Velgengnissögur í íslensku atvinnulífi finnast sem betur fer og þær eru sjálfsagt fleiri en menn halda. Hér verða þrjár slíkar raktar en óhætt er að segja að öll félögin eigi það sameiginlegt að án íslensks sjávarútvegs hefðu þau ekki orðið til.
Hlutabréf Marels voru tekið til viðskipta í Euronext-kauphöllinni í Amsterdam síðastliðinn föstudag og markaðsvirði félagsins nemur nú nálægt 425 milljörðum króna. Virði félagsins er um 40% af markaðsvirði félaga í íslensku kauphöllinni þar sem það gnæfir yfir önnur félög.
Vöxtur félagsins hefur verið ævintýralegur. 45 manns störfuðu hjá Marel þegar það var skráð á hlutabréfamarkað hér á landi 1992 en í dag starfa 6.000 manns hjá fyrirtækinu í 30 löndum. Fyrirtækið fjárfesti 9 milljarða í nýsköpun í fyrra en það ver um 6% af veltu sinni í rannsóknir. Um 90% af tekjum fyrirtækisins koma erlendis frá. Á síðasta ári námu tekjur Marel tæplega 1,2 milljörðum evra og jukust um 15,4% frá árinu 2017. Hagnaðist félagið um 122,5 milljónir evra á árinu 2018 samanborið við 97 milljónir árið á undan. Hluthafar hafa fengið góða ávöxtun en frá því það var skráð hefur það skilað að jafnaði ríflega 26% ávöxtun á hverju ári. Milljón þá er orðin að 250 milljónum nú. Það þarf ekki að rifja upp þá sögu að Marel hefur stutt íslenskan sjávarútveg sem síðan hefur stutt Marel. Án íslensks sávarútvegs hefði félagið ekki orðið til og skiptir engu að framleiðsla tengd sjávarútvegi skiptir stöðugt minna máli eftir því sem félagið stækkar með uppkaupum erlendis.
Kerecis á flugi
Um sama leyti greindi Markaðurinn, viðskiptarit Fréttablaðsins, frá því að nýir hluthafar hefðu gengið til liðs við lækningafyrirtækið Kerecis. Hlutafé Kerecis hafi verið aukið um 30 prósent á síðustu tveimur mánuðum og stendur nú í 6,2 milljónum hluta. Markaðurinn bendir á að miðað við almenna gengið í hlutafjárhækkuninni, um 2.000 krónur á hlut, gæti virði félagsins verið allt að 12,4 milljarðar króna, þremur milljörðum meira en í upphafi árs. Það staðfestir einstaka viðskiptasögu félagsins sem framleiðir sérlega áhugaverðar vörur sem nýtast með eftirtektarverðum hætti til lækninga. Grunnur framleiðslu Kerecis byggist á nýtingu sjávarfangs. Án íslensks sávarútvegs hefði félagið ekki orðið til.
Skaginn3X veltir 10 milljörðum
Önnur velgengnissaga birtist í Markaðinum. Þar er sögð saga hátæknifyrirtækisins Skagans3X Akranesi en félagið velti nærri tíu milljörðum króna á síðasta ári. Á Akranesi eru tæplega átta þúsund íbúar og því skiptir tilkoma slíks félags gríðarlegu máli. Skaginn 3X þróar og framleiðir tækjabúnað fyrir matvælaiðnað, einkum fiskvinnslu, og er með um 300 starfsmenn. Þar af starfa um 200 á Akranesi, um 70 á Ísafirði en aðrir eru í Reykjavík. Ekki verður farið út í að meta verðmæti félagsins hér en það hefur vaxið um 10% að meðaltali á líftíma sínum, að mestu innri vöxtur en uppkaup annarra félaga takmarkast við 3X Technology. Hagnaður samstæðunnar var 502 milljónir króna árið 2017 og arðsemi eiginfjár var 22 prósent. Eiginfjárhlutfallið var 44 prósent og eigið fé var 2,4 milljarðar króna. Án íslensks sjávarútvegs hefði félagið ekki orðið til.