c

Pistlar:

14. júlí 2019 kl. 22:38

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skógur til bjargar

Það er magnað að fylgjast með gróandanum þessa dagana og bændur og búalið gleðjast. Við höfuðborgarbúar sjáum garðagróður spretta sem aldrei fyrr og laufþekja trjánna er einstök. Ég læt hér fylgja með mynd af fallegum hlyni í næsta garði. Þetta er notaleg tilfinning og minnir á þá hvað hægt er að gera í landgræðslu og skógrækt hér á þessu landi sem menn í eina tíð trúðu að gæti ekki fóstrað skóg og það væri beinlínis rangt að ætla sér slíkt.hlynur 2

Hér hefur í pistlum margoft verið minnst á notagildi skógræktar og er ástæða til að minna á það í eitt skipti enn. Það er ánægjulegt að sjá hve mikla þekkingu íslenskir náttúrufræðingar og skógfræðingar hafa á möguleikum skógræktar og ekki að efa að við getum gefið duglega í hvað það varðar. Nú vitum við miklu meira um hvaða tré og plöntur henta á hverjum stað og höfum einstæða möguleika á því að efla og styrkja skógrækt og vinna þannig gegn breytingum á náttúru og aukningu koltvísýrings í andrúmsloftinu. Hér hefur verið bent á að skógrækt sé líklega fljótvirkasta og besta leiðin til þess að uppfylla kvaðir okkar Íslendinga í loftslagsmálum. Fyrir utan hvað það er notadrjúg og falleg leið. Augljóslega höfum við Íslendingar einstök tækifæri til að láta til okkar taka á þessum vettvangi eins gróðurvana og landið er þó það hafi reyndar grænkað mikið undanfarin ár.

Á nýlegu ferðalagi um vestur- og norðurland varð pistlaskrifari áþreifanlega var við hvað mikið er hægt að gera í skógrækt á skömmum tíma en víða má nú sjá gerðarlega skóga. Það verður að játast að hrifnastur er ég af því þegar skógræktin les sig upp fjallshlíðar og klæðir þær grænni slikju. Um leið gleðst ég yfir því að útsýnið er áfram til staðar.

Svæði á stærð við Bandaríkin

Nú er vitað að tiltækt er land á jörðinni til ræktunar skóga sem gætu bundið tvo þriðju af þeim koltvísýringi sem mannkynið hefur losað frá iðnbyltingu. Þessi skógrækt myndi ekki þrengja að þéttbýlis- og landbúnaðarsvæðum heimsins. Samanlagt er þetta tiltæka skógræktarland á stærð við Bandaríkin.

Frá þessu er greint í frétt á vef Skógræktarinnar. Þar er bent á að á vefnum Live Science er fjallað um málið og sagt frá rannsókninni sem leiddi af sér þessar niðurstöður. Þar er bent á að um 900 milljónir hektara lands vítt og breitt um heiminn gætu hentað til endurheimtar skóglendis sem á endanum gæti bundið tvo þriðju þeirrar koltvísýringslosunar sem athafnir mannsins hafa leitt af sér. Það munar um minna.

Skógræktin ýtir við sveitarfélögum

Ljóst er að margt getur breyst til betri vegar á skömmum tíma hér á landi. Þannig verður að teljast jákvætt að Skógræktin hefur að undanförnu sent sveitarfélögum landsins bréf um landshlutaáætlanir í skógrækt og lykilhlutverk sveitarfélaga í loftslagsmálum. Skógræktin hefur óskað eftir fundi með sveitarfélögunum til þess að kynna áform sín og ræða hvernig gera megi betur grein fyrir skógrækt og skógræktaráformum í aðalskipulagi hvers sveitarfélags.

Í drögum að nýrri umhverfisstefnu fyrir Sveitarfélagið Skagafjörð er kveðið á um að binding koltvísýrings úr andrúmsloftinu með skógrækt og endurheimt votlendis skuli aukin verulega í samráði við Landgræðsluna og Skógræktina. Sveitarfélagið skuli stefna að kolefnisjöfnun fyrir árið 2040. Fleiri sveitarfélög eru komin af stað eða eru að hugsa sér til hreyfings.

Augljóslega ætla skógræktendur sér stóran hlut. Heyrst hefur að undanförnu að uppi séu áform um uppbyggingu gróðrarstöðva víðar um land sem myndu bjóða í skógarplöntuframleiðslu. Vonandi ganga þau áform eftir.