c

Pistlar:

22. ágúst 2019 kl. 11:40

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Matarborgin Reykjavík - liðin tíð?

Undanfarna daga hafa bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið flutt fréttir og viðtöl af ástandi mála í veitingageiranum í Reykjavík. Þessi umfjöllun kemur í kjölfar þess að margir áberandi staðir hafa lagt upp laupanna og veitingamenn virðast orðnir fremur örvæntingafullir um rekstrarstöðu fyrirtækja sinna. Í Fréttablaðinu í gær kom fram að veitinga- og kaupmenn í borginni séu sammála um að ferlið við að koma á fót fyrirtæki í borginni sé gríðarlega þungt í vöfum. Ljóst er að Reykjavíkurborg ber mikla ábyrgð á því hvernig komið er og það er furðulegt að lesa svör þeirra sem bera ábyrgð á málinu hjá meirihlutanum. Eins og vanalega virðast sumir þeirra ekki skilja rekstur eða forsendur fyrir því að fólk vilji hætta tíma og vinnu við að koma undir sig fótunum.

Á stöðu veitingahúsa var tæpt í pistli hér fyrir stuttu en flest virðist bera að sama brunni þegar viðtöl við veitingamenn eru lesin. Launakostnaður er orðin mjög hár, samkeppnisstaða við mataramarkaði skekkt, fasteignagjöld og önnur opinber gjöld hafa þrýst fasteignakostnaði upp úr öllu og svo virðist óskilvirkni og óskipulag í borginni reka endahnútinn á málið.veit1

Gjöld og álögur snarhækkað

Í viðtali við Morgunblaðið í gær sagði Skúli Gunnar Sigfússon, eigandi og stofnandi Subway á Íslandi, að gífurleg hækkun fasteignagjalda og annars íþyngjandi kostnaðar hafi reynst veitingastöðum í Reykjavík erfið. Hann sagði að það væri áhyggjuefni hve margir öflugir rekstraraðilar í miðborginni hafa orðið gjaldþrota. Hann sagði að gjöld og álögur hefðu snarhækkað og eina svar veitingamanna væri að færa sig úr miðbænum.

Fleiri hafa svipaða sögu að segja. „Í grunninn er ferlið hér úrelt, ógagnsætt, óþarflega umfangsmikið og tímafrekt,“ segir Magnús Hafliðason, framkvæmdastjóri Joe & the Juice á Íslandi, í Fréttablaðinu í gær þegar hann er spurður um hvernig það sé að koma á fót rekstri í borginni. Um leið benti hann á sláandi mun á ferlinu við að hefja rekstur hér á landi og í Noregi eða Svíþjóð. Í sömu frétt var haft eftir eiganda veitingastaðarins Roks að það vanti skilning af hálfu borgaryfirvalda á því hve mikla fjármuni og tíma fólk leggur í rekstur sinn og setji oft allt sitt undir. Annar veitingamaður lýsir ferlinu sem „hálfgerðu völundarhúsi“ í sömu frétt.

Kostulegt var að lesa viðtal við Björn Árnason, einn eigenda öldurhússins Skúla Craft Bar við Fógetatorg í sama blaði. Þar sagði hann: „Fyrir tveimur árum komu starfsmenn borgarinnar til okkar og sögðu að þau ætluðu að breyta Fógetagarðinum í matarvagnatorg. Við vorum hvött til að taka þátt í því.“ Skemmst er frá því að segja að borgin bakkaði frá öllum fyrirheitum og skyldi veitingamennina við Fógetatorg eftir með ónýtar fjárfestingar. Hægt er að velta fyrir sér hvort ekki hafi myndast skaðabótaskylda þarna en framferði hinna kjörnu fulltrúa í meirihlutanum virðist fráleitt.

Mjög flókið kerfi

Sögurnar eru endalausar. „Mín upplifun er sú að kerfið sé mjög flókið, mikið regluverk sem oft stangast á og allt tekur mjög langan tíma. Þá er erfitt að fá skýr svör og fáir aðilar sem geta veitt þau sem eru með mjög takmarkaðan tíma til að sinna fyrirspurnum. Við lentum síðan í því að framkvæmdaleyfið okkar var afturkallað vegna mistaka sem borgin gerði sem varð til þess að við náðum ekki að opna staðinn fyrr en þremur mánuðum eftir áætlaðan opnunartíma. Það var lítill skilningur á aðstöðu okkar og tók töluverðan tíma að fá þá að borðinu til að leysa úr þessu með okkur. Maður hefði haldið að fyrstu viðbrögð borgarinnar væru að leysa þar sem þeir gerðu í raun mistök
við afgreiðslu leyfisins,“ segir Hrefna Björk Sverrisdóttir í samtali við Markaðinn, viðskiptablað Fréttablaðsins í gær. Hún hefur rekið veitingahúsið Rok á Frakkastíg í þrjú ár og segist hafa þurft að beita miklum þrýstingi til að fá úr sínum málum leyst.

Í Fréttablaðinu í dag er viðtal við Þórir Gunnarsson, veitingamann og eiganda atvinnuhúsnæðis í miðbæ Reykjavíkur. Þar segir hann að stefna borgaryfirvalda varðandi matarvagna, eða kofana eins og hann kallar þá, skekkja samkeppnisstöðu veitingastaða. „Kofarnir bera enga skyldu gagnvart neinum og geta farið þegar þeim hentar en þeir eru í beinni samkeppni við veitingastaðina sem eru að þjónusta fólk allt árið,“ segir Þórir og bendir á að verðlagið sé sambærilegt en verð á stöðuleyfi matarvagnanna sé aðeins brot af fasteignagjöldum veitingastaða. Á þetta ósamræmi var bent í pistli hér fyrir stuttu en óneitanlega skýtur það skökku við að meirihlutinn i Reykjavík skuli hampa matarvögnum sem lítið sem ekkert greiða síðan til samfélagsins.veit2

Horfist meirihlutinn í augu við veruleikann?

Í Morgunblaðinu í dag er rætt við Birgir Þór Bieltvedt, sem er meirihlutaeigandi að nokkrum af vinsælustu veitingastöðum landsins. Þar segist hann telja að það muni taka markaðinn 6-12 mánuði að ná nýju jafnvægi. Segir hann að offjölgun veitingastaða, hækkandi rekstrarkostnaður, arfaslappt tíðarfar síðastliðið sumar og erfiðleikar WOW air hafi litað allan markaðinn síðustu misserin. Hann segir að veitingastaðir í miðborg Reykjavíkur búi við gjörbreytt rekstrarumhverfi og að leigusalar eins og aðrir samstarfsaðilar fyrirtækjanna verði að horfast í augu við hinn breytta veruleika.

Það er orð að sönnu - en hver verða viðbrögð meirihlutans? Borgarstjóri hefur látið hafa eftir sér að það hafi alltaf staðið til að lækka gjöld á seinni hluta kjörtímabilsins. Ef lækningin á að koma þá, þá er vonandi að sjúklingurinn sé enn lifandi.