c

Pistlar:

22. mars 2020 kl. 15:29

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ríkissjóður sem sveiflujöfnunarsjóður

Aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í Hörpunni gær var ágæt að því leyti að hún sýnir hve víða þarf að bregðast við enda má segja að allt hagkerfið sé smitað af áhrifum veirunnar. Það á síðan eftir að koma í ljós hvort hér er nægilega að gert og hvernig gengur að hrinda þessum aðgerðum í framkvæmd. Gera má ráð fyrir að næstu vikur og jafnvel mánuðir fari í að berjast við veiruna og halda heilbrigðiskerfinu gangandi. Erfitt er að meta hvort yfir höfuð verður unnt að halda nokkurri starfsemi gangandi á meðan, þar sem við blasir að smituðum og veikum á eftir að fjölga og álagið vegna faraldursins að aukast.

En aðgerðirnar sýna sterkan vilja og skilning stjórnvalda á því að beita ríkissjóði af fullri alvöru til að halda hagkerfinu gangandi. Hvort þetta gagnast í því stoppi sem nú er skal ósagt látið en því skal þó spáð að bæta þurfi í og það verði gert. Orð fjármálaráðherra, um að það sé betra að gera of mikið en of lítið, sýna vilja stjórnvalda til að taka á málinu. Þessi setning varð reyndar fræg í munni Mario Draghi, seðlabankastjóra Evrópu (European Central Bank) árin 2011 til 2019. Hann sagði „whatever it takes“ til að efla trú á aðgerðir bankans á sínum tíma. Fjármálaráðherra virðist ætla að taka sér Draghi til fyrirmyndar. Emmanuel Macron, forseti Frakklands, sagði í ræðu 16. mars síðastliðinn að engin stór eða smá fyrirtæki yrðu látin fara í gjaldþrot vegna vírussins. Ósagt skal látið hvort hann nær að standa við það enda ríkissjóður Frakklands ekki í sömu stöðu og sá íslenski.covidr

Mikilvægi ríkissjóðs

Við skulum nefnilega hafa hugfast að það er hægt að ráðast í þessar aðgerðir vegna sterkrar stöðu ríkissjóðs. Nú njóta menn fyrirhyggju undanfarinna ára og í því er nokkur lexía. Ríkissjóður getur tekið á sig hallarekstur og gjaldeyrisforði landsins ætti að duga þangað til útflutningsgreinarnar ná sér aftur á strik. Stundum hefur verið rætt um að setja upp sérstakan sjóð, sveiflujöfnunarsjóð eða þjóðarsjóð. Slíkum sjóði er ætlað að styðja við ríkissjóð og auðvelda stjórnvöldum að komast í gegnum tíma sem þessa. Nú sést hins vegar að skuldalítill ríkissjóður er slíkur sveiflujöfnunarsjóður. Líklega flækir bara málið að setja upp sérstakan sjóð. En af þessu má sjá mikilvægi þess að keyra skuldir ríkissjóðs niður og skapa jafnvægi í ríkisfjármálum þegar vel árar.skuldir hins opinbera

Takmarka þarf stærð ríkisins

En ekki er síður mikilvægt á öllum tímum að gæta að því að rekstrarkostnaður ríkissjóðs vaxi ekki stjórnlaust og huga að því að hann sé ávallt skynsamlegt hlutfall af landsframleiðslu. Það myndi bæta sveiflujöfnunargetu ríkissjóðs. Ef við reisum of stórt kerfi og ætlum því of stórt hlutverk þá veldur það erfiðleikum þegar á bjátar eins og núna. Það finna það allir, að erfiðast er að takast á við fastan kostnað, þau útgjöld sem við erum búin að skuldbinda okkur fyrir. Þegar við komumst út úr skaflinum verður hið opinbera að leggjast yfir rekstur sinn að meta hvort ekki sé hægt að skera niður í rekstri. Þangað til er mikilvægt að halda skynsamlega á málum.

Efnahagsaðgerðirnar sem kynntar voru í gær, nema um 7,8% af landsframleiðslu samkvæmt því sem kom fram í kynningu stjórnvalda. Efnahagsaðgerðarpakki norskra stjórnvalda er álíka stór eða um 7,9% af landsframleiðslu. Lilja Mósesdóttir hagfræðingur, sem býr nú í Noregi, benti á að olíu- og gasgeirinn sé innifalinn í landsframleiðslu Norðmanna, þar sem stjórnvöld eru að hugleiða að nota olíusjóðinn til að fjármagna hluta aðgerðanna. Hún segir að ef olíu- og gasgeirinn sé ekki talinn með nemur núverandi aðgerðarpakki norskra stjórnvalda 9,6% af landsframleiðslu (fastlandsøkonomien).

Bæði íslensk stjórnvöld og þau norsku hafa boðað frekari aðgerðir. Aðgerðarpakki danskra stjórnvalda er stærri eða áætlaður um 13% af landsframleiðslu. Breski pakkinn er upp á 15% af landsframleiðslu og bandarísk yfirvöld hafa lofað tölu sem nemur 5% af landsframleiðslu. Hvernig sem fer þá virðast flest þjóðfélög ætla að ræsa upp seðlaprentunar og reyna að koma hagkerfinu þannig í gegnum stoppið. Vonandi að það takist.