Nikolas Maduro, forsætisráðherra Venesúela, segist sofa vel á nóttunni og kveðst sannfærður um að halda völdum áfram. Hætt er við að aðrir landsmenn njóti ekki sömu næturhvíldar en ástandið hefur lítið batnað í þessu hrjáða ríki þar sem sósíalistastjórn Maduro hefur sett allt á annan endann. Við blasir að þó Maduro andi léttar og telji nú minni líkur á að stjórnarandstaðan, undir forystu þingforsetans Juan Guaidó, nái völdum þá eru velviljaðar þjóðir enn að reyna að finna lýðræðislegar lausnir. Þannig hafa Norðmenn reynt að koma á viðræðum milli stjórnar og stjórnarandstöðu en ekki haft árangur sem erfiði. Þrír fundir hafa farið fram á Barbados og þar hafa menn reynt að finna flöt á því að efnt yrði til kosninga þar sem bæði Maduro og Guaidó myndu draga sig í hlé. Útilokað er talið að af því geti orðið.
Juan Guaidó lýsti sig starfandi forseta landsins í janúar og í framhaldi þess lýstu yfir fimmtíu ríki yfir stuðningi sínum við stjórn hans. Nicolas Maduro forseti naut hins vegar áfram stuðnings hersins, sem og mikilvægra bandamanna á borð við Kína og Rússland. Þá skiptir miklu fyrir hann að Rússar og Kúbverjar hafa sent hersveitir til Venesúela. Þessi afskipti og uppbygging hersins hefur leitt til þess að herinn hefur reynst vera staðfastur í stuðningi sínum við Maduro og heldur hefur fjarað undan stjórnarandstöðunni frá því í byrjun árs. Tilraun Guaidó til að ná völdum virðist hafa mistekist og almenningur er þreyttur á óvissunni og eldmóðurinn sem var í byrjun árs virðist horfinn. Miklu skiptir að nágranaríkin eru orðin þreytt á óvissunni en flóttamannastraumurinn hefur skapað margvísleg vandamál þar.
Áframhaldandi neyðarástand
Ástandið í landinu hefur hins vegar lítið batnað en um fjórar milljónir íbúa hafa flúið Venesúela síðan 2015 vegna efnahagskreppunnar sem ríkt hefur í landinu en hún hefur leitt af sér mikið atvinnuleysi og viðvarandi skort á matvælum og lyfjum. Svo mjög að neyðarástand ríkir í landinu. Það hlýtur hins vegar að vera öllum lýðræðishugsandi mönnum vonbrigði að Maduro haldi enn völdum en
Fróðlegt var að hlusta á hljóðvarp frá Stephen Gibbs, fréttaritara The Economist í Venesúela, fyrir stuttu en hann gjörþekkir málefni Latnesku Ameríku eftir að hafa flutt fréttir þaðan í 10 ár, nú síðast frá Caracas, höfuðborg Venesúela. Gibbs er ekki bjartsýn á að lýðræðisleg lausn finnist og telur að Maduro hafi styrkt sig á meðan staða Guaidó hefur veikst. Almenningur er ekki lengur eins bjartsýn og hann var í byrjun árs á að eitthvað breytist. Flestir telja nú að Maduro haldi völdum með aðstoð hersins og erlendra hernaðarráðgjafa. Lýðræðislegar aðgerðir fái ekki neinu breytt um það. En mælist stuðningur við Guaidó mjög mikill eða 57% en Maduro nýtur aðeins 10% stuðnings meðal almennings samkvæmt könnun Datanalisis í Venesúela segir í frétt Guardian.
Morðsveitir og neyðaraðstoð frá Trump
Ný skýrsla mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna sem birt var fyrir skömmu og fjallað var um hér í pistli tók af allan vafa um framferði sósíalistastjórnarinnar. Skýrslan er þungur áfellisdómur yfir stjórn Nocolas Maduro en stjórnvöld eru þar sökuð um pyntingar, kerfisbundnar nauðganir, skefjalaust ofbeldi og ólögmæt manndráp í tilraunum sínum til að halda völdum í landinu. Í skýrslunni kemur fram að sérstakar drápssveitir stjórnarinnar (Special Action Forces (FAES)) eru taldar hafa drepið 5.287 manns fram til síðustu áramóta og aðra 1.569 fram til 19. maí á þessu ári. Voru drápin framkvæmd undir formerkjum sérstakra aðgerða (Operations for the Liberation of the People) sem þessar drápssveitir stóðu fyrir að skipan stjórnvalda. Það hlýtur að vera áfall fyrir þá mörgu sósíalista víða um heim, sem reynt hafa að bera blak af sósíalistastjórn Maduro, að lesa skýrsluna.
Annað áfall er að stjórn Trump í Bandaríkjunum hefur sáralítil afskipti haft af innanríkismálum í Venesúela en það var notað sem afsökun fyrir komu hernaðarráðgjafa frá Kúbu og Rússlandi. Þvert á móti var Trump-stjórnin að ákveða að láta 40 milljónir dollara renna í neyðaraðstoð til hrjáðs almennings í Venesúela. Það eru nú öll ósköpin úr þeirri áttinni.