c

Pistlar:

24. janúar 2020 kl. 16:46

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Stórasti þjóðgarður í heimi

Svo virðist að ein helsta röksemd umhverfis- og auðlindaráðherra þegar kemur að nýjum hálendisþjóðgarði sé sú að hann verði stærsti þjóðgarður Evrópu, gott ef ekki „stórasti“ þjóðgarður í heimi. Þessi vísun í stærð virðist hugsuð út frá markaðssetningu hans gagnvart umheiminum í framtíðinni. Af þessu mætti halda að þjóðgarðurinn sé fremur hugsaðu með landkynningu í huga en þarfir landsmanna. Vikið var að nálgun umhverfisráðherrans hér í pistli fyrir skömmu en allt þetta brambolt virðist miða að því að reisa honum og Landvernd einhverskonar minnisvarða. Það vald sem ráðherra tekur sér í málinu sést kannski best af því að samkvæmt frumvarpinu fellur það í hlut umhverfis- og auðlindaráðherra að ákveða mörk friðlýstra svæða og að það skuli gert með reglugerð. Augljóslega ætlar ráðherrann sér óeðlilega mikið vald þarna.veiðivötn

40% af flatarmáli landsins

Með frumvarpinu er stefnt að því að miðhálendi Íslands verði nánast allt gert að þjóðgarði. Hinn fyrirhugaði þjóðgarður yrði víðfeðmur enda nær hann til um 40% af flatarmáli landsins, og sá langstærsti í Evrópu. Í greinargerð með frumvarpsdrögunum segir að með vaxandi straumi ferðamanna hafi skilningur aukist á því hve mikil áþreifanleg verðmæti séu fólgin í ósnortinni náttúru Íslands. Meðal annars er vísað í skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands „sem sýndi ótvírætt jákvæð efnahagsleg áhrif friðlýstra svæða á framleiðslu og atvinnu bæði fyrir þjóðarbúið og í næsta umhverfi svæðanna.“

Það vilja allir Íslendingar gæta umhverfis og náttúru sem best en það eru skiptar skoðanir í öllum stjórnmálaflokkum og öllum landshlutum um hvernig það sé best gert. Það opinberast nú í umræðu um Miðhálendisþjóðgarðinn eða Miðgarð eins og sumir vilja kalla hann. Ljóst er að ef garðurinn verður að veruleika verður að skoða landnýtingu á öllu landinu og meta upp á nýtt orkuþörf landsmanna og orkukerfið. Enda er það svo að fyrirtæki, samtök og einstaklingar allstaðar að hafa gert athugasemdir við fyrirhugað fyrirkomulag þjóðgarðsins stóra.

Ekki meira virkjað

Athyglin beinist að þeim auðlindum sem verða innan þjóðgarðsins en samkvæmt frumvarpinu verður áfram heimilt að starfrækja þær virkjanir sem innan hans lenda auk þess að viðhalda tengdum mannvirkjum á borð við raflínur. Það þykir kannski rausnarlegt en nýframkvæmdir verða hins vegar óheimilar nema þær séu í nýtingarflokki í 3. áfanga rammaáætlunar við stofnun hans. Gert er ráð fyrir því að umferðarréttur verði áfram heimilaður sem og nýting rétthafa á beitar- og veiðiréttindum, enda sé sú nýting sjálfbær.

Innan þjóðgarðsins er ein virkjun sem fellur í nýtingarflokk og því bara ein sem hugsanlega verður virkjuð. Þar er á ferð Skrokkölduvirkjun en fyrirhuguð staðsetning hennar er nánast í miðju landsins, mitt á milli Hágöngulóns og Kvíslarvatns. Frumhönnun er lokið og hefur rannsóknarleyfi vegna hennar verið veitt en mat á umhverfisáhrifum er ekki hafið. Hafa má í huga að ráðherra hefur látið hafa eftir sér að fái hann að ráða verður ekki meira virkjað þannig að Skrokkölduvirkjun er í óvissu en hún er áætluð 35 til 45 MW. Öll virkjanamannvirkin yrðu neðanjarðar utan aðkomuganga fyrir stöðvarhúsið og frárennslisskurðurinn.

Í skýrslu starfshópsins um Miðhálendisþjóðgarð eru allar þessar áskoranir dregnar fram fram, þar segir meðal annars að áður en þjóðgarður getur tekið til starfa verði að gera ítarlega greiningu á fjármagnsþörf og ljúka við stefnumarkandi áætlanir sem nauðsynlegar eru áður en daglegur rekstur þjóðgarðs getur hafist. Þegar greinargerð og frumvarpsdrög eru skoðuð hvarflar að lesendum að vinna við stefnumótun Miðhálendisþjóðgarðs sé rétt að hefjast.