Það er freistandi að halda að áhugi fræðimanna á því að fjalla um hamingjuna, eða réttara sagt skort á henni, hafi aukist í seinni tíð. Ekki er langt síðan hamingjan var gerð að umræðuefni á þessum vettvangi og ástæða til að halda því áfram. Það ætti jú að vera meginhlutverk hvers samfélags að reyna að auka á hamingju þegna sinna, hvernig svo sem það útfærist. Sum samfélög hafa hreinlega sett það fram sem skýr og sjálfstæð markmið. Aðrir hafa efasemdir um að samræmd hamingjuleit heils samfélags geti gengið upp þrátt fyrir að stöðugt sé gert meira af því að mæla hamingju með einum eða öðrum hætti. Hugsanlega er það fremur til vitnis um að nútímamaðurinn trúir því að allt verði skýrt með tölfræði og gagnasöfnun. Hagstofan sé þannig æðsta kirkja samfélagsins, þar fáum við sannleikann um samfélag okkar, jafnvel hvernig okkur líður. Sá er þetta skrifar er ekki laus við að vitna í þá kirkju. En það breytir því ekki að margir trúa því að hamingjuleit verði alltaf að vera á einstaklingsgrunni eins og þessi orð Immanúel Kant heimspekings sýna: „Hamingjan er ekki hugsjón skynseminnar heldur ímyndunaraflsins.“ Kannski er þetta allt ímyndun og tálsýn?
Eigin hamingja æðsta markmiðið?
Sjálfsagt orðar það fáir skýrar en heimspekingurinn Ayn Rand í bók sinni The Virtue of Selfishness (1961): „Æðsta siðferðismarkmið mannsins er hans eigin hamingja.” Nálgun Ayn Rand verður helst skilin í samhengi við skrif Friedrich Wilhelm Nietzsche, sem stundum er kallaður heimspekingur heimspekinganna. Gagnrýni hans á menningu, trúarbrögð og heimspeki síns tíma snerist að verulegu leyti um spurningar um jákvæð og neikvæð viðhorf til lífsins í hinum ýmsu siðferðiskerfum. „Guð er dauður,” sagði Nietzsche og storkaði heiminum um leið og hann benti á að það sem guð stæði fyrir væri merkingarlaust. Dálítið djarft í ljósi þess hve margir finna sannarlega huggun í nánd við almættið. En bæði Rand og Nietzsche verða ekki skilin nema í tengslum við tilvistarspeki sem setur hamingju hvers og eins á eigin herðar. Að morgni dags verður þú að svara spurningunni til hvers að lifa? Ef þú getur ekki svarað henni þá er sjálfsmorð alveg ásættanleg lausn, sagði franski rithöfundurinn og heimspekingurinn Albert Camus. Hann kemst þó að lokum að þeirri niðurstöðu að þótt hann trúi ekki á Guð, þá sé sjálfsmorð aldrei réttlætanlegt. En hann spurði hættulegrar spurningar.
Nytjahyggjan reyndi að fanga hamingjuleitina inn í einhverskonar hámarkshamingjuleit, þar sem hamingja fjöldans átti að ráða. En bandaríski heimspekingurinn John Rawls taldi að ef hámarkshamingjuregla nytjastefnunnar væri lögð til grundvallar siðferðinu væri hætta á að réttindi einstaklingsins séu fyrir borð borin. Hann spyr því hvort það geti verið rétt að fórna hagsmunum eins eða fleiri til að tryggja sem flestum hámarkshamingju? Hugsanlega svarar sagnfræðin þessu best með því að benda á alræðisríki til hægri og vinstri. Ríkjum sem fórna frelsi og velferð einstaklingsins fyrir óskilgreinda heildarhamingju farnast ekki vel. En hverskonar skepna er hamingjan?
Tilgangslaust markmið eða er lífsgleðin lykillinn?
„Hamingjan er tilgangslaust markmið. Ekki bera þig saman við annað fólk, berðu þig saman við hver þú varst í gær. Enginn kemst undan, aldrei, og þannig hefur það alltaf verið, því er best að taka ábyrgð á eigin lífi. Þú skapar eigin heim, ekki aðeins í myndrænni merkingu þess heldur einnig bókstaflega og það er innbyggt í taugakerfi þínu. Þennan lærdóm höfum við dregið í okkur í gegnum sögur og goðsagnir allt frá því að siðmenningin hófst." Á þennan hátt reynir kanadíski fræðimaðurinn Jordan B Peterson að skilgreina fyrir okkur þörfina fyrir hamingju um leið og hann segir okkur að leitin að henni sé tilgangslaus. Peterson hefur vakið athygli fyrir hreinskilnisleg viðhorf þar sem hann gengur gegn viðteknum viðmiðum umræðunnar, því sem við stundum köllum pólitíska rétthugsun og teljum helst að það komi úr munni „góða fólksins” svo vitnað sé til vinnsælrar pólaríseringar í umræðunni. Í viðtali við enska blaðið The Guardian fyrr á árinu sagði Peterson að lífið sé stórslys (e. catastrophe)!
Breski heimspekingurinn Bertrand Russell skrifaði bók um hamingjuna 1930, af því að hann var blankur sagði hann síðar. Sú bók kom út undir heitinu: Að höndla hamingju, hér á Íslandi árið 1997 og er ekki verri vegvísir en annað um hamingjuna, að hluta til er hún vísir að sjálfshjálparbók en segir okkur þó að lífsgleðin sé lykillinn að hamingju og vellíðan.
En þegar hamingjuna ber á góma er kannski engin sannari í leiðsögn sinni en Dalai Lama en nokkrar bækur um speki hans er að finna á íslensku. Boðskapur hans er til þess að gera einfaldur: Við erum félagsverur og hamingja okkar veltur mikið á því að gera vel við aðra - það er ágæt leiðsögn inn í nýtt ár.
Að þessu sögðu óska ég lesendum hamingjuríks nýs árs!