c

Pistlar:

15. október 2019 kl. 21:59

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Friðarverðlaunahafi í miðju góðæri

Það var vel til fundið að láta Abiy Ahmed, forsætisráðherra Eþíópíu, fá friðarverðlaun Nóbels í ár. Þetta er í hundraðasta skipti sem friðarverðlaun Nóbels eru veitt og annað árið í röð sem Afríkumaður hlýtur þau en læknirinn Denis Mukwege frá Kongó hlaut þau á síðasta ári. Svo virðist að Afríkumenn fái sinn skerf af friðarverðlaununum en Abiy Ahmed er tólfti Afríkubúinn til að hljóta þau. Aðrir frá Afríku sem hafa hlotið þau eru: Albert Luthuli, Anwar al-Sadat, Desmond Tutu, Nelson Mandela og F.W. de Klerk, Kofi Annan, Wangari Maathai, Mohamed ElBaradei, Leymah Gbowee og Ellen Johnson Sirleaf. Túnis-kvartettinn, samtök fjögurra hreyfinga í Túnis, fengu svo verðlaunin 2015.

Við blasir að með komu Abiy Ahmed hefur færst von yfir heimshluta sem hefur verið í upplausn svo lengi sem menn muna. Það er varla svo að hægt sé að tala um að lönd eins og Súdan og Erítreu sé stjórntæk, svo bagalegt er ástandið þar enda hafa löglausir óaldahópar vaðið þar uppi og fjármagnað starfsemi sína með glæpum og sjóránum. Auk þessara landa á Eþíópía landamæri að Kenía og Suður-Súdan.AbiyAhmedtranscript

Abiy Ahmed fær verðlaunin einkum fyrir viðleitni til að leysa landamæradeilur landsins við grannríkið Erítreu og koma á friði. Í frétt í Morgunblaðinu var sagt að honum væri lýst sem framsýnum hugsjónamanni og umbótasinna en fréttaskýrendur segja að hann standi frammi fyrir mjög erfiðum vandamálum og þau ógni árangrinum af starfinu sem hann fékk verðlaunin fyrir. Bakgrunnur hans er forvitnilegur, faðir hans var múslimi og átti fjórar konur en móðir hans er kristin. Svo virðist sem hann hafi verið þátttakandi í vopnuðum átökum sem unglingur en sýndi greinilega námshæfileika og er með doktorsgráðu í heimspeki frá háskólanum í Addis Ababa.

Yngsti leiðtogi yngstu álfunnar

Abiy Ahmed er 43 ára og yngsti leiðtogi Afríkuríkis en Afríka er einnig yngsta álfan. Hann er formaður Lýðræðis- og byltingarhreyfingar eþíópísku þjóðarinnar og Orómó-lýðræðisflokksins, sem er einn af fjórum aðildarflokknum í Lýðræðis- og byltingarhreyfingunni. Abiy Ahmed varð forsætisráðherra Eþíópíu í apríl á síðasta ári og hóf strax metnaðarfullar friðarumleitanir og umbætur næstu sex mánuðina. Auk þess sem hann náði friðarsamkomulagi við stjórnvöld í Erítreu leysti hann þúsundir eþíópískra andófsmanna úr fangelsi, baðst afsökunar á ofbeldi ríkisvaldsins og heimilaði heimkomu útlægra liðsmanna vopnaðra hópa sem forverar hans í embættinu höfðu lýst sem „hryðjuverkahópum“. Forsætisráðherrann boðaði einnig lýðræðisumbætur og gerði ráðstafanir til að auka áhrif kvenna í stjórnmálunum. Þá gegndi hann mikilvægu hlutverki í friðarumleitunum í Súdan og Suður-Súdan.

Efnahagslegur uppgangur

En sú pólitíska von sem kemur með Abiy Ahmed fæðist ekki í tómarúmi. Eþíópía er næst fjölmennasta þjóð Afríku, næst á eftir Nígeríu. Í landinu búa nú ríflega 110 milljónir manna og njóta nú talsverðrar efnahagslegrar velsældar, reyndar þeirra mestu í Afríku. Síðustu 10 ár hefur hagvöxtur vaxið um 10% að meðaltali á ári en hafa verður í huga að landið var mjög fátækt. Þetta er þó helmingi meiri hagvöxtur en löndin á svæðinu njóta að meðaltali. Meðallaun eru ekki nema 800 Bandaríkjadalir í dag en eigi að síður sjá fleiri og fleiri tækifæri til þess að bæta stöðu sína og stjórnvöld hafa metnaðarfull markmið á því sviði.

Eins og mörg önnur lönd hefur Eþíópía fyrst og fremst upp á vinnuafl að bjóða. Þangað hefur alþjóðlegur fataiðnaður sótt í auknum mæli en hér hefur áður verið bent á hvað það gerði fyrir efnahag Bangladess sem hefur átt mikilli efnahagslegri velgengni að fagna undanfarna áratugi og rekur nú næst umfangsmesta fataiðnað í heimi. Já, þessi lönd sauma ódýru fötin sem við viljum klæðast. Stundum er velmeinandi fólk á Vesturlöndum með samviskubit yfir því en staðreyndin er sú að þessi iðnaður hefur aðstoðað fólk í viðkomandi löndum að komast í bjargálnir. Kína er líklega skýrasta dæmi um hvað breytingin frá því að bjóða upp á ódýrt vinnuafl yfir í hátæknisamfélag getur gerst hratt. Líklega eru ekki nema um það bil 30 ár síðan Kínverjar buðu fyrst og fremst upp á ódýrt vinnuafl.

Er vonandi að það bíði nú Eþíópíumanna. Það er líklega of snemmt að trúa því að allt fari á besta veg og augljóst að það eru miklar áskoranir framundan við að skapa stöðugleika í samfélaginu, styrkja stoðir lýðræðisins, byggja upp innviði og efla menntun og heilsufar. En síðustu ár gefa tilefni til nokkurrar bjartsýni og ekki spilli fyrir að landið er í raun mjög vel sett þegar kemur að heimsviðskiptum, statt mitt á milli austurs og vesturs.