c

Pistlar:

26. september 2019 kl. 10:42

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Loftslagsmál - orð og efndir

Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna að þýsk yfirvöld ætluðu að loka kjarnorkuverum Þýskalands innan tveggja ára en kolaorkuverunum landsins ekki fyrr en árið 2038. Þeir sem hafa einhvern skilning á því sem er að gerast í loftslagsmálum átta sig fljótt á því að betur hefði farið á því að hún hefði haft framkvæmdaröðina á hinn veginn. Lokað kolaorkuverunum strax en leyft kjarnorkuverunum að vera áfram. Það hefði strax dregið úr koldíoxíðlosun sem orsakar hitun andrúmsloftsins samkvæmt kenningum loftslagsfræðanna.

Angela Merkel var ein þeirra sem fékk að tala á ráðstefnu SÞ af því að talið var að hún hefði eitthvað til málanna að leggja enda með 60 milljarða evra framkvæmdaáætlun í höndunum sem Þjóðverjar vita ekki hvort þeir eiga að gráta eða hlægja yfir. Á sama tíma er vitað að Þýskaland er stærsti notandi brúnkola í heiminum, sem eru versti orkugjafinn af öllu jarðefnaeldsneyti þegar kemur að koldíoxíðlosun. Á síðasta ári var hefðbundnum kolanámum lokað í Þýskalandi en þær hafa verið niðurgreiddar síðan 1960. Um leið hafa Þjóðverjar aukið kolainnflutning frá öðrum löndum, svo sem Rússlandi sem leiðir þá enn frekar í hendurnar á orkustefnu Vladimir Putins sem tengist örugglega ekkert umhverfismálum. Út frá loftslagsmálum væri án efa betra fyrir Þjóðverja að treysta áfram á kjarnorkuver sín.brunkol

Geta ekki neitað sér um brúnkolin

Brúnkolsnámur Þjóðverja eru svo hagkvæmar að þeir tíma ekki að loka þeim fyrr en eftir 20 ár en um 20% af orkuþörf þeirra kemur frá slíkri uppsprettu. 180.000 hektarar lands hafa farið undir slíkar námur en kolin eru unnin úr opnum námum sem skilja eftir sig svöðusár í landslaginu eins og sést af meðfylgjandi mynd. Undanfarin misseri hefur hópur umhverfisverndarsinna í Þýskalandi reynt að bjarga einum elsta skógi landsins frá því að hverfa í kjafta brúnkolavélanna en ekki haft árangur sem erfiði. Hundruð býla og þorpa hafa horfið undir námurnar í gegnum tíðina.

Ef Þjóðverjar vildu draga sem hraðast úr koldíoxíðlosun myndu þeir loka brúnkolsnámunum strax og hefja bergbrot (e. fracking sem er stytting á orðinu „hydraulic fracturing“ sem mætti einnig þýða vökvaknúin sprungumyndun) sem hefur gert jarðgas (sem undirritaður hefur stundum viljað kalla leirgas) aðgengilegt. Jarðgas er margfalt betra en brúnkol þegar kemur að koldíoxíðlosun. Bandaríkjamenn hafa verið þjóða fremstir í þróun og notkun bergbrots sem hefur gert það að verkum að þeir hafa átt auðveldara með að uppfylla Kyoto-samkomulagið frá 1997. Um það hefur verið fjallað hér í pistlum.

Brussel notar að mestu olíu og gas

En það eru fleiri í Evrópu sem eiga í vanda vegna orkumála. Samkvæmt tölum Energy Guide í Brussel í Belgíu er grunnorkan sem notuð er í Belgíu að 95% hluta innflutt og að mestu olía og gas eins og var rakið í ágætri grein í Bændablaðinu fyrir skömmu. Þar að auki er mikið flutt inn af föstu eldsneyti svo sem kolum og timbri, og síðan úraníum fyrir kjarnorkuver. Um 55% raforkunnar sem notuð er í Belgíu er framleidd í sjö kjarnorkuverum, nokkur þeirra við landamæri Þýskaland. Belgar samþykktu árið 2003 að loka kjarnorkuverum sínum 2023 en nú er ljóst að þær tímasetningar standast ekki. Evrópudómstólinn úrskurðaði í sumar að þeir mættu reka áfram kjarnorkuverin þrátt fyrir að fara ekki að lögum um umhverfismál, meðal annars hvað varðar umhverfisbókhald. Allt er þetta á augljósum undanþágum.

Önnur orka sem notuð er í Belgíu er að mestu framleidd með kolum, olíu og gasi, en endurnýjanleg orka er enn aðeins lítill hluti af raforkuframleiðslu landsins. Hluti raforkunnar er síðan flutt inn frá nágrannaríkjunum, Frakklandi, Þýskalandi og Sviss.belgkjarn


Þetta er ekki ósvipað því sem þekkist víðar í Evrópu og Bandaríkjunum. Stöðugt er þó verið að bæta við vindmyllum til raforkuframleiðslu, en farið er að bera á óþoli fyrir vindmyllum af hálfu umhverfisverndarsinna vegna sjónmengunar og fugladauða sem þær eru sagðar valda. Þá er helsti vandi orkumarkaðar Evrópu sá að ekki tekst að flytja orkuna á milli svæða. Til þessa hafa kolaorkuverin verið staðsett nálægt iðjuverunum en aukin endurnýtanleg og umhverfisvæn orka kallar á auknar raflagnir þvers og kruss um lönd og sjó. Auðvitað eru landeigendur og almenningur á móti því. Þarna er því verk að vinna áður en draumurinn um sameiginlegan orkumarkað verður að veruleika.