Þegar Bangladess fékk sjálfstæði árið 1971 var framtíðin ekkert sérstaklega björt. Landsmenn bjuggu við örbyrgð og landið var hrjáð af flóðum og hungursneiðum. Sjálfstæðisárið dróst landsframleiðsla saman um 14%. Í dag blasir önnur og bjartari tíð við landsmönnum. Meðalhagvöxtur mælist nú um 8% á ári og landið stefnir hraðbyr inn í nýja og betri tíma. Ef fer sem horfir hverfur landið skjótt af lista þróunarríkja og heldur inn í nútímann með öflugan iðnað, ört hækkandi tekjur og bætta velferð. Hér í pistlum hefur áður verið fjallað um hina einstöku þróun Bangladess en hagvöxtur þar er umtalsvert meiri en í nágranaríkinu Indlandi sem þó hefur verið talið öðrum ríkjum til fyrirmyndar á þessu svæði. Bangladess hefur verið á lista fátækustu ríkja heims en spáð er að það hverfi af þeim lista innan nokkurra ára ef heldur fram sem horfir. Sem fyrr bíða þó gríðarlegar áskoranir þessa 165 milljón manna þjóðar og samfélög eins og Bangladess eru viðkvæm fyrir breytingum á heimsmarkaði og í náttúrunni.
Gjöful og grimm náttúra
Fljótið Brahmaputra rennur í gegnum Indland og Bangladess en það á uppruna sinn í Himalajafjöllum. Fljótið rennur um 3000 km vegalengd áður en það sameinast Ganges við ósinn í Bengalflóa. Bangladess er að hluta til byggt á framburði þessara stórfljóta og hefur það mótað lífsbaráttu íbúanna. Landið er í senn frjósamt en um leið varasamt vegna flóða og fellibylja. Frjósemi landsins stuðlaði að mikilli fólksfjölgun en náttúran er grimm og miklir mannskaðar hafa orðið með reglulegu millibili. Í norðri skilur mjó landræma, Siliguri-hliðið, milli Bangladess og ríkjanna Nepal og Bútan. Landið nær yfir austurhluta héraðsins Bengal þaðan sem það dregur nafn sitt.
Bættur efnahagur hefur mjög hægt á fólksfjölguninni og bætt aðstæður annarra. Fjölda vinnandi undir fátæktarmörkum hefur stórfækkað undanfarin ár, þeir voru taldir vera 73,5% af vinnuafli árið 2010 en voru komnir niður í 10,4% árið 2018. Á síðasta ári reyndist landið vera í 105 sæti ríkja heimsins þegar kom að samkeppnishæfni (The Global Competitiveness Report 2019) frá Efnahags- og framfarastofnuninni og hefur verið að hækka sig jafnt og þétt á þeim lista.
Saumastofa sjálfstæðisins
Vefnaðariðnaður og fatagerði tóku að þróast í landinu skömmu eftir að það fékk sjálfstæði og eru nú orðið að helstu útflutningsvöru landsins en óhætt er að segja að Bangladess sé saumastofa heimsins en flestir stærstu fataframleiðendur eru með saumastofur þar. Er talið að þessi iðnaður velti um 30 milljörðum Bandaríkjadala árlega. Vissulega eru vinnuaðstæður erfiðar og reglulega heyrist af slysum sem skapast af óviðunandi aðbúnaði. Vestrænir neytendur njóta hins vegar ódýrari vöru og heimamenn fá tækifæri til að vinna sig út úr fátæktinni en enn sem komið er er helsta auðlind landsins vinnufúsar hendur. En samhliða hefur annar iðnaður og þjónusta því samfara vaxið hratt. Þjónustugeirinn - og þar meðtalin fjármálastarfsemi (microfinance) og tölvuvinnsla standa undir 53% af landsframleiðslu.
Lífslíkur batna mikið
Merkilegt er að sjá hve tæknigeirinn hefur tekið vel við sér en Bangladess flytur nú út þjónustu og vörur því tengt fyrir um einn milljarð dala og vex hratt. Svo hratt að spár stjórnvalda gera ráð fyrir að talan fimmfaldist til ársins 2021, þegar landið fagnar 50 ára sjálfstæði sínu. Í landinu starfa nú um 600.000 manns sem verktakar á sviði tækni- og tölvulausna. Vinnu- og fyrirtækjalöggjöfin er mun meðfærilegri en á Indlandi sem gerir fyrirtækjum auðveldara að fjárfesta í Bangladess. Þess njóta nú landsmenn í fjölgun betri launaðra starfa.
Samhliða efnahagslegri velgengni hefur tekist að ráðast að ýmsum samfélagslegum meinum. Þannig hefur ástandið í heilbrigðis- og menntamálum batnað hratt. Það hefur skilað sér í ört vaxandi lífslíkum og mjög hefur dregið úr ungbarnadauða. Svo mjög að sumir telja sig sjá þarna einstaka velgengnissögu. Það virðist því ára vel hjá saumastofu heimsins!