c

Pistlar:

15. desember 2019 kl. 22:43

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Flóttamannastraumur frá Venesúela

Óvenju stór hópur fólks frá Venesúela hefur sótt um alþjóðlega vernd hér á landi það sem af er ári. Í október síðastliðnum höfðu 84 einstaklingar frá Venesúela sótt um vernd og er það næst stærsti hópurinn sem hefur sótt um hæli hér en til Útlendingastofnunar höfðu þá borist 621 umsóknir um alþjóðlega vernd. Þannig má segja að áhrif óstjórnar og ofbeldis sósíalistastjórnarinnar í Venesúela séu tekin að berast hingað en flóttamenn þaðan hafa verið fátíðir í okkar heimshluta.

Fólkið er að flýja stjórnarfarið í heimalandi sínu en ríflega fjórar milljónir manna hafa flúið Venesúela undanfarin ár. Engum sögum fer af því að sósíalistar hér á landi hafi sinnt þessum hópi sem hingað er kominn eða gefið sig á tali við þá. Hugsanlega finnst þeim að þetta komi þeim ekki við og halda ótrauðir áfram sínu sósíalíska trúboði. Í vikunni var greint frá því að félagi númer 1812 væri genginn í Sósíalistaflokkinn og tekin að greiða félagagjöld. Upplýst er að félagi númer 1812 er sérfræðingur úr Breiðholtinu.

Árið 2012 fékk Hugo Chávez 8.191.132 atkvæði í þingkosningum í Venesúela eða 55,1% atkvæða. Á síðasta ári fékk eftirmaður hans og núverandi forseti Nicolás Maduro 6.205.875 atkvæði eða 67,8% atkvæða. Tæplega tvær milljónir manna höfðu hætt að kjósa sósíalista en samt jók Maduro fylgi sitt um 12% frá því verið hafði hjá Chávez en þess má geta að landsframleiðsla venesúela hefur nánast helmingast frá árinu 2013. Andstæðingar sósíalista vildu hundsa kosninguna og það skýrir hlutfallsaukninguna. Óháð því hve mikið er að marka kosningarnar þá blasir við að tvær milljónir kjósenda hafa snúið baki við sósíalistum. Þess má geta að félagi númer 1811 í Sósíalistaflokki Íslands er bílstjóri rétt eins og Maduro.

Óbreytt ástand en fréttaáhuginn farið annað

Undanfarið hafa verið furðu litlar fréttir frá Venesúela í íslenskum fjölmiðlum. Af hverju það er, er erfitt að segja, ekki er ástandið að batna og flóttamannavandinn ekki minnkað. Hugsanlega er fólk bara orðið vant ástandinu þó að þessi mikli fjöldi flóttamanna undan sósíalistastjórninni sé kominn alla leið til Íslands.

En sumt hefur ekki gerst. Þannig hafa Bandaríkjamenn ekki ráðist inn í Venesúela eins og sósíalistar um allan heim töldu víst að myndi verða reyndin. Nánast öruggt sögðu sumir. En þessi ótti réttlætti meðal annars það að Maduro-stjórnin kallaði eftir hernaðarráðgjöfum frá Rússlandi, nokkuð sem Pútin var ljúft að verða við. Fyrir voru hermenn frá Kúbu í þúsundatali.venecaba

Þannig hefur Maduro og og stjórn hans reynt að hanga á völdum með aðstoð erlendra ríkja þar sem lýðræðið stendur höllum fæti. Á sama tíma hefur borið á óeiningu innan stjórnarinnar. Athygli hefur vakið að Diosdado Cabello, sem er talin næst valdamesti maður Venesúela, næst á eftir Maduro, átt fundi með mönnum sem geta borið skilaboð til Bandaríkjaforseta. Þeir sjást hér saman á mynd. Samkvæmt upplýsingum Al Jazeera-fréttastofunnar átti slíkur fundur sér stað í Caracas í lok sumars. Cabello er forseti stjórnlagaþingsins og hefur sem slíkur mikil völd en fundur sem þessi hlýtur að vera viðkvæmt mál hafi ekki verið haft samráð við forsetann en upplýsingar um það liggja ekki fyrir. Þetta hefur gefið þeim sögum byr undir báða vængi að Maduro sé ótraustari í sessi en áður var talið. Það er þó ljóst að refsiaðgerðir Bandaríkjamanna bíta verulega og ríkisstjórn Venesúela mikið í mun að fá þær mildaðar eða aflagðar. Cabello er reyndar umdeildur maður, verið tengdur við ofbeldisverk, fíkniefnasölu og hótanir í garð bandarískra sendiráðsmanna. Því er óvíst hve spenntir Bandaríkjamenn eru fyrir því að tala við hann.

Taka sæti í mannréttindaráðinu

Þegar þetta allt er haft í huga hlýtur að vekja eftirtekt að Venesúela tók sæti í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna (United Nations Human Rights Council) fyrir skömmu. Vakti það undrun margra þar sem ríkisstjórn Venesúela hefur setið undir hörðum ásökunum um margvísleg mannréttindabrot, svo sem dráp og pyntingar á eigin borgurum. Þegar skýrsla Amnesty International frá því í maí síðastliðnum er lesin hlýtur þetta að vekja furðu en þar eru stjórnvöld harðlega gagnrýnd fyrir víðtæk mannréttindabrot

En S-Ameríka á 14 sæti af 47 sem sitja í ráðinu og þó að yfir 50 lönd viðurkenni ekki stjórn Maduro fengu þeir sæti þar ásamt Brasilíu. Sem kunnugt er hefur Ísland átt fulltrúa undanfarið í mannréttindaráðinu en kjörtímabil íslenska fulltrúans rennur út nú í lok árs.