c

Pistlar:

4. maí 2019 kl. 16:28

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Öfundsverð staða ríkissjóðs

Óhætt er að taka undir með Sigurði Hannessyni, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, þegar hann segir að áratugur endurreisnar efnahagslífsins sé að baki. Þessi áratugur hefur skilað skýrri sýn, markvissum aðgerðum og sterkri stöðu til að takast á við áskoranir fram undan. Þetta kemur fram í grein sem Sigurður skrifaði í Markaðinn, viðskiptablað Fréttablaðsins, í vikunni. Það er í raun með ólíkindum að Íslandi hafi tekist að snúa stöðunni sér svo í hag að landið sé aftur komið í A-hóp í lánshæfi. Alþjóðlega mats­fyr­ir­tækið Fitch Rat­ings hefur nú síðast tilkynnt að fyr­ir­tækið hafi sett skamm­tíma­ein­kunn­ir rík­is­sjóðs Íslands fyr­ir skuld­bind­ing­ar í inn­lend­um og er­lend­um gjald­miðli á at­hug­un­arlista með mögu­leika til hækk­un­ar. Íslendingar munu vonandi njóta enn betri lánskjara erlendis í framtíðinni.

Sigurður bendir á í grein sinni að tvennt standi upp úr við endurreisn efnahagslífsins eftir fall bankanna 2008. Annars vegar sé það endurskipulagning skulda þar sem heildstæð áætlun um losun fjármagnshafta vó þyngst. Hins vegar sé kröftugt viðbragð atvinnulífsins þar sem ferðaþjónusta blómstraði og varð að undirstöðugrein í útflutningi ásamt iðnaði og sjávarútvegi. „Niðurstaðan af þessari markvissu uppbyggingu er sú að hagkerfið er gjörbreytt og stendur miklu sterkar nú en áður,“ skrifar Sigurður. Undir það er hægt að taka en þær aðgerðir sem gripið var til í af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks árið 2013 hafa skipt sköpum. Hagvöxtur náði sér enda fljótlega á skrið um leið og náðist tök á ríkisfjármálum. Hvorutveggja forsenda fyrir komandi aðgerðir og undirstaða þeirrar stöðu sem við erum nú í. Væntingar eru um vaxtalækkun og að íslenskt hagkerfi sé í fyrsta skipti fært um að takast á við kólnun með viðeigandi efnahagsráðstöfunum.sedlabanki-esja_ISL

Sterk efnahagsleg staða

En víkjum aftur að endurskipulagningu skulda sem Sigurður gerir að umræðuefni. Hún var þríþætt og olli algerum viðsnúningi. Með losun fjármagnshafta fékk ríkissjóður „hvalreka“, eins og Sigurður kallar það, sem nam um 20% af vergri landsframleiðslu auk þess sem erlendar eignir þjóðarbúsins eru nú meiri en erlendar skuldir, í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins. Þessi staða, til viðbótar við öflugan gjaldeyrisforða, er mikilvæg festa fyrir hagkerfið. Í öðru lagi voru skuldir heimila endurskipulagðar og munaði þar mest um Leiðréttinguna. Skuldir heimilanna eru nú um 76% af vergri landsframleiðslu og hafa ekki verið lægri á þessari öld en námu 122% þegar mest var árið 2009. Í þriðja lagi voru skuldir fyrirtækja endurskipulagðar í gegnum bankakerfið og eru nú um 40% af því sem var þegar mest lét.

Einstök skuldastaða ríkissjóðs

Nú er svo komið að skuldir hins opinbera, ef frá eru taldar skuldir Íbúðalánasjóðs og opinberra fyrirtækja, eru komnar nærri þeim mörkum sem skuldaregla ríkisfjármála kveður á um. Þau mörk eru um 30% af VLF. Innlendar skuldir ríkissjóðs eru sem næst 700 milljarðar og erlendar skuldir ríkissjóðs sem næst 80 milljörðum. Það er ekki víst að skuldahlutfall, eitt og sér, sé óbrigðull mælikvarði eins og Vilhjálmur Bjarnason, fyrrverandi alþingismaður benti á í grein í Morgunblaðinu fyrir stuttu. En hafa verður í huga að óskuldsettur gjaldeyrisvarasjóður er nú á pari við innlendar skuldir. Þetta er fáheyrð staða í íslensku samhengi. Frumjöfnuður er nú betri en í ríkjum ESB en vaxtakostnaður ríkissjóðs er hins vegar hærri hér á landi. Til að vega á móti halla á vaxtajöfnuðinum þarf að skila krefjandi afgangi á frumjöfnuði ríkissjóðs. Brýnt að draga enn frekar úr skulda- og vaxtabyrðinni og við ættum að hafa góð tækifæri til þess.

Sá er munur á innlendum skuldum og erlendum, að innlendum skuldum fylgja greiðslur milli þegnanna og milli tímabila, en erlendum skuldum fylgja greiðslur út úr hagkerfinu. Skuldir, sem skila ábata fram í tíma, eru ekki synd bendir Vilhjálmur á. Þannig hafa Bandaríkjamenn ekki áhyggjur af sínum ríkisskuldum en þær eru sem næst jafnar gjaldeyrisvarasjóðum allra annarra ríkja í heiminum. Sennilega telja Bandaríkjamenn ekki líkur á að nokkur vilji fá skuldina greidda á meðan þörf er á gjaldeyrisvarasjóðum segir Vilhjálmur.

Hvað fæst fyrir bankana?

Ríkissjóður hefur greitt til baka skuldir vegna fjárlagahalla áranna eftir hrun fjármálafyrirtækja, svo og þær skuldir sem stofnað var til vegna endurreisnar fjármálafyrirtækja. Þá situr ríkissjóður með tvö fjármálafyrirtæki í fanginu, að verðmæti um 500 milljarðar sem gæti hæglega farið langt með að þurka upp innlendar skuldir ef vel tekst til með söluna en kaupendur að fjármálafyrirtækjum bíða ekki í röðum.

Vilhjálmur bendir á að til sé ein skuld sem ekki er færð til bókar en stendur utan efnahagsreiknings ríkissjóðs en er getið í fjárlögum. Það er skilyrt skuldbinding vegna B-deildar Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins um 500 milljarðar. Greiðslur falla til á árunum 2025-2050. Sú skuldbinding er til staðar í erlendum fjárlögum en afgreidd með’ öðrum hætti. Þetta breytir því ekki að fjárhagsstaða Íslands er öfundsverð þökk sé aðgerðum sem gripið var til á árunum 2013 til 2016.