c

Pistlar:

21. júlí 2019 kl. 13:36

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Af hverju á ríkið að eiga bújarðir?

Það er hálf undarlegt að sjá í dag fólk sem lagst hefur gegn öllum aðgerðum til að styrkja búsetu í landinu eða efla íslenskan landbúnað óskapast yfir kaupum erlendra aðila á jarðnæði hér á landi. Í huga þessa fólks virðist litlu skipta hvort eigendur þessara jarða lifa eða deyja eða að þeir geti yfir höfuð notið eignarréttar síns. En það sýnir hve öfugsnúin umræðan getur verið. Staðreyndin er sú að slík umræða verður aldrei slitin úr sambandi við afkomu og samkeppnishæfni landbúnaðar hér á landi.


Undanfarið hefur verið kappsfull umræða um eignarhald útlendinga eins og vikið var að í pistli hér fyrir stuttu. En samhliða þessari umræðu um eignarhald á jörðum hefur farið af stað umræða um sölu ríkisjarða. Það er löngu tímabært enda má spyrja hvað ríkið eigi að gera með að eiga jarðir sem í mörgum tilfellum henta vel til búskapar. Oft eru þessar jarðir setnar fólki sem gjarnan vill halda áfram búskap á þeim. Er ekki gráupplagt að gera þessum ábúendum auðveldara að kaupa þessar jarðir og koma þeim þar með úr eigu ríkisins? Því hefur verið haldið fram að þar geti ríkið hæglega losað 6 til 7 milljarða króna með því að selja bújarðir.land

Hefjast þarf handa við sölu ríkisjarða

Það má taka undir margt í grein Haraldar Benediktssonar alþingismanns sem birtist í Morgunblaðinu í vikunni. Hann áréttaði að það er nauðsynlegt að hafist verði handa við skipulega sölu bújarða í eigu ríkisins. Þetta hefur öllum sem til þekkja verið lengi ljóst. Haraldur sagði að um leið sé mikilvægt að mótuð sé almenn heildstæð stefna um eignarhald jarða hér á landi og ná sáttum um hvaða kröfur eðlilegt er að gera til eigenda þeirra.

Vert er að hafa í huga að ábúðarkerfið og leigukerfið er gamalgróið og var lengst af í höndum landbúnaðarráðuneytisins, en var fært til fjármálaráðuneytisins fyrir allmörgum árum. „Það tók tíma sinn en nú er loksins búið að setja eigendastefnu ríkisins um jarðir. Hún er ítarleg og í henni er m.a. að finna stefnumörkun um meðferð ríkisjarða. Ekki aðeins bújarða. Sú stefna er staðfest að ríkið efli og styrki byggð og búsetu við sölu og meðferð bújarða. Efla á landbúnað og sækja fram til blómlegri byggða. Með stefnunni er sérstakur viðauki sem fjallar sérstaklega um ábúðarjarðir, þ.e. jarðir sem eru í rekstri og eru mikilvægar fyrir áframhaldandi búrekstur,“ segir Haraldur í grein sinni.

Augljóslega þarf eigendastefna að hafa það markmið að stuðla eigi að aukinni byggðafestu. Haraldur telur því að ríkið hafi nú þegar markað skýra stefnu um eignarhald og ábúð. Stefnu sem ber með sér að ekki á nokkurn hátt er ætlunin að verða til þess að veikja byggð og búsetu í sveitum segir Haraldur.

Hvað vilja bændur?

Haraldur fullyrðir að langflestir bændur velji að selja jarðir sínar til áframhaldandi búsetu og rekstrar – sé þess nokkur kostur. En hann bendir einnig á að skattkerfið hefur haft eyðandi áhrif á byggð undanfarin ár. En eitt dæmi um það þegar skattkerfið fer að hafa stefnumótandi áhrif sem getur varla verið það sem nokkur hægri maður getur sætt sig við. Því má taka undir með Haraldi að nauðsynlegt sé að endurskoða skattalega meðferð á söluverði jarða. Um það hefur og verið lagt fram einfalt og skilvirkt frumvarp. Það má jafnvel halda því fram að skattlagning á söluverðmæti jarða hvetji til sölu úr búsetu og nýtingu. Verkefnið um eignarhald jarða og búsetu á þeim er margþætt og verður að ræða heildstætt með hagsmuni sem flestra að leiðarljósi.