Í eina tíð var hent að því gaman við Háskóla Íslands að fræðimenn yrðu að bíða með nýjar kenningar þar til forveri þeirra í fræðunum væri látinn. Þannig væri tryggt að ekkert rask kæmist á fræðaheiminn og eftirmaðurinn erfði einfaldlega sína stöðu og gott skikk var á vísindunum! Auðvitað er þessi saga meira til gamans en hitt en áður en Háskóli Íslands fékk almennilega samkeppni frá nýjum háskólum var sannarlega vöntun á gerjun hugmynda á ýmsum sviðum. Menn „áttu“ stöður og fræði og innan sumra greina var þess vandlega gætt að þessari röðun væri ekki raskað.
En staðreyndin er sú, að nú á tímum gengdarlausra rannsókna, gríðarlegrar gagnaöflunar og vaxandi færni og getu til að vinna með og afla vísindalegra gagna virðist vísindaheimurinn standa frammi fyrir sömu áskorunum og þeir sem velkjast um í dægurumræðunni; hverju ber að trúa? Rétt eins og heimur stjórnmála og fjölmiðla virðist útataður í falsfréttum og röngum heimildum virðist vísindaheimurinn eiga í erfiðleikum á sumum sviðum.
Nýjar heimildir grafnar úr jörðu
Á sínum tíma þegar pistlaskrifari lagði stund á sagnfræði við Háskóla Íslands var Gunnar Karlsson talinn framsæknastur kennara í aðferðafræðum sagnfræðinnar, þá til þess að gera nýlega orðin doktor í Þingeyingum. Það fannst okkur Sunnlendingum vel af sér vikið en með mér voru sveitungar Gunnars, þeir Bjarni Harðarson og Þórhallur Heimisson, bráðgáfaðir menn sem hafa elst af skynsemi síðan. Enginn okkar lauk prófi í sagnfræði en það er önnur saga og ekki Gunnari að kenna. Síðar þegar póstmódernisminn var búinn að rugla dálítið í sagnfræðinni og geta af sér einsöguna og allskonar annað góðgæti fannst mér eins og það væri kominn kaldari tónn í garð Gunnars frá yngri sagnfræðingum. Það kann að vera misskilningur en Gunnar má þó eiga að hann hefur staðið í lengstu fræðilegu ritdeilu Íslandssögunnar við þann ágæta fræðimann Helga Þorláksson. Á þeim báðum hef ég nokkuð álit þó ég geti ekki sagt um það hvað nákvæmlega deilan stóð. En sagnfræðin er til þess að gera kyrrlát fræðigrein þar sem að mestu er deilt um gildi heimilda og ágæti túlkana byggð á þeim. Það er helst að fornleifafræðin komi róti á einstaka sagnfræðinga og má þar segja að komi vel á vondan. Nýjar vísindalegar aðferðir sem meðal annars byggja á mælanlegum gögnum (geislakolsmælingum) og tölfræðilegri úrvinnslu þeirra raski ró vísindagreinar sem hefur haft bókstafinn sem sitt skjól.
Að sjá ekki skóginn fyrir grasinu
En það þarf ekki alltaf mikið til að valda óróa meðal vísindamanna. Í vikunni birtist heilsíðuviðtal við dr. Önnu Guðrúnu Þórhallsdóttur, beitarvistfræðing og prófessor við Háskólann á Hólum. Hún hefur lengi skoðað áhrif beitar og er eini sérfræðingur landsins með doktorspróf á því sviði. Semsagt nokkuð vel innmúruð í þeirri fræðigrein. En til að gera langa sögu stutta þá má segja að hún hafi skotið niður þær hugmyndir að skógrækt dygði vel í loftslagsbaráttunni. Kom nú nokkuð á pistlaskrifara og marga aðra er trúa hinu gagnstæða. Segja má að alla vikuna hafi sérfræðingar í skógrækt - og þar með taldir einhverjir doktorar - andmælt þessum skoðunum beitarvistfræðidoktorsins á Hólum. Í vikulokin kom síðan svargrein frá Þresti Eysteinssyni skógræktarstjóra sem bar fyrirsögnina: Skógrækt vinnur gegn hlýnun. Nokkuð afgerandi andsvar. Það má ætla að þessari umræðu sé ekki lokið en augljóslega er allt þetta gagnmenntaða fólk á öndverðri skoðun.
Önnur svona akademísk deila er varðar dr. Önnu Guðrúnu kom upp í hendurnar á dyggum lesendum álitsgerð umboðsmanns Alþingis í vikunni. Þar taldi umbi að Landbúnaðarháskóli Íslands hefði ekki farið að lögum þegar Anna Guðrún, þá prófessor við skólann, var áminnt og samið um flutning hennar í starfi árið 2018. Málið á upptök sín í tölvupósti sem Anna Guðrún sendi samstarfsmönnum sínum, þar sem hún sakaði skólann um skoðanakúgun. Þá áminnir umbi einnig menntamálaráðuneytið vegna aðkomu þess að málinu. Það vakti sérstaka athygli mína að Anna Guðrún gagnrýndi að litið hefði verið fram hjá sér við skipulagningu tiltekinnar ráðstefnu, þrátt fyrir sérþekkingu hennar á sviði landnotkunar og loftslagsmála. Einnig sagði hún að síðustu ár hefði borið á því innan skólans að „tilteknar skoðanir skuli útiloka og þeir sem þær hafa eru sniðgengnir á þann hátt að helst má líkja við einelti.“
Þöggun í háskólasamfélaginu
Þar höfum við það, akademían er ekki yfir einelti hafin. Auðvitað má undrast margt sem frá háskólasamfélaginu kemur og augljóst að fræðastarfið endar oft í persónulegum deilur eða jafnvel óvild. Ein birtingamynd þess birtist í þöggun, að geta ekki heimilda sem þó ættu að vera stór hluti af umræðunni. Fyrrverandi prófessor í lögum og hæstaréttardómari, Jón Steinar Gunnlaugsson, hefur bent á þetta og dæmin eru mörg. Uppgjörsráðstefna Háskóla Íslands á síðasta ári við bankahrunið var af líkum meiði, nánast eins og það væri verið að forma tiltekna skoðun á ýmsum þeim álitaefnum sem þar komu upp, svo sem Icesave-málinu. Þetta gerði ég að umræðuefni fyrir ári síðan í kjölfar ráðstefnunnar. Það var reyndar hálf dapurlegt að sitja í hátíðarsal HÍ og hlusta á nokkra prófessora reyna að slá varðstöðu utan um skoðanir sínar í þessum málum og hleypa annarri umræðu ekki að.
Heimsendaspámenn og afneitunarsinnar
En þá erum við komin að heitasta umræðuefni síðustu missera, loftslagsmálunum. Þar hefur risið upp sterk heittrúarstefna sem gengur út á að hafna öllum andmælum um nánast sjálfgefna breytingu á loftslagi jarðarinnar af mannavöldum. Það er með ólíkindum að þeir sem halda áfram að spyrja spurninga og taka þátt í umræðunni með opnum hætti séu sagðir hafna vísindum. Þeir séu „afneitunarsinnar“ og ekki húsum hæfir. Það er augljóst að einhverskonar hreintrúarstefna er rekin í þessum málum og eins og svo oft áður þá gengur Ríkisútvarpið þar fram fyrir skjöldu. Í Silfrinu á morgun er boðað drottningarviðtal við viðurkenndan loftslagspáfa. Munu andstæð sjónarmið fá sambærilegan tíma? Hlutur Háskóla Íslands vekur einnig eftirtekt á þessu sviði. Þar hefur prófessor í bókmenntafræði tekið að sér hlutverk heimsendaspámanns og atyrðir aðra fræðimenn sem taka til máls. Skiptir engu þó fræðigreinar þeirrar gefi fremur ástæðu til að ætla að þeir hafi skilning á vísindalegum gögnum sem liggja til grundvallar. Það verður að segjast eins og er að það er hálf undarlegt að fylgjast með þessu „fræðaiðkunum“.
Loftslagsmálin eru gríðarlega flókin. Það er eitt að samþykkja þær mælingar sem hafa verið gerðar, annað að taka við athugasemdalaust þeim ályktunum sem út frá þeim koma. Þá hljóta viðbrögð og lausnir að verða að ræðast af einhverri skynsemi en ekki óðagoti og upphlaupum sem allt of mikið sést af.