Óhætt er að segja að öll umfjöllun um Brexit og útgöngu Breta úr Evrópusambandinu snúi að Bretum. Það er nánast eins og samningsaðilinn hinu megin við borðið sé ekki til. En er einhugur í röðum ESB með hvernig staðið er að málum? Hver mótar stefnuna þar og hver er það sem hefur ákveðið að nálgast viðræður við Breta á þann hátt að hafna öllum samningum. Það er vissulega frétt þegar breska þingið hafnar frumvörpum forsætisráðherra síns en hvað er að gerast á meginlandinu? Hvernig stóð á því að Ursula Von Der Leyen, nýr forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, gat nánast sagt um leið og hún tók við embætti að dagsetningin 31. október væri ekki heilög? Hafði hún orðið að ráðgast við einhvern? Eða er málið þannig að á meðan Bretar verða að fara fyrir lýðræðislegar stofnanir með allar sínar ákvarðanir í Brexit getur þröngur hópur tekið ákvarðanir hinum ESB-megin, nánast án þess að spyrja einn einasta kjósanda í Evrópusambandslöndunum. Er það lýðræðislegt?
Í byrjun júlí var gengið frá því að Ursula von der Leyen, varnarmálaráðherra Þýskalands, yrði næsti forseti framkvæmdastjórnar ESB og þá um leið fyrsta konan til að gegna starfinu. Þetta var sögð niðurstaða langra samningaviðræðna leiðtoga aðildarríkja ESB um hver ætti að taka við af Jean-Claude Juncker, sem hættir í haust. Það fylgdi ekki sögunni að það eru auðvitað öxulveldi ESB, Frakkland og Þýskaland, sem ráða þessu. Um leið var tilkynnt að Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, hefði verið tilnefndur sem næsti forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins og tekur hann við af Donald Tusk. Þá var Christine Lagarde, núverandi forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, tilnefnd sem nýr forstjóri seðlabanka Evrópu og Josep Borrell Fontelles sem utanríkismálastjóri ESB. Ný stjórn tekur við 1. nóvember en Evrópuþingið varð að stimpla ákvörðunina. Ekki verður séð að á neinum tíma hafi val á þessum nýju leiðtogum farið út fyrir þann þrönga hóp sem ræður forystu ESB.
ESB hundsar endurbætur
Þegar alls þessa er gætt er forvitnilegt að hlýða á ræðu Alice Elisabeth Weidel, formanns þýska stjórnmálaflokksins Alternative für Deutschland (AfD) sem hún flutti fyrir stuttu í þýska sambandsþinginu (Bundestag). Weidel hefur vakið athygli sem stjórnmálaforingi en hún er rétt rúmlega fertug. Hún er doktor í heimspeki eftir að hafa lokið fyrrihlutaprófi í hagfræði. Í ræðu sinni svarar hún Angelu Merkel, Þýskalandskanslara, í umræðu um Brexit. Hún sagðist hafa miklar áhyggjur af kostnaðinum sem fylgdi Brexit, bæði fyrir ESB og ekki síður Þýskaland. Kostnaðurinn yrði líklega á pari við björgun bankakerfisins og fjármögnun Grikklands. Hún gagnrýndi aðferðafræði ESB í Brexit og sagði að ekki væri að sjá neina langtímastefnu í málinu. Hún gagnrýndi Merkel harðlega fyrir hvernig tekið væri á málinu sem væri í algerri andstöðu við góð samskipti Þýskalands og Bretlands. Bretar ættu annað skilið sagði Weidel. Hvað eru Bretar að fara framá sem er svona slæmt, spurði hún? Jú, sterkara þjóðþing, minna skrifræði og rekstrarhæft velferðarkerfi. Allt eðlilegar óskir sem hefðu átt að gefa ESB tækifæri til þess að ráðast í nauðsynlegar endurbætur og styðja við atvinnulífið, fjölgun starfa og sterkari innri markað. Í stað þess að fara þessa leið hefði forysta ESB ákveðið að taka áhættu með framtíð sambandsins og stofna undirstöðu þess í hættu.
Hefur mikil áhrif á fjárhag ESB
Weidel sagðist hafa miklar áhyggjur af því að ef Bretar gengju út án samnings myndi vanta 15 milljarða evra í bókhald ESB. Hvaðan á að taka þá, spyr hún? Ekki verður séð að menn ætli að spara til að mæta þessum samdrætti heldur eigi Þýskaland að venju að borga brúsann.
Augljóslega mun brottför Bretlands hafa mikil áhrif á fjárhag ESB. Bretland er næst stærsta hagkerfið innan ESB, jafnstórt og 19 smæstu ríkin samanlagt. Í efnahagslegu tilliti má þannig segja að ESB sé að skreppa saman úr 27 ríkjum í 9. Bretland er stærsti viðskiptaaðili Þýskalands innan ESB en 29% íbúa ESB búa í þessum tveimur löndum (16% í Þýskalandi og 13% í Bretlandi). Ásamt Austurríki, Danmörku og Hollandi kusu þessi lönd með líkum hætti og mynduðu 35% blokk innan ESB. Weidel telur að það sé fyrir bý.
Samskiptin við Breta eru þannig gríðarlega mikilvæg þýskum efnahag og það eru fleiri en Weidel sem hafa varað við áhrifum af útgöngu Breta á efnahag Þjóðverja. Hún segir að það séu í raun Frakkar sem standi fyrir því að meina Bretum aðgang að hinum sameiginlega markaði ef Brexit verður að veruleika.
Bretum aldrei boðinn sanngjarn samningur
Fleiri hafa varað við þróuninni ESB-megin. Í byrjun árs 2018 vöktu ummæli Pierre Gramegna, fjármálaráðherra Lúxemborgar, mikla athygli en hann sagði að augljóst væri að stórríki ESB vildu refsa Bretum fyrir að hafa kosið Brexit. Þessi ummæli lét hann falla á heimsviðskiptaráðstefnunni (World Economic Forum (WEF)) í Davos í Sviss en sagði um leið að opinberlega neituðu fulltrúar ESB þessu.
Augljóslega hyggst ESB gera útgönguna eins erfiða og mögulegt er. Það er ljóst að samheldni sambandsins er ógnað ef þeir fá þægilega útgöngu. Strax sumarið 2017 vöktu ummæli Þjóðverjans Hans-Olaf Henkel, sem situr á Evrópusambandsþinginu athygli en þá ásakaði hann Michel Barnier, aðalsamningamann ESB, um að reyna að þvinga í gegn samning sem væri óásættanlegur fyrir Breta. Það væri hugsað sem aðvörun fyrir önnur ríki sem gætu viljað feta braut Breta. Um leið ásakaði hann hinn valdamikla þingmann Guy Verhofstadt, um að stefna að því að koma málinu öllu í ógöngur og gera samningsleiðina ófæra. Verhofstadt er leiðtogi þingflokks frjálslyndra á Evrópusambandsþinginu og fulltrúi þingsins í viðræðunum um útgöngu Breta. Hann er fyrrverandi forsætisráðherra Belgíu og er eins og ófáir forystumenn ESB mikill stuðningsmaður þess að sambandið verði sambandsríki. Hann hefur gengið svo langt að rita bók sem heitir „The United States of Europe.” Það sama má segja um Ursulu von der Leyen sem nú er orðin forseti framkvæmdastjórnar ESB eins og áður sagði. Þetta er fólkið sem Bretar þurfa að eiga við um sanngjarnan samning. Þau stefna að því að gera ESB að pólitísku sambandsríki og munu því aldrei geta unnt Bretum sanngjarns samnings, óháð því hverjir hagsmunir ESB eru.