c

Pistlar:

19. janúar 2020 kl. 20:16

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ástríða umhverfisráðherrans

Í málfarshorni Morgunblaðsins í gær mátti lesa að líf mannsins skiptist í fjögur æviskeið. Á því fyrsta trúir þú á jólasveininn; á öðru skeiðinu ertu hættur að trúa á jólasveininn; á því þriðja ertu jólasveinninn og á því fjórða ertu alveg eins og jólasveinninn! Erfitt er að sjá með áreiðanlegum hætti á hvaða æviskeiði núverandi umhverfisráðherra er margt bendir til þess að hann sé á þriðja æviskeiðinu. Í það minnsta er hann inni á fjöllum, nánar tiltekið á hálendinu. Reyndar aðeins í huganum því flestum dögum ver hann á lálendi við að sannfæra fólk um að 40% af landinu skuli taka frá undir einhverskonar hálendisþjóðgarð. Nú í upphafi árs virðist það ætla að verða heitasta umræðuefnið enda margir að koma af fjöllum varðandi þessi áform. Pistlaskrifari las fyrir stuttu átta ára gamalt viðtal við umhverfisráðherra í jólablaði Frjálsrar verslunar árið 2012. Þá var Guðmundur Ingi Guðbrandsson framkvæmdastjóra Landverndar. Það fyrirgefst án efa að vitna til hans sem slíks enda verður ekki séð að skoðanir hans hafi breyst. En í viðtalinu segir Guðmundur Ingi:

„Passionið“ mitt er að hálendi Íslands verði griðastaður þjóðarinnar, svæði sem við höldum utan frekari orkunýtingar og byggjum ferðaþjónustu upp án of mikilla áhrifa á náttúruna.
Við eigum lítt snortin víðerni á hálendinu sem við verðum að bera gæfu til að standa vörð um. Þau eru einstök á evrópskan mælikvarða, ein af fáum sem eftir eru. Þá tel ég mikilvægt að vinna að endurheimt víðerna á hálendinu.“landv

Persónulegur minnisvarði

Og þessi ástríða fyrrverandi framkvæmdastjóra Landverndar á nú að verða að veruleika í aðgerð sem virðist koma flestum á óvart þó vissulega megi finna áformunum stað í hinni poppuðu stefnuskrá ríkisstjórnarinnar. Nú er augljóslega ekki eining um framkvæmdina innan ríkisstjórnarinnar en engum dylst að með henni er umhverfisráðherra að reisa sér persónulegan minnisvarða þannig að hans verði ávallt minnst í bókum Landverndar.

Þjóðgarður virðist fremur hátimbrað orð um ástríðu umhverfisráðherrans og enn er almenningur að átta sig á hvað í því fellst. Er þetta tilraun til að stöðva tímann eins og hann er núna þannig að náttúrfar og umhverfi hálendisins verði akkúrat eins og það er í dag? Hefur það einhverja merkingu að taka 40% af landinu undir þjóðgarð ef ekki er sátt um það við fólkið sem lifir í nágreni við þjóðgarðinn? Fólk sem býr á þessum svæðum er smám saman að átta sig á því að þjóðgarður sem þessi getur haft margvísleg áhrif á líf þess. Augljóst er af orðum ráðherrans að hann telur ekki mikið svigrúm fyrir virkjanir og skiptir þá engu hvað Rammaáætlun segir til um. Það væri þá ekki í fyrsta skipti sem umhverfisráðherra á vegum Vinstri grænna hendir stefnumörkun og aðferðafræði Rammaáætlunar út í myrkrið. Það gerði Svandís Svavarsdóttir einnig á sínum tíma.


Ráðherra skal ráða

Staðreyndin er sú að þegar Vinstri grænir halda á stól umhverfisráðherra þá hefur viðkomandi ráðherra haft tilhneigingu til að taka sér meira og meira vald þó að afskipti umhverfisráðherra af skipulagsmálum eigi fyrst og fremst að snúast um að vakta formhlið mála. Þessi viðleitni hefur sést vel í þeim kærum sem Landvernd hefur sent frá sér í gegnum tíðina, en þar hefur verið tekist á um formhliðina sem ætti ekki að hafa með afgreiðslutíma þeirra að gera. Skipulagsvaldið er ótvírætt hjá sveitarstjórnunum sem nú virðist eiga að víkja til hliðar svo Landverndarráðherrann nái sínu fram.

Af umræðu um málið virðast flestir vera fremur hissa á því hve hratt á að reka málið áfram um leið og mikil óvissa ríkir um fyrirkomulag og stjórnun hálendisþjóðgarðs. Eins og áður sagði má gera ráð fyrir að ráðherrann hyggist nýta sér lög um þjóðgarð og reglugerðarvaldið til þess að koma í veg fyrir framkvæmdir innan garðsins, nú eða breytingar á gróðurfari en margir hér á landi telja rétt að auka verulega landgræðslu og bæta þannig landgæði. Hvernig sjá menn það fyrir sér? Um leið á að búa þar til mikla stjórnsýslu og menn eru þegar farnir að velta fyrir sér hvernig eigi að fjármagna allt að sex gestastofur og annan rekstur og framkvæmdir í hálendisþjóðgarði. Saga Vatnajökulsþjóðgarðsins sýnir að rík tilhneiging er til að vanmeta kostnað við slíkar framkvæmdir og ekki síður þann rekstur sem þeim fylgir.

Það er brýnt að hægt sé á þessu ferli og útskýra betur hvað í þessu fellst. Ávinningurinn virkar fremur óljós miðað við þær upplýsingar sem nú liggja fyrir. Augljóslega eru mörg sveitafélög með miklar efasemdir um framvindu málsins og vilja halda einhverri forsjá á sínu nærumhverfi heimafyrir. Er það ekki eðlilegt?Hér þarf því að flýta sér hægt og skoða hvort það eru ekki fleiri lausnir en einn þjóðgarður? Er ekki skynsamlegt að nota frekar fjármuni til að byggja upp og vernda innan þess fyrirkomulags sem þegar er til staðar? Og þarf virkilega að flýta sér svona?