c

Pistlar:

18. júní 2019 kl. 16:57

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Millilandaflug og fullveldið

Millilandaflug hefur ávallt verið tengt fullveldi landsins. Það er engin tilviljun að slíkt flug hófst einmitt þjóðhátíðardaginn 17. júní 1947. Þá fór fyrsta flugvélin, sem Íslendingar keyptu til millilandaflugs, Hekla, í eigu Loftleiða hf. í sína fyrstu áætlunarferð til útlanda. Það þurfti mikinn stórhug og kjark til þess að afráða kaup á íslenskri millilandaflugvél á þessum tíma og var framtakið af vel flestum talin orka mjög tvímælis. Um leið vafðist fyrir mörgum að skilja rekstrargrundvöll hennar. Þekking Íslendinga hefur vaxið stórum á flugi í gegnum tíðina en þetta er um margt kvik og erfið starfsgrein þó að hún hafi skipt okkur Íslendinga gríðarlega miklu í atvinnusögu okkar.wow

Frá framsýni til rannsókna

Flugið er enda undirstaða ferðaþjónustunnar, okkar stærstu útflutningsgreinar í dag og því ekki nema von að margir leggi eitthvað til málanna þegar hana ber á góma. Nú síðast gjaldþrot WOW air en óhætt er að segja að það sé einn stærsti og afdrifaríkasti þáttur viðskiptasögu okkar síðan í bankahruninu.

Í dag var greint frá því að umhverfis- og samgöngunefnd hyggst leggja fyrir Alþingi beiðni um að Ríkisendurskoðun geri úttekt á aðkomu Samgöngustofu og Isavia ohf. að starfsemi og rekstri WOW air hf. í aðdraganda gjaldþrots félagsins. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og aðal flutningsmaður tillögunnar, segir í samtali við mbl.is að markmiðið sé að fá „skýra mynd af því hvað þeir lögbundnu eftirlitsaðilar vissu og voru að gera í aðdraganda falls WOW air og hvort öllum reglum hafi verið fylgt. Bæði hvað varðar fjárveitingar eða einhverskonar ívilnun hjá Isavia og líka mat á flugrekstrarhæfi í tilfelli Samgöngustofu.“

Svo mörg voru þau orð. Undirritaður er nú að lesa nýja bók um fall WOW sem virðist hin prýðilegasta úttekt og sýnir líka vel hve erfið starfsgrein þetta er. Nú má velta fyrir sér hvort menn telji nauðsynlegt að gera upp WOW í dómsölum eins og bankahrunið? Má vera að fátt skýri betur breytta afstöðu til áhættu í rekstri nú þegar sífellt stærri hluti vinnuafls starfar hjá hinu opinbera.

Millilandaflugið fer af stað

Víkjum að áhættu fyrri ára, áður en hægt var að rannsaka allt í þaula. Það þarf varla að taka fram hve mikil bylting fólst í millilandaflugi fyrir landsmenn. Rifja má upp að Hekla kom sína fyrstu ferð til Reykjavíkur 15. júní sama ár og var þá flugvélinni svo lýst í Morgunblaðinu: „Hekla er fjögurra hreyfla flugvél og er hver þeirra 1350 hestöfl. Vængjahaf hennar er hvorki meira né minna en 118 fet. Fullhlaðin getur flugvélin borið 33 smálestir. í henni eru nú sæti fyrir 46 farþega, auk farangurs og póstgeymslu. Áhöfn flugvélarinnar verður 7 manns".

En það var við upphaf þriðja starfsárs, í apríl 1946, að stjórn Loftleiða hf. ákvað að festa kaup á flugvél, sem haldið gæti uppi ferðum milli Íslands og útlanda. Fyrir valinu varð flugvél af Skymaster gerð. Var hún keypt í Bandaríkjunum og var kaupverð hennar 125 þúsund dalir. Vélin hafði áður verið notuð til herflutninga og þurfti því að breyta innréttingu hennar, en gert var ráð fyrir að það myndi kosta um 35 þúsund dali, og átti því verki að vera lokið á tiltölulega skömmum tíma.

Á þessum tíma voru stopular flugsamgöngur við Ísland. Erlend flugfélög héldu þá uppi ferðum milli meginlands Evrópu og Ameríku með viðkomu á Íslandi, og fluttu hingað farþega einungis að eigin geðþótta eins og sagði í frétt Morgunblaðsins. Má t.d. lesa það í einu reykvísku dagblaði hinn 10. júní 1947 að félagið Air France „gerði sér vonir um, að geta von bráðar farið að taka íslenska farþega hér a.m.k. 2 til 3 sæti með hverri ferð", en þá komu vélar flugfélagsins hér við 4-5 sinnum í viku.

Keyptu millilandaflugvél þrátt fyrir taprekstur

En það voru frumkvöðlarnir í Loftleiðum sem unnu ótrúleg afrek. Það er vert að minnast þess nú þegar sá síðasti þeirra, Dagfinnur Stefánsson, er fallinn frá. Í ársbyrjun 1946 voru 15 manns starfandi hjá Loftleiðum. Félagið átti þá lítinn flugkost en hafði þó flutt rúmlega 4 þúsund farþega árið 1945. Heildarvelta þess varð þá rúmlega 900 þúsund krónur en skuldir voru miklar og lánstraust takmarkað. Var því um mikinn kjark og stórhug að ræða er félagið ákvað að kaupa millilandavélina og segja má að landsmenn hafi notið þess æ síðan.