Undanfarið hefur enn á ný risið upp umræða um jarðarkaup útlendinga í kjölfar frétta um að nokkrar jarðir hafi fallið í þeirra hendur og fleiri séu kaup séu áformuð. Augljóslega veldur þetta mörgum áhyggjum og sumir kalla á eftir sérstökum aðgerðum til að stemma stigum við þessu. Það er eðlilegt að fylgjast með þessum málum og vel má ræða það að setja einhverjar takmarkanir, svo sem stærð þess landsvæðis sem hver og einn aðili getur sankað að sér. Mörg lönd hafa um þetta löggjöf og eðlilegt að fylgjast með hvort þurfi að innleiða slíkt hér. Læt hér fylgja með mynd af fallegri á í Skagafirði sem nú virðist orðin verðmætari en heimamenn áttuðu sig á af því að glöggir menn að sunnan eru að kynna hana sem veiðiá. Allt getur tekið breytingum en vitaskuld hefur áin alltaf verið jafn falleg.
En aftur að jarðakaupunum. Að sumu leyti birtast þar óþarfa áhyggjur. Í gegnum tíðina hafa útlendingar fest sér jarðir hér og átt þær um skeið en við kynslóðaskipti eru þær gjarnan seldar. Margir þeirra einstaklinga sem kaupa hér jarðir taka ástfóstri við landið eða tiltekin svæði og vilja miklu til kosta til að komast í nánari snertingu við það. Um leið vilja þeir vernda landið með sínum hætti. Þetta er þekkt víða erlendis þar sem auðmenn hafa keypt landsvæði beinlínis til friðunar og hafa síðar afhent það landsmönnum til varðveislu. Þannig er talið að bandaríski auðmaðurinn Doug Tompkins hafi upp á sitt einsdæmi búið til stærsta þjóðgarð Chile eftir að ekkja hans gaf landsmönnum mikið landsvæði sem hann hafði keypt í Patagoníu.
Af líkum toga er starf Svisslendingsins Hansjörg Wyss sem keypti stór landsvæði í Wyoming í Bandaríkjunum en hann hét því fyrir nokkru síðan að verja auðæfum sínum til verndunar plánetunnar. Leið hans til þess er meðal annars að kaupa land til verndunar en það gerir hann í gegnum stofnun sem ber nafn hans, Wyss Foundation. Metnaðurinn er gríðarlegur og stefnt er að því að tryggja verndun 30% af jörðinni árið 2030. Mörg fleiri dæmi finnast.
Vill vernda laxastofna
Einhverjir hafa orðið til að reikna að breski auðkýfingurinn Jim Ratcliffe eigi nú þegar ríflega eitt prósent af Íslandi. Hann hefur fyrst og fremst fjárfest á Austurlandi og áhugi hans virðist tengjast verndun laxveiðiáa þar og þeirra viltu laxastofna sem þar er að finna. Jim Ratcliffe er að nálgast sjötugsaldurinn og þó hann virðist vel á sig kominn má velta fyrir sér hvað verður um fjárfestingar hans að honum gengnum? Líklegt er að þá komi jarðirnar aftur í sölu, ýmist einar og sér eða saman. Fram að því virðist hann vera tilbúin að fjárfesta í ýmsu því er getur styrkt þær sem laxveiðiár og getur stuðlað að verndun. Þetta er þó ekki einhlýtt og eðlilega vilja sveitafélög hafa tryggar tekjur af slíkri starfsemi. Margir virðast nú þegar vinna fyrir Ratcliffe og ekki verður annað séð en að áform hans séu siðsamleg þó - eins og áður sagði - vissulega megi velta fyrir sér hve mikið land hann eigi að fá að kaupa hér.
Önnur áberandi landakaup eru í Fljótunum þar sem ákveðin tegund af lúxusferðaþjónustu hefur hreiðrað um sig. Þar hafa jarðir sem lengi voru nánast óseljanlegar verið seldar til fyrirtækis sem hefur fjárfest fyrir háar upphæðir og skapað störf þar sem áður var enga vinnu að hafa. Erfitt er að sjá að af þessu stafi mikil hætta þó vissulega séu þetta nokkrar breytingar í ábúendatali.
Við meigum ekki gleyma því að íslensk yfirvöld hafa alltaf skipulagsvald á þessum stöðum og ekki verður ráðist í aðgerðir nema tilskilin leyfi liggi fyrir. Það er sjálfsagt að fylgjast með og skoða hvernig tekið hefur verið á málum erlendis en ástæðulaust að gera meira úr þessu en efni standa til.