Í Venesúela ríkir sósíalistastjórn en þar einkennist dagur verkalýðsins af hernaðaraðgerðum stjórnvalda sem nú reyna að hanga á völdum með tilstyrk hers og erlendra hermanna og víla ekki fyrir sér að berja á mótmælendum. 1. maí í þessu sósíalistaríki fær því sérkennilega merkingu, þar sem bryndrekar ríkisstjórnarinnar eru í aðalhlutverki. Í gær slösuðust hátt í 70 manns í átökum en í dag er hætt við að enn fleiri hafi slasast. Um leið hafa stjórnvöld reynt að takmarka fréttir af atburðunum og var útsending CCN stöðvuð um tíma og torvelduð á allan hátt.
Talið er að það séu á milli 20 og 25 þúsund kúbverskir hermenn í landinu og rússneskum hermönnum og ráðgjöfum fjölgar hratt. Bloomberg fréttastofan hefur það eftir Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að Rússar hafi komið í veg fyrir afsögn Nicolás Maduro, forseta landsins, sem nýtur stöðugt minna traust heima fyrir. Rússar séu þannig að reyna að koma í veg fyrir, að lögleg stjórnvöld í Venesúela gegni skyldum sínum. Flugvél beið eftir Maduro, sem ætlaði að leita hælis á Kúbu, og þá gripu Rússar til sinna ráða. 56 ríki hafa viðurkennt Juan Guaidó, þar á meðal Ísland, en 14 styðja enn Maduro. Skuldir Venesúela við Rússa og Kínverja eru stjarnfræðilegar og eru við það að ganga af sjálfstæði landsins dauðu.
Tilraunir stjórnarandstæðingsins til að koma stjórninni frá og koma á kosningum gæti orðið til þess að allt springi í loft upp og styrjöld hefjist. Stjórnarandstæðingar í Venesúela birtu snemma að morgni þriðjudagsins 30. apríl myndband þar sem almennir borgarar og hermenn voru hvattir til þess að rísa gegn Maduro og stjórn hans. Eftir að myndbandið var sýnt tók fólk að streyma að flugherstöð við höfuðborgina Caracas. Juan Guaidó, leiðtogi stjórnarandstæðinga, í Venesúela kom sama dag fram á myndbandi með hermönnum og hvatti almenning og hermenn að fara út á götur og torg til að bola Nicolas Maduro frá völdum. Ekki verður séð annað en að stjórn Maduros sé ólögleg ofbeldisstjórn sem nú styðst í æ ríkara mæli við erlent hervald. Hins vegar er Venesúela því miður gott dæmi um, hvað gerist, þar sem sósíalistar taka völd: Skortur, kúgun, eymd, allt í nafni alþýðunnar, en aðallega á kostnað hennar.
Efnahagslegt hrun sósíalistastjórnarinnar
Allt þetta gerist í kjölfar algers hruns á efnahag Venesúela og lífsháttum þessarar þjóðar sem í eina tíð naut efnahagslegrar velsældar. Tilraunir sósíalista til jöfnunar hafa kallað yfir þjóðina jafna eymd. Engum blöðum er um það að fletta að það sem veldur fátæktinni og skortinum í Venesúela er stefna stjórnvalda. Þau hafa skert atvinnufrelsi svo mjög, að hagkerfið er eitt hið ófrjálsasta í heimi. Hér hafa afleiðingar þess margoft verið raktar í pistlum. Stjórnvöld hafa vanrækt fjárfestingu, bæði í atvinnulífinu, sem þau höfðu þjóðnýtt, og í innviðum landsins. Fráleitt er að kenna takmörkuðum og til þess að gera nýtilkomnum refsiaðgerðum Bandaríkjanna um. Sósíalistum hefur tekist að leggja þetta auðugasta land Rómönsku Ameríku í rústir. Menn hljóta að spyrja sig af hverju þeim tókst ekki að feta braut Noregs þegar kemur að nýtingu orkuauðlindanna?
Hver er hin lögmæta stjórn landsins?
Hvað herinn gerir í Venesúela skiptir miklu en báðar fylkingar hafa biðlað til hans. Vonandi gengur herinn í Venesúela í lið með lýðræðisöflunum. Nú hafa hermenn frelsað stjórnarandstæðinginn Leopoldo López úr fangelsi, og er hann genginn til liðs við Juan Guaidó en hann er starfandi forseti landsins samkvæmt stjórnarskrá og í umboði þingsins. Guaidó er forseti þingsins og samkvæmt stjórnarskránni tekur hann við forsetaembætti til bráðabirgða, ef enginn löglega kjörinn forseti er í landinu, uns kosningar hafa verið haldnar ein sog alþjóðasamfélagið fer framá. Maduro var ekki löglega kjörinn, kosningarnar reyndust svindl eins og alþjóðlegir eftirlitsmenn geta borið vitni um. Það var ánægjulegt, að ríkisstjórn Íslands, með Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra í fararbroddi, viðurkenndi stjórn Guaidós.
Leopoldo López er til þess að gera nýr inn á sviðinu en Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor hefur bent á samtökin Platform of European Memory and Conscience veittu López verðlaun fyrir baráttu gegn alræðisöflunum árið 2016. Faðir Lópezar veitti þeim viðtöku, og átti Hannes þess kost að ræða við hann eins og hann benti á í færslu á Facebook. Vonandi að nýir lýðræðissinnar nái völdum í landinu án blóðsúthellinga. Við sjáum hvað dagurinn ber í skauti sér.