Íslenskum ríkisborgurum á vinnualdri fjölgar hægt og mun fjölga enn hægar næstu árin. Eðlilega mun þessi staðreynd hafa gríðarleg áhrif á íslenskan vinnumarkað í framtíðinni. Þeir árgangar sem koma inn á vinnumarkaðinn núna eru litlu stærri en þeir sem hverfa brott vegna aldurs. Hver árgangur næstu tíu ár telur að jafnaði um 5.000 manns en þeir sem falla brott vegna aldurs eru um 4.500. Að auki hefur flutningsjöfnuður íslenskra ríkisborgara verið neikvæður undanfarna áratugi og gerir mannfjöldaspá Hagstofunnar ráð fyrir því að svo verði áfram. Íslenskum ríkisborgurum sem starfa á Íslandi mun því ekki fjölga sem neinu nemur á næstu árum. Þetta kemur fram í grein sem Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, birti í Morgunblaðinu í síðustu viku fékk furðu litla athygli.
Greinin varpar ljósi á þá stórkostleg breytingu sem hefur orðið á íbúasamsetningu hér á landi á stuttum tíma. Hlutfall erlendra ríkisborgara af íbúafjölda fór úr 7% í 14% á árunum 2014 til 2019. Til samanburðar hækkaði þetta hlutfall úr 9% í 11% í Svíþjóð. Hlutfall erlendra ríkisborgara hækkaði þannig um tvö prósentustig í Svíþjóð en um heil sjö prósentustig á Íslandi. Þessar tölur sýna að mati Hannesar að viðfangsefni Íslands við aðlögun innflytjenda er margfalt stærra en í Svíþjóð. Það er ekki víst að allir átti sig á því.
Mikill munur á Íslandi og í Svíþjóð
Munurinn er enn meira sláandi þegar fjöldi á vinnualdri er borinn saman eins og Hannes gerir í grein sinni. Erlendir ríkisborgarar á aldrinum 20-59 ára eru 12% íbúa í Svíþjóð en 20% á Íslandi. Munurinn á atvinnuþátttöku erlendra ríkisborgara milli landanna er einnig mjög mikill þar sem hún er um 50% í Svíþjóð en yfir 90% á Íslandi. Hlutdeild starfandi erlendra ríkisborgara á aldrinum 20-59 ára á vinnumarkaði er aðeins 8% í Svíþjóð en 23% á Íslandi. Hlutdeild erlendra ríkisborgara á vinnumarkaði er því næstum þrefalt hærri á Íslandi en í Svíþjóð.
Um 23% alls starfsfólks á Íslandi eru erlendir ríkisborgarar, sumir með takmarkaða íslenskukunnáttu. Íslenskum ríkisborgurum á vinnualdri fjölgaði aðeins um 200 á ári að jafnaði síðustu fimm ár og um 350 á ári síðustu tíu ár. Lágspá mannfjöldaspár Hagstofunnar, sem gerir meðal annars ráð fyrir litlum hagvexti á næstu árum, miðar við að aðfluttir umfram brottflutta verði að jafnaði 500 árlega og því fjölgi erlendum ríkisborgurum áfram. „Án þessarar innspýtingar hefði íslenskt atvinnulíf ekki staðið undir þeim vexti sem við höfum séð undanfarin ár, en þegar samdráttur verður er þetta hópur sem getur átt undir högg að sækja,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, í grein sem hann birti í Morgunblaðinu fyrir stuttu.
Stórir árgangar að hverfa af vinnumarkaði
Það styttist í að stórir árgangar sem fæddir eru fyrir 1960 hverfi af vinnumarkaði. Á næstu fimm árum mun þeim sem eru 67 ára og eldri fjölga um fjórðung, eða nærri 10.000 manns. Það fjölgar einnig hratt í elsta hópnum. Til ársins 2025 er gert ráð fyrir að 85 ára og eldri fjölgi um nærri 500 manns eða 10%.
Án aðfluttra myndi stefna í verulega fækkun á Íslandi. Þegar fjölmennasti árgangur Íslandssögunnar fæddist árið 1960 eignuðust íslenskar konur að meðaltali fjögur börn um ævina en síðan 2012 hefur hlutfallið ekki farið yfir tvö. Fækkunin er hraðari en nokkurn óaði fyrir. Árið 2018 var það 1,7 börn sem þýðir að ef ekkert annað kæmi til myndi íbúum landsins fækka. Þeirri þróun hefur verið skotið á frest, þar sem uppgangstímar hafa laðað að sér tugi þúsunda útlendinga. Hversu staðfastir þeir verða hér á landi er óvíst en þeim fjölgar hratt á atvinnuleysisskrám. Stór hluti þeirra eru frá Póllandi en þaðan koma vinsælir starfskraftar. Ágætt ástand er nú í Póllandi og því hugsanlegt að margir þeirra hverfi aftur á æskustöðvarnar teygist úr kreppunni hér. Pólland vill enda fá sitt fólk heim aftur.