c

Pistlar:

19. desember 2019 kl. 13:25

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Þetta voru bestu tímar og hinir verstu

Í Valhöll forðum daga börðust einherjar daglangt á Iðavelli en að kvöldi risu hinir föllnu upp og settust að drykkju og aðra skemmtun. Aðeins þeir menn sem dóu í bardaga gátu orðið einherjar og mun þetta hafa verið nokkur huggun fyrir þá víkinga sem urðu vopndauðir og þeim jafnvel hvatning um að standa sig sem best í bardaganum. Af þessu leiddi að víkingar sáu í hyllingu einhverskonar líf eftir dauðann sem tæki öðru fram. Á Austurvelli dagsins í dag hefur um nokkurt skeið tíðkast að draga saman fólk undir merkjum aðskiljanlegustu málefna en líklega eiga flestir sem þar mæta það helst sameiginlegt að vera vinstri menn og hata Sjálfstæðisflokkinn. Þessi hópur er sundurgerðarlegur í klæðnaði en einsleitur í tali og virðist sjá fyrir sér að Austurvöllur breytist í Iðavelli verði ný stjórnarskrá samþykkt. Mestu hávaðamennirnir eru settir upp á svið og sumir fara með kveðskap en aðrir einhverskonar níðrímur. Að þessu er oft gerður góður rómur enda bíða ljúfar veitingar þátttakenda eins og í Valhöll forðum en barir og kaffihús miðbæjarins njóta þess þegar vígamóðurinn rennur af einherjum Austurvallar.

Þetta mannlíf Austurvallar vekur upp spurningar tengdar tíðarandanum og umræðu hversdagsins. Hugsanlega er mikilvægt í upphafi að rifja upp að í kjölfar bankahrunsins lögðust margir í greiningar. Einn angi af því var að skoða hvernig menn höfðu talað og skrifað á árunum fyrir hrun - og stundum einnig framkvæmt. Margt fólk reyndist auðvitað hissa á þessu öllu þó neyslutölur hafi glögglega sýnt að stór hluti Íslendinga tók þátt í gleðskapnum með einum eða öðrum hætti. Enn hafa ekki sést neyslutölur eins og þær sem birtust fyrir jólin 2007. Í áramótaskaupinu þá vildu allir vera eins og Hannes Smárason!börn mótmæla2

„Bankar í ljóma þjóðernishyggju“

Í vorhefti Skírnis 2014 er athyglisverð grein fyrir þá sem vilja velta fyrir sér tíðarandanum og hvernig hann mótar umræðuna. Greinin er eftir hjónin Kristínu Loftsdóttur mannfræðing og Má W. Mixa hagfræðing. Greinin heitir: „Bankar í ljóma þjóðernishyggju“ með undirtitlinum „Efnahagshrunið, hnattvæðing og menning.“ Þar er gerð áhugaverð tilraun til að fjalla um orðræðu í kringum útrásina svokölluðu, nokkurskonar orðræðugreining. Þar er því velt upp, að samhliða því að íslensku bankarnir urðu hluti af alþjóðlegu fjármálakerfi voru þeir endurskilgreindir á Íslandi út frá þjóðernislegum hugmyndum. Hlutverk bankanna hafi þannig verið talið endurspegla hlutverk þjóðarinnar sem heildar. Allt hafi þetta lotið að breyttri þjóðernislegri sjálfsmynd í breyttu alþjóðlegu umhverfi. Þetta gerðist í miðju hnattvæðingarinnar þar sem fræðimenn voru nokkuð uppteknir af því að velta fyrir sér hvort mikilvægi þjóðríkja myndi minnka.

Þetta segir manni auðvitað að heimurinn var á fleygiferð hnattvæðingar þar sem ofgnótt fjármagns flæddi um og var líklega allt of lágt verðlagt, um það eru flestir fjármálasérfræðingar sammála í dag. Meðal annars í kjölfar ákvarðana Seðlabanka Bandaríkjanna að halda bandarískum efnahag á keyrslu með lágum vöxtum eftir árásina 11. september 2001. Um leið dembdust inn á neytendamarkað Vesturlanda ódýrar vörur frá Kína sem meðal annars héldu niðri vöruverði á Íslandi, vann gegn verðbólgu og keyrði upp risavaxinn viðskiptahalla.

Allt byggðist þetta á ákveðinni þversögn. Á sama tíma og íslenska bankakerfið var í fararbroddi alþjóðavæðingarinnar á Íslandi varð talmál útrásarinnar með sterkri skírskotun í sögu landsins. Hugsanlega skýrist það af því að einhversstaðar urðu menn að leita útskýringa. Sumt var nú líklega sagt í gamni og man undirritaður eftir því að hafa tekið þátt í fleirum ein einum kvöldverði þar sem skýringar voru dregnar fram sem lutu fyrst og fremst lögmálum augnabliksins. Fannst útlendingum oft gaman að hlusta á slíkt. Ræður forsetans eru hins vegar sérkapítuli en vert er að hafa í huga að hann kom úr háborg íslenskrar akademíu.

Þetta voru bestu tímar og hinir verstu

En eins og gefur að skilja þá breytist tíðarandinn hratt. Eftir hrun voru Íslendingar að margra dómi aumastir allra, fávísir, svikulir og auðvitað spilltir. Út á það gengur Austurvöllur í dag. En slík upplifun er ekki ný. Upphafi bókarinnar Saga tveggja borga eftir Charles Dickens lýsir kannski hverfulleika augnabliksins betur en annað en þessi orð voru skrifuð fyrir ríflega 150 árum:

„Þetta voru bestu tímar, þetta voru verstu tímar, þetta var öld visku, þetta var öld heimsku, tiltrúin sat við háborðið, vantrúin sat við háborðið, þetta var tímabil ljóss, þetta var tímabil myrkurs, þetta var vor vonarinnar, þetta var vetur vonleysisins, allt var framundan, ekkert var framundan, við vorum öll að fara beina leið til himna, við vorum öll að fara rakleitt í hina áttina – í stuttu máli sagt var aldarfarið svo líkt okkar, að háværustu yfirvöld þess kunngjörðu að einungis mætti lýsa því með hástigum lýsingarorða.“

Sögusvið bókarinnar var síðasti ársfjórðungur 18. aldar og tími frönsku stjórnarbyltingarinnar 1789. Allt var í heiminum hverfult, þá sem nú. Jónas Haralz hagfræðingur lagði út af þessum orðum Dickens í grein í Lesbók Morgunblaðsins 1970. Þar horfir hann til ástandsins á þeim tíma með þessum orðum:

„Við höfum lifað tíma mestu framfara og velmegunar, sem um getur, en við höfum einnig lifað tíma hungurs, klæðleysis og híbýlaskorts mikils hluta mannkyns. Við höfum lifað öld mikilla uppgötvana og afreka i vísindum og tækni en jafnframt öld eyðingar gróðurs og dýralífs, mengunar lofts og lagar. Við höfum lifað skeið trúar á það að velmegun færði okkur hamingju og öryggi en jafnframt skeið almennrar angistar. Við höfum lifað árstíð nýfengis sjálfstæðis ungra þjóða og gamalla og árstíð þess myrkurs, er þær eyddu orku sinni í innbyrðis valdastreitu og þegnar þeirra bárust á banaspjótum. Við höfum lifað vordaga vonarinnar, er frelsið virtist gróa að nýju, og við höfum séð þann veika vísi frjósa í hel á vetri örvæntingarinnar. Við höfum alið unga kynslóð, sem öll veraldleg gæði átti i vændum i miklu ríkari mæli en nokkur kynslóð á undan henni, og við höfum séð þessa sömu kynslóð í vaxandi mæli afneita þeim gæðum, sem að henni voru rétt."

Er fjarri lagi að lýsa ástandinu í dag með svipuðum hætti? Allur samanburður segir okkur að þær kynslóðir sem byggja Ísland í dag hafi aldrei lifað betri tíma. Jónas leggur einmitt út af þessum samanburði og segir, að þótt við eigum erfitt með að trúa því að okkar tímar séu nokkrum tíma líkir, þá sé það nú samt svo, að okkar tímar eigi það sameiginlegt tíma frönsku stjórnarbyltingarinnar og Dickens sem mestu máli skipti manninn; þessir tímar og allir tímar séu „háðir þeim lögmálum mannlegs lífs, sem stjórna vexti og þroska, hrörnun og dauða."

Hatursumræða og Austurvöllur

En hvort sem tímarnir séu vondir eða góðir heldur umræðan áfram. Í nýjasta riti Stjórnmála & stjórnsýslu má finna greinina: „Grýta þetta pakk“:Haturstjáning í íslensku samhengi og áðurnefnd Kristín Loftsdóttir kemur að henni. Þar segir að í skilgreiningum á haturstjáningu hafi fræðimenn undirstrikað að rétt eins og í rannsóknum á annarri orðræðu skiptir félagslegt og pólitískt samhengi haturstjáningar miklu máli, sem og staða þeirra sem orðræðan snýr að. Rætt sé um þrjá þætti sem einkenna oft haturstjáningu: Henni er beint að vel afmörkuðum hópi; hópurinn er tengdur við óæskilega eiginleika; og lögð er áhersla á að hann sé óæskilegur og því sé ofbeldi gegn honum að einhverju leyti réttlætanlegt. Að ákveðnu leyti má því líta á hatursglæpi sem skilaboð til ákveðinna hópa sem undirstrikar hvernig hatursglæpir snúa ekki að einstaklingunum heldur hópnum sem viðkomandi er skilgreindur sem hluti af.

Í umræddri grein er umræðunni réttilega beint að minnihlutahópum og hægt er að taka undir að hatursfull umræða um þá er sérlega andstyggileg. En öll umræða um slíka hópa þarf ekki að vera hatursumræða. Rétt eins og öll umræða á Austurvelli er augljósleg ekki málefnaleg og sannarlega er hún hatursfull á köflum. Það getur auðvitað verið að fólk sé hætt að undrast það sem dettur út úr ræðumönnum þar en þegar Sjálfstæðisflokkurinn er sagður vera „krabbamein“, mafíusamtök og halda „barnaníðingahátíðir“ þá geta menn vissulega leyft sér að hafa efasemdir um að á Austurvelli sé barnvæn hátíð.