c

Pistlar:

4. febrúar 2020 kl. 21:32

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Merkileg nálgun í Sundabrautarmálinu

Ný tillaga til lausnar á þeirri pattstöðu sem nú er uppi í Sundabrautarmálinu kom fram í grein eftir þá Vilhjálm Þ. Vilhjálmsson og Þórarinn Hjaltason í Morgunblaðinu í gær. Vilhjálmur er fyrrverandi borgarstjóri og Þórarinn er umferðarverkfræðingur og fyrrverandi bæjarverkfræðingur í Kópavogi. Það er eðlilegt að leggja við hlustir þegar menn með þeirra reynslu koma að málum en hér á þessum vettvangi hefur oft verið talað fyrir mikilvægi Sundabrautar þó málið fái ekki mikla athygli í dægurmálaumræðunni. Ef háværð hennar er mæld kemur væntanlega í ljós að málefni Bíó Paradís eru miklu meira aðkallandi!

Allar tillögur um þverun Kleppsvíkur með braut um sundin eru orðnar margra áratuga gamlar. Frá þeim tíma að þær voru settar fram hafa orðið miklar breytingar og ýmsar forsendur mannvirkjagerðar í dag talsvert aðrar en áður voru. Sem gefur að skilja hafa forsendur byggðaþróunar þróast með öðrum hætti en gert var ráð fyrir í upphafi. Reykjavíkurborg ákvað þar að auki að skipuleggja íbúðabyggð í Gelgjutanga við Elliðaárvog og útiloka þar með svokallaða innri leið Sundabrautar sem var besti valkosturinn fyrir lágbrú og þar með ódýrastur.

Góðum kostum fækkar

Því miður hefur þessi óforsjálni borgaryfirvalda í Reykjavík stuðlað að því að góðum kostum hefur fækkað og ljóst að lagning Sundabrautar verður dýrari en ella. Því er tillaga þeirra Vilhjálms og Þórarins áhugaverð en þeir kynntu í grein sinni tillögu um lágbrú, um 400 metrar að lengd, sem hefur landtökustað á móts við Kjalarvog og tengist við Sæbraut í undirgöngum. Þeir segja að tillagan feli í sér óverulega skerðingu á athafnasvæði hafnarinnar og um leið ætti tengingin að hafa lítil sem engin áhrif á starfsemi fyrirtækja á hafnarsvæðinu. Allt er þetta auðvitað matskennt enda verður að hafa í huga að besti landtökustaðurinn fyrir lágbrú er farinn eins og áður sagði.kleppsmýrarvegur

Ný skipulagstillaga um legu Sundabrautar sést best af mynd sem fylgdi grein þeirra félaga. Myndin sýnir tillöguna í megindráttum. Rauð lína sýnir þverun Sundabrautar yfir Elliðaárvog. Rauðar slitnar línur sýna tengingar við Sæbraut í göngum. Grænar línur sýna afmörkun nýrra landfyllinga. Landtökustaður Sundabrautar er nokkurn veginn mitt á milli Holtavegar og Kleppsmýrarvegar.

Sæbrautarstokkur breytir forsendum algerlega

Þeir tvímenningar benda á að í samgöngusáttmála ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, sem kynntur var síðasta haust, er gert ráð fyrir því að Sæbraut verði lögð í stokk á kaflanum milli Miklubrautar og Holtavegar. Það var í fyrsta skipti sem slíkar hugmyndir voru kynntar og augljóst að það breytir forsendum verulega enda talað um að slíkur Sæbrautarstokkur kosti í það minnsta 10 milljarða. Í tillögu þeirra tvímenninga er hins vegar gert ráð fyrir að Sæbraut sé aðeins í stokk á kaflanum milli Miklubrautar og Skeiðarvogs og þar með umtalsvert styttri. Það getur sparað fjármuni.

Þeir Vilhjálmur og Þórarinn segja að ekki sé þörf á að hafa Sæbraut í stokk á kaflanum milli Skeiðarvogs og Holtavegar, þar sem ekki er gert ráð fyrir að umferðarstraumar milli
Sæbrautar og Sundabrautar fari um þennan kafla Sæbrautar. Tillagan felst meðal annars í því, að göng fyrir tengingar Sundabrautar við Sæbraut til og frá suðri opnist um 200-300 m sunnan Skeiðarvogs.

Mun lægri kostnaður

Þessar tengingar liggja undir mót Sæbrautar og Skeiðarvogs og auka því flutningsgetu gatnamótanna en augljóslega var Sæbrautarstokknum ætlað að laga flutninga um þessi gatnamót sem verða vandamál með 1500 íbúða Vogabyggð. Með þessu er líka uppfyllt skilyrði um að öll gatnamót á meginstofnveginum Reykjanesbraut-Sæbraut-Sundabraut séu mislæg.

Þeir tvímenningar áætla að stofnkostnaður 1. áfanga Sundabrautar, þ.e. milli Sæbrautar og Borgarvegar í Grafarvogi, verði á bilinu 35-40 milljarðar króna. Til samanburðar telja þeir líklegt að valkostur um lágbrú, með landtöku á móts við Holtaveg, yrði um 15 milljörðum króna dýrari. Í þeim valkosti þarf Sæbrautarstokkur að vera um 500 m lengri, eða um 5 milljörðum króna dýrari. Auk þess megi gera ráð fyrir að minnsta kosti 10 milljörðum króna í bætur til Faxaflóahafna, Samskipa og fleiri aðila vegna skerðingar á hafnaraðstöðu og starfsemi fyrirtækja.

Þeir Vilhjálmur og Þórarinn benda á að áhugi meirihluta borgarstjórnar á lagningu Sundabrautar hefur frá árinu 2011 verið í lágmarki, en 22. september 2011 var undirrituð viljayfirlýsing af hálfu innanríkis- og fjármálaráðuneyta, Vegagerðarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem gerði meðal annars ráð fyrir frestun Sundabrautar í 10 ár. Sundabraut komst á ný inn á samgönguáætlun 2013-2016 en þeir segja greinilega ekkert gert með þá samþykkt. „Sú staðreynd, að Sundabraut hefur ekki þegar verið byggð, á verulegan þátt í því að algjört umferðaröngþveiti ríkir í dag á höfuðborgarsvæðinu,“ segja þeir Vilhjálmur og Þórarinn. Tekið er undir það hér og mál að taka til hendinni og skoða í alvöru tillögu þeirra.