Í dag má lesa í Fréttablaðinu að biðlistar eftir greiningu röntgenlækna á brjóstakrabbameini hefðu lengst mikið eftir að verkefnið var flutt frá Krabbameinsfélagi Íslands. Biðlisti eftir greining um brjóstakrabbamein hefur þannig lengst úr hófi vegna þess hversu erfitt er að manna stöður röntgenlækna. Árið 2017 fluttist þessi hluti greiningar brjóstakrabbameina frá Krabbameinsfélagi Íslands til Landspítala. Áður höfðu röntgenlæknar á Domus Medica unnið að þessari myndgreiningu.
Það sem ekki var vandamál er nú orðið illleysanlegt eftir að ríkisvaldið tók við starfseminni. Á sama tíma er augljóst að öll áhersla núverandi heilbrigðisráðherra er að færa alla starfsemi í heilbrigðiskerfinu undir opinberan rekstur, óháð skilvirkni eða kostnaði. Hver eru skilaboð ráðherra til fólks sem allt í einu er sett í biðstöðu með erfiðasta úrlausnarefni lífsins, að sigrast á krabbameini? Það þarf ekki að hafa mörg orð um stöðu sjúklinga og aðstandenda þeirra sem nú þurfa að bíða milli vonar og ótta hvenær meðferð hefst.
Nýlega var greint frá því að nýtt 75 herbergja sjúkrahótel hefði verið opnað við Landspítalann. Má ætla að kostnaður vegna þess verði ekki undir 2,5 milljörðum króna þegar upp er staðið en margt í byggingasögu sjúkrahússins reyndist kostulegt og hefur fátt af því ratað í fréttir. Hér í pistli í október var spurt: „Er fjármunum vel varið með því að byggja hótel á á þessum stað þegar virðist stefna í nægt framboð á hótelherbergjum á höfuðborgarsvæðinu? Fram til þessa hefur verið hægt að sinna þessari þjónustu með samningum við einkaaðila. Er nauðsynlegt að forstjóri Landspítalans fái líka að vera hótelstjóri?“
Nei við jáeindaskannanna
Hafa má í huga að á sama tíma gat ríkisvaldið ekki keypt og byggt yfir jáeindaskanna og kostaði um leið miklu til svo að þjáðir sjúklingar færu til útlanda til að fá aðgang að slíku tæki. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðargreiningar, hlutaðist að lokum til þess að fyrirtækið gaf íslensku þjóðinni þetta tæki sem kostaði hátt í milljarð króna. En áfram hélt ríkisvaldið að standa í vegi fyrir því að skanninn kæmist í notkun. Það gat ekki einu sinni byggt yfir þessa miklu gjöf skammarlaust. Kári sagði í samtali við Morgunblaðið að ferlið frá því að skóflustunga að byggingunni, sem hýsir jáeindaskannann við Landspítala, var tekin í janúar árið 2016 og þar til hann var tekinn í notkun í september 2018 hefi verið röð af klaufaskap og mistökum.
Fyrstu áætlanir gerðu ráð fyrir því að taka mætti tækið í notkun um miðjan september árið 2016, en þær stóðust ekki, né heldur áætlanir sem gerðu ráð fyrir því að skanninn yrði tekinn í notkun haustið 2017 og svo aftur í janúarmánuði 2018. Skanninn var hins vegar ekki formlega tekinn í notkun fyrr en september 2018 eins og áður sagði. Kári fullyrti að ef Íslensk erfðagreining hefði byggt yfir jáeindaskanna í Vatnsmýri hefði það tekið eitt ár, en ekki tæp þrjú. Þannig birtist nú geta ríkisvaldsins til að sinna þessum málum. Á meðan biðu sjúklingar. Eins og áður sagði var allan þann tíma verið að byggja sjúkrahótel við Landspítalann en kostnaður við það hefði líklega dugað fyrir tveimur jáeindaskönnum.
Blindir fá ekki sýn
Nú um helgina rakti síðan Morgunblaðið nýjustu furðuákvarðanir ríkisvaldsins. Talið er að um 3.000 manns þurfi árlega að gangast undir augasteinaaðgerð. Biðlistar eftir þeim lengdust og lengdust og árið 2016 hófst sérstakt biðlistaátakið til að stytta listanna. Fyrirtækin Sjónlag og Lasersjón tóku hluta af þeim aðgerðum fyrir að því er virðist skynsamlegt og sanngjarnt endurgjald. Grunnsamningar hljóðuðu upp á 400 aðgerðir árlega á hvorum stað og í biðlistaátakinu voru gerðar þúsund aukaaðgerðir hjá Sjónlagi og fimm hundruð hjá Laserjón. Eftir að biðlistaátakinu lauk voru áfram grunnsamningar sem nú hafa runnið út. Hjá Sjónlagi eru 600 manns á biðlista og hjá Lasersjón á annað hundrað manns.
Samningurinn rann út, engin tilraun til framlengingar og læknar, stjórnendur og sjúklingar vita ekki hver næstu skref verða þar sem þeir fá engin svör frá Sjúkratryggingum Íslands eða heilbrigðisráðuneytinu. Morgunblaðið hefur það eftir læknum að hefja hefði átt viðræður fyrir mörgum mánuðum. Hafa má í huga að forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu er í höndum heilbrigðisráðuneytisins en samkvæmt áðurnefndri frétt hefur ráðuneytið ekki hugmynd um hver stefna ráðuneytisins er eða hver samningsmarkmið eru! Er þetta boðlegt?
Haltir fá ekki gengið
Ekki ætti að þurfa að rekja hér ruglandann varðandi liðskiptaaðgerðir. Sú saga er flestum kunn. Vegna þess að sjúklingar uppfylla nú svokallað biðtímaákvæði í EES tilskipun fara þeir nú í hópum til Svíþjóðar þar sem gerðar eru á þeim aðgerðir á einkareknum stofum þar. Allt til þess að þeir komist ekki í liðskiptiaðgerðir hjá Klíníkinni í Ármúla! Þegar sjúklingarnir eru farnir að þola að biðtími er lengri en 90 dagar greiða Sjúkratryggingar Íslands allan sjúkrakostnað, ferða- og uppihaldskostnað ásamt kostnaði fyrir fylgdarmann. Að mati ráðherra er allt betra en að þeir fari upp í Ármúla og fái lausn sinna mála, hjá sömu læknum og ella fylgja þeim út. Er nema von að læknar kalli þetta „leikhús fáránleikans!“
Augljóst má telja að ríkisvaldið sé ófært um að verkstýra verkefnum eða vinna með kostnaðaráætlanir. Þegar einkaaðilum eru falin verkefni á heilbrigðissviði er nauðsynlegt að fyrir liggi nákvæm kostnaðargreining á öllum verkþáttum og á grundvelli þeirra er samið við þá sem veita þjónustuna. Áfram er kostnaður greiddur af hinu opinbera. Ríkisvaldið virðist hins vegar vera ófært um slíkt og kýs því einfaldlega að henda eins miklum fjármunum og mögulegt er í heilbrigðiskerfið í von um að það beri nú einhvern árangur. Þetta lýsir ekki mikilli stjórnvisku eða virðingu fyrir takmörkuðum fjármunum.