c

Pistlar:

2. nóvember 2019 kl. 14:55

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Tæknibreytingar í orkuþyrstum heimi

Að sjá fyrir og rýna í hugsanlegar breytingar er vandasamur leikur en þó eiga margir allnokkuð undir því að vera framsýnir og forsjálir. Það á við um bæði rekstur fyrirtækja og í einkalífi. En heimurinn hefur tilhneigingu til að koma fólki á óvart og breyturnar sem geta haft áhrif á framtíðina eru óendanlegar. Við sjáum það í dag að margir deila þeirri framtíðarsýn að ef ekkert verði að gert í loftslagsmálum þá muni illa fara fyrir okkur jarðarbúum. Það er hægt að taka undir að við eigum að vera skynsöm, varfærin og fyrirhyggjusöm á öllum þeim sviðum er snerta náttúru og náttúrufar. En margt verður ekki séð fyrir og fortíðin er full af heimsendaspám sem ekki hafa ræst, sem betur fer, því ella værum við ekki hér í dag.

Það er ljóst að orkubúskapur heimsins er lykilþáttur í því hvernig okkur reiðir af. Það er skynsamlegt að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og margir möguleikar hafa opnast. Augljóst er að framþróun á sviði endurnýtanlegra orkugjafa hefur verið hröð. Svo hröð að vind- og sólarorka er orðin raunhæfur valkostur þó augljóslega hafi verið miklu kostað til í niðurgreiðslur og styrki til slíkrar framleiðslu. En hugsanlega hefur tæknin við nýtingu þessara orkugjafa komið hraðar inn en séð var fyrir og því vel líklegt að þessi orka nýtist betur og hraðar en gert var ráð fyrir við að taka út jarðefnaeldsneyti. Við eigum þó enn eftir að sjá helstu fylgikvilla þessarar tækni en margt bendir til þess að hún hafi meiri umhverfisleg áhrif en menn hafa látið í veðri vaka.orka1

Stundum gerast hlutir sem koma mönnum á óvart eins og sú staðreynd að Bandaríkjamönnum gekk betur en mörgum öðrum að standast Kyótó-bókunina, einfaldlega vegna þess að þeir innleiddu nýja bortækni og juku notkun jarðgas. Þetta hefur verið nefnt hér nokkrum sinnum í pistlum en þessi tækni hefur einnig bætt og aukið nýtingu gamalla olíulinda í Bandaríkjunum sem gerir þeim nú kleyft að flytja út olíu. Olíuvinnsla hefur verið í Texas í hátt í 150 ár og enn eru nýjar olíulindir að finnast um leið og ný bortækni bætir nýtingu þeirra og þeirra linda sem voru fyrir. Þetta varð ekki séð fyrir en hefur haft mikil áhrif á orkubúskap Bandaríkjanna og þar með heimsins.

Nýting kjarnorku

Önnur tækni sem hefur verið að þróast frá því á miðju síðustu öld byggir á kjarnorku. Þrátt fyrir mikið umtal og mikla athygli þá hafa tjón og slys vegna kjarnorku ekki verið eins skelfileg og tíð og menn halda. Reyndar hafa þau verið fremur fá en slysið í Fukushima Daiichi-kjarnorkuverinu í Japan árið 2011 hafði örlagaríkar afleiðingar. Slysið varð í kjölfar jarðskjálfta sem er sá sterkasti sem riðið hefur yfir Japan og einn af kröftugustu jarðskjálftum sem mælst hefur á jörðinni síðan nútímamælingar hófust. Flóðbylgjan sem kom í kjölfar skjálftans náði allt að 40 metra hæð. Það var þó ekki jarðskjálftinn eða flóðbylgjan sem olli tjóninu heldur mannleg mistök í kjölfarið. En Japanir urðu afhuga kjarnorku sem þá sá þeim fyrir 30% af orku landsins. Aðrar þjóðir fylgdu í kjölfarið og nú hafa Þjóðverjar boðað lokun síðustu tveggja kjarnorkuvera sinna. Á það var bent hér fyrir stuttu að ef helsta ógnin sé aukning koldíoxíðs í loftinu þá sé nær að loka kolanámum en kjarnorkuverum. 70% af orku Frakka kemur frá kjarnorku og þeir hyggjast halda áfram nýtingu hennar.orka2

Hvað hefur ný tækni í för með sér?

Um lengt skeið hafa menn beðið nýrra tækni, svo sem kalds samruna eða nýtingu nýrra og skaðminni efna við orkuvinnslu eins og Þóríums. Það hefur ekki orðið en vert er að vekja athygli á nýju svari um kaldan samruna á Vísindavefnum. Meiri líkindi standa til þess að nýjar aðferðir við nýtingu kjarnorku geti í senn aukið öryggi og minnkað umhverfishættu þeirra verulega. Það er eitthvað sem orkuþyrstur heimur ætti að horfa til.

Það er langt síðan hægt var að framleiða rafmagnsbíla en það var í raun ekki fyrr en alvara færðist í leikinn með frumkvöðlastarfi Elon Musk sem eitthvað tók að gerast. Rótgrónir framleiðendur sváfu á verðinum og eru nú að reyna að elta Tesla-bíla Musk og gengur illa. Enginn sá fyrir að svo hröð þróun yrði í framleiðslu rafmagnsbíla. Helsta vandamál tengt framleiðslu þeirra er rafhlaðan en tækni að baki henni hefur þó fleygt fram. Nú berast upplýsingar um nýja rafhlöðu sem hleðst mun hraðar. Um leið og hægt verður að framleiða skaðaminni rafhlöður sem geta hlaðist hratt og geymt mikla orku getur orðið gríðarleg breyting í orkuiðnaði og samgöngum. Það er því margt sem getur aukið okkur bjartsýni ef grannt er skoðað.