c

Pistlar:

12. nóvember 2019 kl. 11:53

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Umræða um umhverfismál

Víða á samfélagsmiðlum má finna umræðuhópa um umhverfismál. Erfitt er að átta sig á hvort þetta endurspeglar umræðuna almennt í þjóðfélaginu en þeir virðast hafa tilhneigingu til þess að skiptast upp í hópa þeirra sem eindregið trúa á loftslagsbreytingar af mannavöldum og hinna sem virðast enn ala með sér efasemdir um að spárnar, sem fyrri hópurinn trúir á, verði að veruleika. Þessir hópar eiga erfitt með að tala saman og skiptast því gjarnan á nokkuð harkalegum sendingum. Hinir sannfærðu kalla efasemdamenn gjarnan „afneitunarsinna“ sem þeir telja að sjálfsögðu hið versta mál enda séu þeir að hafna vísindunum, litlu skárri en þeir sem afneituðu þróunarkenningu Charles Darwin eins og hann setti hana fram í bók sinni Uppruni tegundanna sem kom út árið 1859. Hafa má í huga að áður fyrr var hún einnig nefnd framþróunarkenningin en það kann að vera umdeilt að setja samasemmerki á milli þróunar og framþróunar. Ekki þarf öll þróun að vera til góðs en segja má að hún sé breyting á ástandi einhvers kerfis í tíma, nokkurskonar línuleg þróun. Kenning þeirra Marx og Engels um þróun þjóðfélaga var lík tilraun og spratt upp úr sömu vísindahugsun; að hægt væri að skilgreina og afmarka þróun og í framhaldi þess stýra henni. Þróunarkenningunni var ætlað að skýra breytingu lífsins og tegundanna rétt eins og loftslagskenningum er nú ætlað að skýra breytingar á lofthjúp jarðar.umhverfi

Breytingar hafa orðið og munu verða

En það getur ruglað fólk í rýminu að það hafa alltaf átt sér stað breytingar á loftslagi jarðarinnar. Sé farið nógu langt aftur í tíma má sjá að þessar breytingar eru stórfeldar og afdrifaríkar fyrir ástand vistkerfisins á hverjum tíma. Þannig á segja að á norðurhveli jarðar sé ísöld ráðandi ástand en hlýskeið undantekningin. Það eru ekki nema 11.000 til 12.000 ár síðan ísaldarjökull huldi norðurhluta Evrópu, Ísland þar með talið. Óumdeilt er að jöklar landsins eru að einhverju leyti leifar af því og þeir hafa vaxið og minnkað síðan land byggðist. Víða á landinu má finna menjar um mjög ólíkt hitastig frá því sem nú er. Allt sýnir þetta að breytingar hafa átt sér stað, eru að eiga sér stað og munu halda áfram að eiga sér stað.

Það sem setur augljóslega mest álag á vistkerfi jarðarinnar er fjölgun jarðarbúa. Mannfjöldaspár hafa enda ekki verið til að auka mönnum bjartsýni þó margt bendi nú til þess að jafnvægi komist á fjölgun jarðarbúa fyrr en talið er. Um allan heim má sjá að aukin velsæld og hagvöxtur gera þjóðfélögum kleyft að takast betur á við ástandið heima fyrir og um leið hægir á fólksfjölgun. Horfur eru því á að hápunktur mannfjöldaþróunarinnar verði lægri en áður var talið sem er ánægjuleg breyting og skiptir miklu máli.

Hamfarastigið

Undanfarnir áratugir hafa snúist um að reyna að búa til sameiginlega skilning á ástandinu og um leið fá fram sátt um viðbrögð við því. Þrátt fyrir að Sameinuðu þjóðirnar hafi komið að þeirri vinnu með loftslagsskýrslum sínum þá er ljóst að langt er í land að menn taki þeim sem óumdeildum sannindum. Og þó að menn trúi mælinganiðurstöðunum þá geta menn áfram deilt um hvaða sannindi þau færa. Þegar allt þetta er haft í huga er ekki nema von að menn geti greint á um viðbrögð við vandanum. Er þetta ástand sem menn ætla að skattleggja sig út úr eða vilja menn vinna að framsýnni lausnum?

Ýmislegt það sem sem kemur frá þeim sem mest trúa á loftslagsbreytingar er heldur ekki sannfærandi. Tilhneiging þeirra til að færa umræðuna yfir á hamfarastig og beita fyrir sig áróðurskenndri taktík róar ekki þá hófsamari. Erfitt er að standa í málefnalegum deilum við börn og fullyrðingasama stjórnmálamenn. Ný yfirlýsing 11.000 „loftslagsvísindamanna“ virðist af þeim meiði. Engar nýjar sannanir lágu til grundvallar, aðeins var um að ræða fréttatilkynningu sem hver sem er gat skrifað nafn sitt við á netinu eins og hefur verið afhjúpað. Þetta er áróður en ekki vísindaleg umræða.

Deilt um lausnir

Því miður virðist sem svo að mjög margir virðast hafa hafnað raunhæfum og praktískum valkostum í loftslagsmálum. Kostum sem byggjast á skynsamlegri nálgun á þeim breytingum sem eru hugsanlega að eiga sér stað og meta hverju sinni hvað aðgerðir eru raunhæfar. Lítið dæmi um þetta snýr að okkur Íslendingum. Ljóst má vera að okkar litla hagkerfi skiptir litlu máli í heildarumfangi loftslagsbreytinga og skiptir litlu þó einhverjir vilji kalla okkur umhverfissóða, einfaldlega vegna þess að við veiðum fisk sem nýtist sem próteingjafi fyrir 30 milljónir manna og framleiðum ál sem dugar mörgum stórþjóðum. Og erum með umhverfisvænsta orkubúskap sem finnst. Nei, það sem ég ætlaði að nefna tengist skógrækt. Ein lausn við auknum koltvísýringi í andrúmsloftinu fellst augljóslega í að binda hann meira. Frá náttúrunnar hendi eru tré með öflugustu tækjum til þess. Ísland er nánast skóglaust og við Íslendingar höfum því gríðarleg tækifæri til að auka við skógrækt og þar með binda koltvísýring eins og hefur margoft verið bent á í pistlum hér. En um þetta er augljóslega ekki sátt. Verndarsinnar (sem eru samt ekki afneitunarsinnar!) vilja sumir hverjir alls ekki breyta gróðurfari landsins. Þeir öfgafyllstu vilja vernda svarta sanda hálendisins og takmarka mjög nýjar tegundir. Margir sprenglærðir vísindamenn taka þátt í þessari umræðu nánast daglega og rífast um hvort þessi tegund bindi meira eða minna en önnur tegund og hvort þessi landnýting sé betri en hinn. Allir flytja mál sitt af mikilli rökfimi og vitna í vísindi máli sínu til stuðnings. Leikmenn gætu spurt sig hvort þeir séu að vinna að lausn eða berjast fyrir hagsmunum sínum?

Þetta er nefnt sem augljóst dæmi en við blasir að ástæða til að rýna í og skoða þau gögn sem liggja til grundvallar, hvort sem menn telja að loftslagsbreytingar verði af mannavöldum eða ekki. Flest vonum við að frumkvöðlastarfsemi og frjálsir markaðir leiði til meiri velmegunar, minni losunar, betri og umhverfisvænni landnýtingar og tryggari uppsprettu orku þegar upp er staðið. Ég hef í pistlum mínum velt fyrir mér þeim upplýsingum og gögnum sem liggja fyrir - ekki af því ég sé vísindamaður heldur horfi á þetta gagnrýnum augum blaðamannsins. - Er það ekki þannig sem við eigum að taka þátt í umræðu?