c

Pistlar:

31. ágúst 2019 kl. 16:38

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kalifornía - þar sem hinir tekjulágu flýja skatta

Flýr fólk háa skatta? Ekki endilega, en það getur haft áhrif, um það eru fjölmörg dæmi úr sögunni. Oftast er það ríkt fólk sem nýtir auð sinn til þess að flytja sig milli landa og greiðir stundum umtalsvert lægri skatta fyrir vikið. Þetta var þekkt í Svíþjóð í eina tíð þegar fremstu lista- og íþróttamenn þjóðarinnar flúðu suður til Mónakó og greiddu lægri skatta. Kunnastur þeirra var líklega Björn Borg en þekktustu mótmælin við ofurskattlagninguna komu frá Astrid Lindgren eins og sagt var frá hér. Þá var hér fyrir stuttu rifjuð upp tiltrög lagsins Taxman eftir Georg Harrison en Bítlarnir reyndu um tíma að nýta sér skattalegt hagræði erlends heimilisfangs, svona rétt eins og hún Björk okkar.

Í Bandaríkjunum er mjög ólík skattlagningastefna á milli ríkja sambandslýðveldisins. Það veldur því að það er til þess að gera einfalt fyrir fólk að flytja sig á milli og komast í hagstæðara skattaumhverfi. Einstaka ríki eins og Delaware eru skilgreind sem skattaskjól og margir íslenskir athafnamenn sem hafa verið með rekstur tengdan Bandaríkjunum skrá félög sín þar, í einhverskonar skúffum.

En undanfarin ár hefur borið á því að fólk hefur streymt frá hinni sólríku Kaliforníu, meðal annars vegna hárra skatta þar. Nú bregður hins vegar svo við að það eru ekki þeir ofurríku sem flýja heldur venjulegt fólk. Þá fólk sem tilheyrir hópi eftirlaunaþega og lægri- og millistéttar. Svo virðist sem hinir ofurríku sætti sig við skattana vegna þeirra lífsgæða sem fylgja því að lifa í Kaliforníu en aðrir kjósi að flytja sig um set til að auka ráðstöfunartekjur sínar. Það lítur því út fyrir að vaxandi fjöldi fólks hafi varla efni á því að lifa í Kaliforníu, meðal annars vegna hækkandi húsnæðisverðs og sé því tilbúið að færa sig um set.california

Ekkert venjulegt fylki

Vert er að hafa í huga að Kalifornía er ekkert venjulegt ríki með sína tæplega 40 milljón íbúa en í Bandaríkjunum öllum búa um 330 milljónir manna. Kalifornía er stærst innan Bandaríkjanna en ef það væri sjálfstætt ríki væri það fimmta stærsta hagkerfi heims og þar verður til 14% af landsframleiðslu Bandaríkjanna. Þetta hefur auðvitað mótað hugsun Kaliforníubúa sem oft líta stórt á sig. En fyrir vikið kann að koma mönnum á óvart að venjulegt fólk skuli flýja ríkið sólríka (Golden State). Efnahagurinn hefur verið talin fjölbreyttur með Hollywood og Kísildalinn (Silicon Valley) innan sinna vébanda. Þarna eru frá gamalli tíð höfuðstöðvar afþreyingaiðnaðar Bandaríkjanna og mörg af öflugustu fyrirtækjum heims hafa orðið til þar á undanförnum árum. Þá er stór hluti þeirra ávaxta sem Bandaríkjamenn neyta framleiddir í ríkinu og um 80% af öllum bandarískum vínum. Til þessa hefur verið auðvelt og eftirsóknarvert að setja fyrirtæki á stofn þarna en nú kunna að vera blikur á lofti.

Stöðugur brottflutningur innfæddra

Á milli áranna 2007 og 2016 fluttu ein milljón Bandaríkjamanna burtu frá Kaliforníu og þá til annars ríkis í Bandaríkjunum. Flestir fóru til Texas eða ríflega fjórðungur fjöldans. Þannig hafa fleiri Bandaríkjamenn farið frá Kaliforníu en til þess á hverju ári síðan 1990. Á móti kemur stöðugur straumur innflytjenda frá ríkjum utan Bandaríkjanna, bæði ríkra og örfátækra.

Nýleg skýrsla framkvæmd af Stanford-háskólanum í Kaliforníu leiðir í ljós að Kalifornía er meira aðlaðandi fyrir ríkt fólk en þá sem hafa minna á milli handanna. Fyrir vikið flytja venjulegir Bandaríkjamenn í burtu.

Þeir sem hafa tekjur yfir 125.000 dali eru því að flytja til Kaliforníu en þeir sem eru með tekjur undir 75.000 eru að flytja þaðan. Hvaða áhrif þetta hefur á lýðfræði og efnahags Kaliforníu getur verið vandasamt að segja. Breytingar á skatttekjum velta auðvitað á heildarumfangi hagkerfisins en það er ekki víst að ríkið vilji láta stimpla sig sem auðmannanýlendu („a winner-take-all economy.“) Nú er svo komið að ríkustu 5% í Kaliforníu greiða sem svarar tveimur þriðju af öllum sköttum sem innheimtast í ríkinu. 80% íbúanna, talið neðan frá á tekjuskallanum, greiða aðeins um 11% af sköttunum. Skattasérfræðingar segja að þessi þróun geti verið ríkinu hættulegt. Ef treysta á skattgreiðslur ríkustu 5% þá sé ljóst að þau séu viðkvæmari fyrir sveiflum í hagkerfinu og því geti farið svo að ef dregur saman þá geti skatttekjur lækkað hratt. Betra sé að treysta á jafnar greiðslur frá millistéttinni sem er minna háð sveiflum í hagkerfinu. Hvernig sem fer verður fróðlegt að sjá hvort áframhald verður á þessari þróun.