Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að fá að eyða sjómannadeginum í Grundarfirð sem hefur verið mikilvægur verslunarstaður í margar aldir. Því má þakka að bærinn býr yfir góðri höfn, þeirri bestu á Snæfellsnesinu, sem og legu hans mitt á nesinu. Bærinn eins og við þekkjum hann er hins vegar yngri en marga grunar og ekki svo langt síðan markviss útgerð hófst þar, að stórum hluta fyrir tilverknað Guðmundar Runólfssonar (1920-2011) útgerðarmanns ásamt nokkrum öðrum sterkum fjölskylduútgerðum. Útgerðarfélagið Runólfur hf. var stofnað um rekstur trébáts sem Guðmundur og fleiri létu smíða skömmu eftir seinni heimsstyrjöld. Sá bátur fékk nafnið Runólfur SH-135 en síðan hafa komið nokkrir Runólfar. Árið 1975 kom í höfn 47 metra langur skuttogari með sama nafni. Var það jafnframt fyrsti togarinn sem Grundfirðingar eignuðust. Þá var stofnað félag um útgerð togarans undir hans nafni og er félagið Guðmundur Runólfsson hf. í dag í hópi öflugustu fyrirtækja á Snæfellsnesi.
Afkomendur Guðmundar standa nú fyrir útgerð og fiskvinnslu í bænum og fyrirtækið Guðmund Runólfsson hf. í Grundarfirði er stærsti atvinnurekandi bæjarins en þar búa nú um 900 manns sem flestir eiga lifibrauð sitt undir sjávarútvegi.
Svo vildi til að á laugardaginn var vígð nýjasta og að öllum líkindum glæsilegasta fiskvinnsla landsins og það einmitt í Grundarfirði. Það er mikið átak fyrir ekki stærra fyrirtæki en Guðmund Runólfsson hf. að ráðast í verkið en við hönnun var stefnt að því að vinnslan hún yrði ein sú fullkomnasta í Evrópu. Sá er þetta ritar var viðstaddur vígsluna og augljóst að þetta var stór dagur í lífi bæjarbúa og fyrirtækisins. Satt best að segja er hægt að undrast þann metnað sem lagður er í framtakið og skal nú tæpt á nokkrum þáttum er prýða þessa nýjustu fiskvinnslu landsins.
Fékk nýsköpunarverðlaun
Mikil hús hafa verið reist upp af höfninni, að hluta til tengd þeim gömlu. Nýbyggingin er 2.430 fermetrar á fyrstu hæð og 275 fermetrar á annarri hæð en auk þess hefur gamla fiskvinnsluhúsinu verið breytt og eru þarna tveir stórir lausfrystar auk starfsmannaaðstöðu og fleira. Í nýbyggingunni eru tvær vinnslulínur, önnur fyrir karfa og hin fyrir bolfisk, en það er nýjung í svona vinnslu að vera með sérstaka karfalínu. Þess má geta að fyrirtækið fékk nýsköpunarverðlaun Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi í fyrra fyrir óvenju metnaðarfulla uppbyggingu hátæknilegrar fiskvinnslu.
Í byggingunni er bæði hráefniskælir og afurðakælir, en það er einnig nýjung að vera með sérstakan afurðakæli þar sem hitastigið getur farið niður í mínus 10°C. Í nýbyggingunni er einnig móttökusalur, tæknirými, frystivélasalur, verkstæði og fleira. Vinnslulínur og önnur fiskvinnslutæki koma frá Marel og Skaganum-3X og frystitækin koma frá Kælismiðjunni Frost, en auk þess eru mörg tæki frá ýmsum öðrum aðilum. Segja má að þarna safnist saman hugvit íslensks sjávarútvegs ásamt þekkingu heimamanna sem skiptir miklu. Það er eitt að kaupa tækin, annað að kunna að reka þau.
Hreinlæti í hávegum haft
Hreinlæti er að sjálfsögðu lykilorð í matvælavinnslu eins og þeirri sem fer fram í þessu nýja húsi. Þar er enda lögð mikil áhersla á hreinlæti og er vinnslusalurinn sótthreinsaður á hverjum einasta degi. Áhersla er á að veggir og gólf þoli vel allan þennan vatnsgang og var því ákveðið að hafa staðsteypta veggi í vinnslusalnum. Þegar gengið er um sali verður maður hvarvetna var við þessa áherslu á hreinlæti en starfsmenn þurfa að fara í gegnum sérstaka þvottastöð þegar þeir koma til vinnu.
Burðarbitar í þaki eru grindarbitar úr stáli og er manngengt lagnarými fyrir loftræsingu, raflagnir og vatnlagnir í þakrýminu sem afmarkast af þaki úr PIR einingum og trapisustálplötum undir neðra byrði grindarbitanna er vinnslusalurinn því laus við allar lagnir nema þær sem liggja að fiskvinnsluvélum, slöngum og tenglaboxum.
Það er merkilegt að fá tækifæri til að kynnast þeim stórhug sem hér býr að baki þó erfitt sé að fá upp úr athafnamönnunum hvað framkvæmdin kostar. Það er hins vegar augljóst að hér stýrir metnaður för og ljóst að gæði vörunnar munu batna mikið og um leið verðmæti.
En að hvaða leyti snýst þetta um sjómannadaginn? Jú, segja má að fiskvinnslan og öll umgjörð hennar sé nú miðja félags sem sækir fortíð sína til útgerðar. Í eina tíð sóttu menn sjóinn af kappi og áræðni. Í dag er hann sóttur af fyrirhyggjusemi og skynsemi. Þekking er undirstaða þeirrar matvælavinnslu sem sjávarútvegurinn stendur undir í dag en það er okkur um leið mikilvægt að heiðra minningu þeirra sem gerðu þetta mögulegt. Að því leyti fannst mér ánægjulegt og upplýsandi að fá að upplifa sjómannadaginn í þeim mikla útgerðar- og fiskvinnslubæ Grundarfirði.