Fiskeldi hefur vaxið mikið á undanförnum árum og voru um 26 þúsund tonn eldisafurða flutt út í fyrra. Þá nam útflutningsverðmæti afurðanna um 25 milljörðum króna sem er hvorki meira né minna en 89,4% aukning frá 2018. Fiskeldi hefur verið að festa rætur hér á landi eftir brösugar tilraunir í fortíðinni.
Þarna er að verða til ný og áhugaverð útflutningsgrein sem getur, ef rétt er haldið á málum, orðið okkur mikilsverð tekjulind og ekki síður styrkt byggðir sem hafa átt undir höggi að sækja. Það sjáum við best á þróun mála á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem fiskeldi er orðið áberandi. Augljóslega má hafa væntingar til greinarinnar ef uppbygging hennar verður með skynsamlegum hætti. Nauðsynlegt er að fara varlega og flýta sér hægt þó eðlilega gæti óþolinmæði hjá fyrirtækjunum. Við sjáum af uppbyggingu fiskeldis í Noregi að þarna eru miklir möguleikar.
Á miðju síðasta ári voru vaxtarmöguleikar fiskeldis hér við land gerðir að umtalsefni hér í pistli og ljóst að margt af því sem þar var til umræðu hefur gengið eftir. Þó er ljóst að starfsemin er enn að slíta barnsskónum, en miðað við hvernig gengið hefur á undanförnum tveimur til þremur árum má vænta þess að hið minnsta þau fjögur fyrirtæki sem hafa hafið slátrun séu komin fyrir vind og eigi þar af leiðandi tækifæri til töluverðs vaxtar, auk þess sem fleiri fyrirtæki munu vonandi bætast í þann hóp eins og Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, sagði í samtali við ritið 200 mílur sem Morgunblaðið gefur út. Í viðtalinu ræddi hún framtíðarhorfur fiskeldis á Íslandi sem eru um margt áhugaverðar.
60 milljarða útflutningsverðmæti
Augljóslega eru þarna mikil vaxtartækifæri og ef Íslendingar fara upp í það sem gildandi áhættumat kveður á um, 71 þúsund tonn í laxi, þá gætu útflutningsverðmæti þess farið í 55 til 60 milljarða króna. Þá erum við kannski komin upp í fjárhæðir sem eru 30 til 40 prósent af útflutningsverðmætum sjávarafurða bendir Heiðrun Linda á.
Nú þegar sverfur að í öðrum atvinnugreinum opnast augu margra fyrir því hve mikilvægt er að fjölga stoðum undir útflutningsgreinar okkar Íslendinga. Þannig að þegar niðursveiflur koma í einhverjum atvinnugreinum, eins og til dæmis í sjávarútvegi eða ferðaþjónustu, þá séu aðrar atvinnugreinar sem grípa boltann og koma þannig í veg fyrir að samdráttur í efnahagskerfinu verður meiri heldur en hann ella hefði orðið. Við blasir að því fleiri atvinnugreinar sem standa undir okkar útflutningi, því meiri verður sveiflujöfnunin, og þar af leiðandi stöðugra efnahagslíf.
Það dylst því engum að fiskeldi er að festa sig í sessi sem mikilvægur útflutningsatvinnuvegur sem dregur mikið af gjaldeyri til landsins, tryggir byggðafestu og skapar aukin tækifæri víðs vegar um landið. Það eru góð tíðindi nú þegar augljóslega er að kólna í hagkerfinu. Taka má undir með SFS um það að verði skynsamlega á málum haldið má gera ráð fyrir því að fiskeldi geti orðið vegleg stoð í íslensku efnahagslífi. Við væntum þess að farið verði hæfilega hratt í aukninguna og aðstæður þannig skoðaðar jafnóðum og greinin þróast.