c

Pistlar:

28. janúar 2020 kl. 21:53

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Öryggisbrestir: Reykjavíkurflugvöllur og Sundabraut

Undanfarið höfum við verið minnt rækilega á hve náttúruöflin geta verið varasöm. Fyrst með snjóflóði á varnargarðanna við Flateyri og nú síðast með landrisi við Grindavík. Báðir þessir atburðir sýna mikilvægi þess að sýna fyrirhyggjusemi við skipulag mannvirkja og tryggja að innviðir landsins séu rétt uppbyggðir þannig að flóttaleiðir séu tryggðar, öryggis sé gætt og að unnt sé að grípa til viðunandi aðgerða þegar annað brestur. Að mörgu leyti stöndum við Íslendingar vel að vígi þegar kemur að skipulagi almannavarna og björgunar- og slysavarnarsveitir landsins vinna frábært starf. Vandinn er á öðrum sviðum og þá helst þegar við þurfum að skipuleggja okkur til lengri tíma. Vanhugsuð uppbygging Landspítalans gæti verið dæmi um þetta en mig langar að benda á tvö önnur dæmi. Þau eru bæði hér á suðvesturhorninu þar sem þorri landsmanna býr.

Sundabraut er nauðsyn

Í fyrsta lagi er það Sundabraut. Hér hefur margoft verið bent á mikilvægi þess að það sé til góð og örugg flóttaleið til norðurs út frá höfuðborgarsvæðinu. Það spillir ekki fyrir að Sundabraut er mjög fýsilegur kostur þegar horft er til skipulagsávinnings, til að greiða fyrir umferð og stuðla að umferðaröryggi. Það er í raun ófært, að fyrir stóran hluta Reykvíkinga sé Ártúnsbrekkan nánast eina leiðin út úr bænum. Umferðartafir vegna Þingvallarhátíðarinnar árið 2000 náðu alla leið niður í Ártúnsbrekku. Þarf frekar vitnanna við? Flestum má því vera ljóst að Sundabraut er mikilvæg framkvæmd öryggisins vegna.flug

Reykjavíkurflugvöllur verður að vera

Í annan stað langar mig að nefna til Reykjavíkurflugvöll. Umbrotin á Reykjanesi nú minna okkur rækilega á hve virkt þetta svæði er og jarðfræðingar hafa bent á að eldgos geti hæglega orðið á stórum hluta Reykjanesskagans. Ef svo verður er hætt við að flugsamgöngur til og frá landinu um Keflavíkurflugvöll raskist, jafnvel verulega. Nú má segja að það sé gott og blessað að hafa góða varaflugvelli á Akureyri og Egilsstöðum en þeir duga ekki ef Keflavíkurflugvöllur lokast um nokkurn tíma vegna eldsumbrota. Þá þarf að vera unnt að beina umferð á flugvöll hér á suðvesturhorninu til þess að halda ferðatíðni og öryggi flugfarþega. Að beina þeim til Akureyrar gengur ekki nema vegna tilfallandi fluga. Reykjavíkurflugvöllur er augljós kostur og þetta eitt og sér ætti að vekja menn til umhugsunar.

Því miður hefur núverandi meirihluti í Reykjavík róið að því öllum árum að koma Reykjavíkurflugvelli fyrir kattarnef. Borgaryfirvöld hafa horft framhjá verðmæti vallarins, þeirri atvinnustarfsemi sem þar fer fram og þeirri starfsemi sem þar getur farið fram. Þess í stað hefur verið einblínt á landið sem byggingaland. Margt bendir til þess að nýtt hættumat á Reykjanesi sýni að flugvöllur í Hvassahrauni gengur ekki. Fyrir utan þann augljósa kostnað sem fylgir því að leggja niður flugvöll sem er til staðar og reisa annan nýjan. Reynslan segir manni að kostnaður við að byggja upp flugvöll í Hvassahrauni getur sjálfsagt verið einhversstaðar nálægt 300 milljörðum króna. Og nú blasir við að hann er ekki öruggur og dugar ekki til þess að taka yfir skyldur Keflavíkurflugvallar ef hann lokast.

Þetta sýnir að málið verður allt að skoðast upp á nýtt. Án mikils tilkostnaðar má bæta Reykjavíkurflugvöll og gera hann þannig í stakk búinn að hann geti sinnt öryggishlutverki sínu um leið og nýting hans yrði aukin á ný. Nauðsynlegt er að snúa af þeirri leið sem núverandi meirihluti hefur barist fyrir og setja öryggi og hagkvæmni í fyrirrúmi.