c

Pistlar:

14. ágúst 2019 kl. 10:46

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Veitingastaðir koma og fara

Ég segi stundum þá sögu að þegar ég fór í fyrsta sinn að koma til Reykjavíkur á eigin vegum seint á áttunda áratug síðustu var það helsta matarupplifunin að stoppa á Esjubergi og fá sér hamborgara með kokkteilsósu og frönskum! Jú, auðvitað vissi maður að það voru til fleiri veitingastaðir í Reykjavík en verðlag og framandleiki þeirra var meiri en fátækir menntaskólapiltar utan af landi réðu við. Esjuberg var þá hluti af Hótel Esju sem flestir í dag þekkja sem Hilton Reykjavik Nordica við Suðurlandsbraut. Áratug síðar varð Esjuberg að deila húsnæðinu með Pizza Hut-veitingastað og að lokum hurfu þeir báðir inn í móðuna og eru nú sem minning ein en nýir veitingastaðir hafa tekið við.

Það syrgir mann oft þegar ágætir veitingastaðir leggja upp laupanna og það virðist óvenju mikið um slíkt núna. Svo virðist sem rekstrarumhverfi veitingastaða í Reykjavík sé óvenju erfitt og margt bendir til þess að samkeppnin sé mikil og kostnaður hefur hækkað verulega. Nú er engin að segja að veitingafólk sé of sælt af sínu en launakostnaður hefur hækkað umtalsvert undanfarið. Húsnæðiskostnaður er mikill og ágætur leiðari Fréttablaðsins í dag minnir á að skattpíningin í Reykjavík er ekki að hjálpa til. Fyrirtæki og einstaklingar finna fyrir fasteignagjöldunum eins og öðrum gjöldum. Óliðlegheit borgaryfirvalda þegar kemur að gatagerðarframkvæmdum geta síðan kippt fótunum undan rekstri eins og dæmin sanna.veitlaugarv

Af öllu þessu má vera ljóst að augljóslega er rekstrarstaðan erfið og jafnvel staðir sem virðast njóta mikilla vinsælda virðast vera að gefast upp eins birtist nú síðast með Ostabúðina við Skólavörðustíg. Margir virðast undrast lokunina þar sem nóg hafi verið að gera en það virðist ekki duga til.

Þarf að fjárfesta svona mikið?

Fjölmiðlar hafa undanfarið flutt fréttir af lokunum veitingastaða, sumir þeirra þekktir og jafnvel verðlaunaðir. Á sama tíma er verið að leggja á ráðin um að opna nýja og talsvert virðist vera að gerast á þessum markaði. Eins og lesendur hafa kannski tekið eftir þá hef ég gaman að því að ferðast um Ítalíu, ekki síst vegna þess að þar er matur góður og matarmenning frábær. Þar eru veitingastaðir í öllum verðflokkum en það eru ekkert endilega dýru staðirnir sem eru bestir. Reyndar er oftast mjög góður matur á stöðum sem eru lítillátir og hógværir í umgjörð og þá gjarnan sóttir af heimamönnum. Þar fær maður oftast mjög góðan mat þar sem borin er virðing fyrir viðskiptavininum og greiðslugetu hans. Það er einnig áberandi að ekki finnst ítölskum veitingamönnum alltaf ástæða til að eyða miklum fjármunum í innréttingar eða umgjörð. Maturinn sé aðalatriði. Auðvitað vill fólk borða í snyrtilegu umhverfi en þó er hreinleiki alltaf mikilvægastur. Stundum undrast maður þá fjármuni sem settir eru í innréttingar íslenskra veitingastað. Vissulega getur verið gaman að fara út að borða fínt og gera sér tilstand úr öllu, fá hvíta dúka, mjúka stóla og stimamjúka þjóna. En það er bara einstaka sinnum. Oftast vill maður fá góðan mat á ódýru verði. Og vissulega er hægt að borða ódýrt hér í Reykjavík. Ég get tekið sem dæmi veitingastað eins og Geira Smart við Hverfisgötuna. Mjög smekklegur staður og talsvert lagt í innréttingar. Hádegisverður kostaði 2200 krónur og verður að teljast mjög ásættanlegt. En svo var einum bjór bætt við og kaffibolla og þá nánast tvöfaldaðist verðið. Skrítin samsetning á verði, verður að segjast.veitlaugard

Ósmart staðir með smart verð

Undanfarið hafa matarmarkaðir og götumatur verið að auka vinsældir sínar hér á landi og virðist reyndar fjölga hratt slíkum stöðum. Þar er lítið lagt upp úr innréttingum og á sumum stöðum er nánast ekkert nema útibekkur eins og sést af meðfylgjandi mynd sem er tekin við Laugardalsvöll í sumar þegar slegið var upp útimatarmarkaði. Samt er verðið það sama og á Geira Smart! Hvernig má það vera? Ef þú snæðir á stað þar sem nánast ekkert er lagt í innréttingar en maturinn kostar samt 2200 krónur eins og á Geira Smart. Hver skilur slíkt?