c

Pistlar:

8. maí 2019 kl. 23:24

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Góðar ábendingar frá Mervyn King

Mervyn King, fyrr­ver­andi banka­stjóri Eng­lands­banka, hélt erindi á fundi á veg­um viðskipta­fræðideild­ar Há­skóla Íslands og Sam­taka spari­fjár­eig­enda í hátíðarsal skól­ans í gær. Morgunblaðið var með stutta frétt um heimsókn King í dag og hann var gestur Boga Ágústssonar í Kastljósi í kvöld. King skilur eftir nokkur áhugaverð sjónarhorn sem virðast ganga gegn viðteknum hugmyndum hér á landi.

Til að byrja með benti King á að bankakreppan 2008 hefði að sumu leyti verið fyrirsjáanleg en mjög erfitt hefði verið að bregðast við henni. Ef Íslendingar hefðu átt að bregðast við henni strax árið 2008 hefði ekki verið unnt að gera það nema með algeri umbyltingu bankakerfisins. Engin pólitískur vilji hefði verið til þess og því ekki raunhæft að gera ráð fyrir slíku. King styður eðlilega eftirlit með bankakerfinu og heilbrigðar kröfur um eiginfjárhlutföll en virtist að öðru leyti ekki sérlega bjartsýnn á að komið yrði í veg fyrir að bankakreppa dynji einhvertímann yfir í ófyrirsjáanlegri framtíð. Sagan segi okkur að það gerist og næsta bankakreppa verði ólík þeirri síðustu.king

Í öðru lagi benti hann á að bankakreppan var alþjóðlegt fyrirbæri en ekki séríslenskt ástand. Bankarnir voru illa staddir allstaðar, ekki eingöngu á Íslandi. Vegna hlutfallslegrar stærðar þeirra hér á landi var ekki hægt að grípa til sömu aðgerða til að bjarga þeim. En bankarnir voru jafn illa staddir annarsstaðar eins og hefur komið á daginn. Það þýðir að „glæpamannakenningin“ - sem gengur út á að hópur bankamanna hafi sett allt á hausinn - stenst ekki. Það segir okkur líka að það er fráleitt að hafna erlendum áhrifavöldum og festa okkur í slíkum hrunskýringum eins og bent var á í pistli hér á síðasta ári.

Tilurð evrunnar ótímabær

Í þriðja lagi þá var King mjög gagnrýnin á evrusvæðið og styrk þess. Hann sagði tilurð þess algerlega ótímabæra og tekur þar með undir það sem hagfræðingurinn Ashoka Mody hefur verið að segja, meðal annars í bók sinni Eurotragedy: A Drama in Nine Acts, sem hefur hlotið mikla athygli. Til hans hefur verið vitnað oft hér. Eins og rakið var í Morgunblaðinu kom fyr­ir­spurn frá Bene­dikt Jó­hann­es­syni, fyrr­ver­andi fjár­málaráðherra, til King á fundinum þar sem Benedikt innti seðlabanka­stjór­ann fyrr­ver­andi eft­ir sýn hans á stöðu mála á evru­svæðinu. Sagðist King ekki þekkja nein dæmi í sög­unni um mynt­banda­lag sem hefði lifað af án þess að hafa orðið að einu ríki (e. full political uni­on). Ef ekki væri vilji til þess að taka það skref væri bet­ur heima setið. King sagði áhrifa­fólk inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins hafa gert sér fulla grein fyr­ir því að evru­svæðið væri ávís­un á vanda­mál eins og staðið hefði verið að því. Það fyr­ir­komu­lag gæti ekki gengið. Það kæmi til efna­hagskreppu á end­an­um en hún myndi hins veg­ar neyða ráðamenn inn­an sam­bands­ins til þess að fara alla leið og breyta því í eitt ríki eins og rakið var í Morgunblaðinu.

Skuldaniðurfærslan lofsverð

Í fjórða lagi sagði King að vel hefði gengið að færa niður skuldir hér á landi, bæði fyrirtækja og heimila. Þannig hefðu Íslendingar, til dæmis með Leiðréttingunni og haftaafnáminu, umbylt skuldastöðu landsmanna og skilið landið að sumu leyti eftir í öfundsverðri stöðu. Með því hefðu Íslendingar að mörgu leyti tekið skynsamlega á málum og skapað fordæmi sem aðrir hlytu að líta til.

Í fimmta lagi þá sagði King í Kastljósi kvöldsins að Brexit hefði til þessa fyrst og fremst skapað pólitíska krísu en ekki efnahagslega. Hann benti á að stjórnmálamenn hefðu lofað þjóðaratkvæðagreiðslu um Brexit, hún hefði verið haldin en að lokum hefði stjórnmálastéttinni verið fyrirmunað að framfylgja niðurstöðunni. Þar liggur vandinn að mati King. Hann virtist ekki hafa áhyggjur af áhrifum Brexit á viðskiptalífið breska. Þar væri til dæmis rangt að tala um krísu, eins og sannarlega mætti sjá í stjórnmálunum. Þvert á móti virtist hann telja tækifæri felast í Brexit fyrir breskt efnahagslíf, sem í sumum tilvikum yrði að aðlagast nýju umhverfi og leita sér viðskipta á nýjum stöðum. Hann virtist ekki líta á það sem vandamál.