c

Pistlar:

14. september 2019 kl. 12:48

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Útgönguútúrsnúningar ESB

Það er sérkennilegt að sjá yfirmann samninganefndar Evrópusambandsins í Brexit-málinu tala eins og ESB beri enga ábyrgð á að ekki náist að ljúka útgöngunni með samningi. Til hvers halda menn að 50 greinin hafi yfir höfuð verið sett inn í sáttmála ESB ef ekki til þess að hún gegndi einhverju hlutverki við þegar þjóð kýs að ganga úr sambandinu? Eðlilega hvarflar það að manni að greinin hafi bara verið sett þarna til málamynda? Framganga ESB núna sýnir svart á hvítu að útgöngugreinin var hönnuð þannig að ESB hafi tögl og haldir í ferlinu og geti sett öll skilyrði. Þrátt fyrir það blasir við að ESB hefur sjálft ekki farið algerlega eftir greininni og eigi þar að auki talsvert undir að vel gangi eins og bent hefur verið á hér. Í hvers þágu haga samningamenn ESB sér með þessum hætti?

Í stuttu máli gengur greinin út á að semja um fyrirkomulag útgöngunnar með hliðsjón af rammasamkomulagi um framtíðartengsl viðkomandi útgönguríkis við sambandið. Þá hlýtur samkomulag um framtíðartengslin að þurfa að liggja fyrir áður en samið er um fyrirkomulag útgöngunnar. Í það minnsta að þetta sé unnið samhliða. En ESB hefur nú unnið þannig að þeir vilja að Bretar samþykki fyrst útgöngusamning og síðan, ef þeir gera það, sé hægt að semja um hitt. Það er auðvitað óviðunandi fyrir Breta.Daniel J. Hannan

Hamfaraútganga!

Stór hluti fjölmiðlaumræðunnar gengur út á að hamfarir bíði Breta við útgöngu. Er það gjarnan vitnað í skýrslur sem draga upp svarta mynd eins og ágætlega var rakið í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag. Það var því frískandi að lesa viðtal við Daniel J. Hannan, Evrópuþingmann Íhaldsflokksins, í Morgunblaðinu í liðinni viku. Hann var staddur hér ´alandi og var aðalræðumaður á ráðstefnu Students for Liberty, Frelsi og framtíð, sem haldin var í Salnum í Kópavogi síðastliðinn föstudag. Hannan sagði að það væri mikilvægt að árétta það, að krísan sem nú er í Westminster nær ekki út fyrir breska stjórnkerfið.

„Menn lesa fyrirsagnirnar og þar sést að kerfið á í erfiðleikum, sem getur gefið þá ímynd að Bretland í heild sinni sé í krampakasti vegna útgöngunnar,“ segir Hannan í viðtalinu. Hann sagði hins vegar að raunin sé önnur. „Atvinnuleysi hefur aldrei verið minna, hagkerfið er að stækka, ríkisstjórnin nýtur forystu í skoðanakönnunum, það er ekki halli á fjárlögum og frá því að þjóðaratkvæðið um útgönguna var haldið hefur erlend fjárfesting hvergi verið meiri nema í Kína.“

Hannan sagði enn fremur í viðtalinu að ekki sé hægt að kenna útgöngunni úr Evrópusambandinu um krísuna í Westminster. „Í raun er þessi krísa frekar tilkomin af því að útgangan hefur ekki átt sér stað!“ Undir það hafa margir tekið og margir málsmetandi menn sagt að best sé að höggva á hnútinn og klára útgönguna, með eða án samnings.

Kreppa á evru svæðinu

Hér hefur áður verið fjallað um kreppuna á evru svæðinu. Höfum í huga að nú í ágúst síðastliðnum sáust í fyrsta sinn 0% vexti af 30 ára ríkisskuldabréfum í Þýskalandi. Það þýði að þýska ríkið muni ekki greiða neina vexti af bréfunum þar til þau renna út 2050. Vextirnir fóru skömmu síðar undir núllið.

Taldar eru tæplega 60% líkur á samdrætti í efnahagslífi Þýskalands, samkvæmt nýjum tölum frá Macroeconomic Policy Institute (IMK) eins og kom fram hér á mbl.is. Þýskaland er stærsta hagkerfi Evrópu og því fylgjast menn grannt með því sem þar er að gerast.

Samkvæmt væntingavísitölu IMK eru líkurnar á samdrætti nú 59,4% en voru 43% í ágúst. Þetta eru mestu líkurnar á samdrætti þar í landi frá því veturinn 2012/​2013.

Hægt hefur á þýsku efnahagslífi þar sem útflutningsfyrirtæki finna fyrir minni eftirspurn í tengslum við fyrirhugaða útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Mjög er þrýst á þýsk stjórnvöld um aðgerðir til þess að auka eftirspurn í hagkerfinu en ekki mældist hagvöxtur í Þýskalandi á öðrum ársfjórðungi. En Þýskaland er ekki eina svæðið innan ESB sem kallar á breytingar.

Vilja breyta Dyflinnarreglugerðinni

Fréttablaðið sagði frá því í vikunni að Giuseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, hygðist biðja Evrópusambandið um staðfesta sérstöðu suðurhluta landsins hvað varðar styrki og fleira. Er það til að svæðið geti betur tekist á við atvinnuleysi og skipulagða glæpastarfsemi.

Flestir vita að mikill munur er á norður- og suðurhluta Ítalíu í efnahagslegu tilliti. Hátt í tvær milljónir íbúa á Suður-Ítalíu búa við mikla fátækt og atvinnuleysi meðal ungs fólks er meira en 50 prósent. Þar að auki skortir mikið á fjárfestingu á svæðinu og yfirvöldum hefur gengið illa að snúa þróuninni við.

Í fréttinni kemur fram að Conte hyggst funda með Ursulu von der Leyen, nýjum forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, um málefni Suður-Ítalíu. Til þess að áætlanir hans gangi í gegn telur hann að breyta þurfi samningum sambandsins um stöðugleika og vöxt og Dyflinnarreglugerðinni vegna ábyrgðar á flóttafólki. Hvernig skyldi það nú fara í Brussel-valdið?