Á veraldarvefnum er haldið úti síðu sem gefur sig út fyrir að reikna mannfjöldaþróun, nokkurskonar fæðingaklukka heimsins (World Population Clock). Þar er að finna margvíslegar upplýsingar um fólksfjölgun í heiminum, sumar í rauntíma (sic!) aðrar með heldur raunverulegri blæ. Allar þessar tölur minna okkur á að fjölgun mannkynsins er hröð og við blasir að hún mun leggja aukna áraun á vistkerfi jarðarinnar. Mannfjöldaþróunin er mjög ólík eftir heimssvæðum og sumstaðar í hinum vestræna heimi fækkar fólki. Það er augljóslega mikilvægt að draga úr fæðingartíðni í mörgum löndum enda ein af forsendum þess að þjóðir komist almennilega í bjargálnir.
Nú í ársbyrjun var mannfjöldinn í heiminum að nálgast 7.800 milljónir. Fólksfjölgunin gengur stöðugt hraðar fyrir sig og nú tekur það rétt um áratug að bæta milljarði manna við. Og ekki er að sjá að á því verði breyting í nánustu framtíð. Engu breytir um fjölgunina þó að reynt verði að fara betur með matvælin, eins og nú er að sjálfsögðu stefnt að. Nægur matur er í heiminum þó stundum geti reynst erfitt að koma honum þangað sem hans er mest þörf. Nauðsynlegt er að fækka fæðingum, helst svo að þær verði ekki fleiri en tvær fyrir hverja tvo jarðarbúa.
Milljarður þá og milljarður nú
Við upphaf landbúnaðarbyltingarinnar er talið að um fimm milljónir manna hafi búið á jörðinni. Næstu átta þúsund árin fjölgaði mannkyninu aðeins um 200 milljónir en hafa má í huga að þetta eru fullkomin ágiskunarvísindi (sumir halda því fram að fjölgunin hafi verið um allt að 400 milljónir sem er kannski ekki mikil breyting í samhengi dagsins í dag.) Fyrir miðja 19. öld var mannfjöldi í heiminum eitt þúsund milljónir. Svo fór að fjölga hratt og eitt þúsund milljónir bættust stöðugt hraðar við eins og eftirfarandi tafla sýnir:
Árið
1928 2000 milljónir
1958 3000 "
1974 4000 "
1988 5000 "
2000 6000 "
2011 7000 "
Svartsýnisspár ekki ræst
Á átjándu öld dró klerkurinn Tómas Róbert Malthus þá ályktun að mannfjöldinn yrði alltaf meiri en svo að nægur matur yrði til handa honum. Malthus var fyrsti þekkti svartsýnisspámaðurinn í röðum hagfræðinga. Hann taldi sig hafa tekið eftir að mannfjöldinn jókst eftir veldisvexti – úr tveimur í fjóra í átta í sextán – en landbúnaðarframleiðslan jókst aðeins línulega – úr tveimur í þrjá í fjóra í fimm. Alltaf þegar nóg væri af mat lifðu fleiri börn sem fól í sér fleiri dauðsföll síðar. Malthus dró þá ályktun árið 1798 að mannkynið þyrfti alltaf að glíma við hungursneyðir eins og hann orðaði í riti sínu An Essay on the Principle of Population, sem kom út 1798:
„Drifkraftur fólksfjölgunarinnar er svo miklu meiri en hæfni jarðar til að brauðfæða manninn að ótímabær dauði hlýtur að læðast að mankyninu á einn eða annan hátt. Lestir mannkynsins [ungbarnadráp, fóstureyðingar, getnaðarvarnir] eru virkir og öflugir liðsmenn fólksfækkunar. Þeir eru undanfarar tortímingarhersins mikla og ljúka oft sjálfir þessu skelfilega verki. En fari þeir halloka í útrýmingarstríðinu geysast slæmt árferði, farsóttir, drepsóttir og plágur fram í skipulegum fylkingum og verða þúsundum og tugþúsundum að aldurtila. Verði árangurinn samt sem áður ekki fullkominn fylgja óhjákvæmilega gríðarlegar hungursneyðir í kjölfarið og ná með einu þungu höggi að skapa jafnvægi á milli fólksfjöldans í heiminum og fæðuframboðsins.“
Til þessara ummæla er vitnað í bók breska vísindamannsins Matt Ridley: Heimur batnandi fer (The Rational Optimist: How Prosperity evolves) sem kom út fyrir nokkrum árum á íslensku og hefur verið talsvert vitnað til hennar á þessum vettvangi enda sérlega áhugaverð bók. Ridley telst í hópi bjartsýnismanna en hann benti á í bók sinni að Malthus lýsti réttilega vanda mannkynsins eins og hann var en hafi vanmetið hæfileika þess til nýsköpunar, til að finna lausnir og breyta hegðun sinni eftir að hugmyndir upplýsingarinnar og aukið frelsi sköpuðu fólki tækifæri til þess. Þegar bændur eignuðust jarðir sínar fengu þeir hvata til að framleiða meira. Og þegar landamæri opnuðust fyrir alþjóðlegum viðskiptum fóru svæði að sérhæfa sig í framleiðslu afurða sem hentuðu jarðvegi þeirra, loftslagi og kunnáttu íbúanna. Tækniframfarir urðu í landbúnaði og menn notfærðu sér þessi tækifæri. Þrátt fyrir að fólki fjölgaði hratt jókst matvælaframleiðslan enn hraðar. Hitaeininganeysla á mann í Frakklandi og Englandi jókst úr um það bil 1700–2200 hitaeiningum um miðja átjándu öld í 2500–2800 hitaeiningar árið 1850 segir Ridley.
Hungursneyðum fækkaði verulega. Svíþjóð var talin laus við þrálátt hungur snemma á tuttugustu öld. Ekki er lengra síðan en 1918 að matvælaráðuneyti Bandaríkjanna birti bók um fæðuskort. Í henni var „hungurlandabréf Evrópu“ sem sýndi að fæðuöryggi í Evrópu væri ógnað við lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Nokkur lönd, svo sem Bretland, Frakkland, Spánn og Norðurlönd voru talin hafa „næg matvæli að svo stöddu en alvarlegur [skortur] vofði yfir“. Alvarlegur „fæðuskortur“ væri á Ítalíu og í löndum eins og Finnland, Pólland og Tékkóslóvakíu væri „hungurástand“. „Munið,“ stóð í bókinni, „að sérhvert lítið land á [landabréfinu] er ekki aðeins línur heldur standa þær fyrir milljónir manna sem þjást af hungri.“ Erfitt er að segja hvenær hungurvofunni var endanlega bægt frá dyrum Íslendinga en fyrstu áratugi 20. aldarinnar mátti víða finna mikil vanefni og vísi að næringaskorti.
Vanmátu framfarir
Ridley bendir réttilega á að tilbúinn áburður var eitt öflugasta vopnið gegn hungurvofunni. Köfnunarefni hjálpar plöntum að vaxa og dálítið af því er í kúamykju, en þó ekki mikið. Í meira en heila öld notuðu bændur í heiminum fuglaskít sem hafði öldum saman safnast upp á strönd Síle og hafði að geyma mikið magn af natríumnítrati. Ekki var þó til nógu mikið af þessum skít. Vísindamenn og frumkvöðlar töldu að einhvern veginn hlyti að vera hægt að vinna köfnunarefni úr andrúmsloftinu þar sem nóg var af því.
Þýski efnafræðingurinn Fritz Haber, sem vann hjá efnavörufyrirtækinu BASF, varð fyrstur til að finna lausnina er rakið í bók Ridley. Á grunni fræðilegrar vinnu sinnar og eftir margra ára tilraunir tókst honum árið 1909 að framleiða ammoníak úr vetni og köfnunarefni úr andrúmsloftinu. Carl Bosch fann síðan réttu aðferðina til að framleiða ammoníak í stórum stíl. Með Haber-Bosch-ferlinu var hægt að framleiða nægilegt magn af ódýrum tilbúnum áburði og brátt var farið að nota hann um allan heim. Mikilvægasta tæknilega uppgötvun tuttugustu aldar, segir Vaclav Smil í bók sinni Enriching the Earth. Hann hafnar tillögum um tölvur og flugvélar og telur að ekkert hafi verið jafnmikilvægt og vinnsla köfnunarefnis úr lofti í verksmiðjum. Hann segir að mikilvægasta einstaka breytingin sem hafði áhrif á mannfjöldann á jörðinni hefði ekki verið möguleg án tilbúins ammoníaks. Án Haber-Bosch-ferlisins væru tveir fimmtu hlutar mannkyns ekki til í dag, segir Smil í bók sinni.
Þróun og framfarir mikilvægust
Þetta er rakið hér til að benda á mikilvægi þróunar og framfara. Þrátt fyrir að mannkyninu fjölgi hratt þá er að hægjast á. Fólksfjölgunin er nú talin vera um 1,05% á ári en var 2% í kringum 1960 þegar pistlaskrifari fæddist. Eins og oft áður getum við sagt að við lifum á merkilegum tímum. Heimurinn hefur aldrei áður orðið vitni að því að svona mikið dragi úr fátækt. Á vissan hátt er alþjóðavæðingin stærra fyrirbæri en iðnbyltingin. Þegar Vesturlönd fóru að iðnvæðast í kringum árið 1820 vorum við 200 milljónir og það tók okkur fimmtíu ár að tvöfalda meðaltekjurnar. Kínverjar og Indverjar hafa verið fimm sinnum fljótari að ná sama markmiði þrátt fyrir að mannfjöldinn sé tíu sinnum meiri. Sú staðreynd fær Ridley til að segja að alþjóðavæðingin sé fimmtíu sinnum stærri viðburður en iðnbyltingin. Undir það er tekið hér.