál Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra, urðu að miklu fréttamáli. Þó duldist engum að staðsetning fjármuna hans byggðist á eignastýringarráðgjöf sem kona hans fékk eftir að henni tæmdist arfur. Af öllum þeim fjármunum var greiddur skattur á Íslandi. Vilhjálmur Þorsteinsson var hins vegar með fjármuni sína í aflandseyjafélögum af því að hann kaus það sjálfur. Hefur verið greiddur skattur af öllum þeim fjármunum á Íslandi? Má ekki greina einhvern mun þar á? Nauðsynlegt var talið að Vilhjálmur, sem þá var gjaldkeri Samfylkingarinnar, myndi víkja úr stjórn Kjarnans þegar upplýst var að hann væri tengdur aflandsfélögum árið 2016. Hvernig í ósköpunum stendur þá á því að nú er í lagi að ritstjórnin deili skrifstofu með honum? Er það þá þannig að þegar heimildamenn Kjarnans -- þeir sem geta skotist frá á opnunartíma opinberra stofnana -- verði að hitta fjárfestinn um leið?

Hver var útgangspunktur umfjöllunar minnar? Jú, ég gerði fjármögnun og útgáfu Kjarnans að umtalsefni meðal annars í ljósi þess hve einarða pólitíska afstöðu fjölmiðillinn hefur tekið og þá umfjöllun sem hann birti um fjármálastarfsemi annarra en eigenda sinna og hve hart ritstjórinn gagnrýndi fjármögnun annarra fjölmiðla. Um það eru fjölmörg dæmi, eins og flestir ættu að þekkja. Gott og vel en um leið var eðlilegt að spyrja að því hvernig háttar til heima hjá Kjarnanum, hvernig miðillinn sjálfur er fjármagnaður. Jú, hann fær fjármagn frá einstaklingum sem eru með klárt pólitískt erindisbréf og reka félög sín á aflandseyjum eða um skattaskjól. Ekkert af því hefur verið hrakið. Það á einnig við um þá staðreynd að reksturinn hefur þurft á stöðugu framlagi frá eigendum sínum að halda, nokkuð sem ritstjórinn gagnrýnir gjarnan hjá öðrum og endurtekur í svari sínu.

Það er alrangt að ég hafi eitthvað við það að athuga að menn reyni fyrir sér í fjölmiðlarekstri og vitaskuld mega menn viðra stjórnmálaskoðanir sínar eins og þeim sýnist. Það er hins vegar tvískinnungur og einhverskonar hofmóðugheit gagnvart öðrum sem eru að fást við það sama en það gagnrýni ég og geri að umtalsefni í grein minni. Það kannast aðrir fjölmiðlamenn mætavel við og hafa haft samband eftir að greinin birtist í Þjóðmálum og þakkað mér fyrir að vekja athygli á þessu.

Sameiginleg starfsmannastefna

Annar þáttur í umfjöllun minni laut að hinum sérstöku tengslum Kjarnans og Ríkisútvarpsins sem virðast á stundum reka sameiginlega starfsmannastefnu. Einnig ræddi ég það fyrirkomulag að hluthafar Kjarnans starfi við stjórnmálaþætti og á fréttastofu RÚV -- og grípi þar hvert tækifæri til að hampa eigin miðli. Líklega myndi heyrast hljóð úr horni ef hluthafi í Árvakri væri í sömu aðstæðum og vitnaði stöðugt í Morgunblaðið og Davíð Oddsson, svo að dæmi sé tekið. Nú veit ég ekki hvaða reglur gilda um slíkt eignarhald hjá Ríkisútvarpinu en líklega þætti það ankanalegt hjá mörgum ríkisfyrirtækjum ef starfsmenn ættu hluti í félögum í tengdum eða skyldum rekstri.

Skylt er þó skeggið hökunni. Í tengslum við þessi skrif mín hafa þeir Gísli Marteinn Baldursson og Helgi Seljan ruðst fram á samfélagsmiðlavöllinn, hvor með sínu lagi. Þannig upplýsti Gísli Marteinn að hann hefði ekki lesið grein mína en vissi að hún væri vond! Helgi sagði að ég væri dóni og er þá útséð með að skrifari komist í mannasiðaskóla Helga Seljan sem sjálfur hafði fyrir sið að uppnefna mig „uppleysingjafulltrúa“ ríkisstjórnarinnar á meðan ég starfaði á þeim vettvangi. Að því slepptu er Helgi auðvitað þekktur fyrir almenna kurteisi.

Ad hominem umræða af því tagi sem ritstjórinn bíður upp á er ekki boðleg. Það er hins vegar ánægjulegt ef hann sér jákvæð teikn á lofti í rekstri Kjarnans og ég get vel unnt honum þess. Um það eru engar upplýsingar nema hans eigin orð. Sömuleiðis fullyrðir hann að Kjarninn væri í 6.-8. sæti að jafnaði yfir mest lesnu vefi landsins ef miðillinn væri aðeins þátttakandi í viðeigandi mælingum. Það getur vel verið en við höfum heldur engar upplýsingar um það. Rekstrarstaða Kjarnans sem slík er ekki höfuðmál í fréttaskýringu minni og auðvitað vonum við að sem flest blóm vaxi og dafni á hinum íslenska fjölmiðlaakri. Það hefur hins vegar ekki verið kjarninn í nálgun ritstjórans sem virðist telja sjálfan sig upphaf og endi alls í íslenskum fjölmiðlum. Fyrir því er engin innistæða. Alls ekki.