Árið 2015 undirrituðu leiðtogar heimsins langan lista af metnaðarfullum markmiðum sem áttu að leiða til sjálfbærni á sem flestum stigum. Þar á meðal í sjávarútvegi og eitt mikilvægasta framlag til þess var að draga úr stuðning við veiðar sem byggðu á rányrkju. Með öðrum orðum, hætt skyldi að styrkja sjávarútveg sem stuðlaði að ofveiði. Samningamönnum hjá World Trade Organisation (WTO) var sagt að ljúka samningsgerðinni fyrir árið 2020. Nú þegar árið er runnið upp er ljóst að þetta markmið mun ekki nást.
Ofveiði er harmleikur sameiginlegra fiskimiða þar sem eignarrétturinn er illa skilgreindur segir í nýlegri umfjöllun Economist tímaritsins. Þar starfa einstaklinga, fyrirtæki og heilu ríkin eftir skammtímasjónarmiðum. Til að skilja vandann nægir að benda á að árið 1974 voru um 10% fiskistofna ofveiddir en þetta hlutfall var komið upp í 33% árið 2015. Reynslan sýnir að ríkisstjórnir heimsins hafa gert ástandið verra með styrkja- og niðurgreiðslukerfi upp á um 22 milljarða Bandaríkjadala á ári. Inn í þeirri tölu er stuðningur vegna tækjakaupa, fjárfestinga, ísframleiðslu, eldsneytis og skipasmíða. Rannsóknir sýna að helmingur þeirra veiða sem fara fram utan lögsögu væri óarðbærar ef ekki kæmi til opinber stuðningur.
Dulinn stuðningur og ónákvæm skýrslugerð
Viðskiptaráðherrar landanna áttu að leysa þetta á WTO fundi sem fara átti fram í Kazakhstan í desember síðastliðnum. Fundinum var hins vegar frestað fram í júní þar sem ekkert samkomulag lá á borðinu. (Enn má velta fyrir sér hvort slíkur fundur fari fram í júní). Það sem meira er, dulinn stuðningur og ónákvæm skýrslugerð gerir það að verkum að erfitt er að ná utan um vandann. Það er einfaldlega svo að stjórnvöld hafa hvergi skilgreinda liði sem segja; „niðurgreiðslur til sjávarútvegs“ heldur er þetta falið út um allt í ríkisreikningum landanna. Staðreyndin er sú að veiðar víða og þá sérstaklega utan lögsögu eru huldar mjög óljósu eignarhaldi og upplýsingar takmarkaðar. Þannig getur oft verið erfitt að koma við viðurlögum sé ekki rétt staðið að málum.
Þrátt fyrir allt er auðveldara að fást við ríkisstuðning við veiðar sem fara fram á heimamiðum þó hann geti verið falinn undir margvíslegum fjárlagaliðum. Undanfarið hafa Bandaríkjamenn og Evrópusambandið þráttað um það hvort hægt sé að leyfa ríkisstuðning en þó með takmörkunum eða þaki. Eða hvort verði að banna ríkisstuðning til fiskveiða, en leyfa þó aðstoð í ýmsu formi. ESB hefur verið hliðhollara síðarnefnda kostinum með þeim rökum að ef fiskveiðar séu vel skipulagðar sé ríkisstuðningur síður skaðlegur. Öðrum kann að þykja ESB tvöfalt í roðinu og ef framkvæmdin verði götótt þá muni ekkert koma út úr henni.
Sósíalísk fiskveiðistefna
En málin vandast enn frekar þegar aðgerðir sem snerta þróunarríkin eru til umræðu. Öll ríki WTO voru sammála um að veiðar þar þyrftu sérstakrar skoðunar við. En vandinn blasir við eins og Bandaríkjamenn bentu á. Hann fellst í því að 17 af 26 mestu fiskveiðiþjóðum heims teljast til þróunarlanda. Ef á að koma til móts við fjölþættar þarfir þeirra munu allir samningar veikjast.
Miðstýring efnahagslífsins er eyðileggjandi eins og hér hefur oft verið bent á áður. Ágæt dæmi er fiskiðnaðurinn á Kúbu. Um líkt leyti og Íslendingar voru að festa kvótakerfið í sessi með góðum árangri var sjávarútvegurinn að hrynja á Kúbu. Hann byggðist á stórum togurum og verksmiðjuskipum sem sigldu til fjarlægra miða og ryksuguðu upp fiskistofna að sovéskri fyrirmynd. Þessi fiskiðnaður var í ætt við annað í hinu sósíalíska kerfi, miðstýrður og byggði á rányrkju. Fiskiskipin veiddu ekki einu sinni tegundir sem Kúbverjar vildu borða, að mestu síld og makríl og aðrar uppsjávartegundir. Fiskiskipastólinn var háður olíu og þegar Sovétríkin hrundu upp úr 1991 þá hvarf allur stuðningur þaðan. Ekki var lengur grundvöllur fyrir veiðunum og ríkisrekin sjávarútvegur Kúbverja lagðist af og skipin grotnuðu í heimahöfn. Frá gamalli tíð hafa heimamenn reynt að veiða heitsjávarfiska og rækjur á litlum strandveiðibátum en kerfið ýtti ekki beinlínis undir sjálfstæða stétt fiskimanna. Þar að auki hefur gengið illa að koma að sjónarmiðum og þörfum neytenda sem vilja gjarnan borða annað en sósíalíska framboðið segir til um.
Hvað vill Kína gera?
Kína er mesta fiskveiðiþjóð heims en um leið sú er beitir mestum ríkisstuðningi við fiskveiðar. Kínverjar hafa stungið upp á þaki á stuðning sem taki mið af því hve margir stunda fiskveiðar í viðkomandi landi. Aðrar þjóðir óttast að það hefti Kína allt of lítið en þar er talið að 10 milljónir manna stundi fiskveiðar.
Að viðræðunum um fiskveiðar undanskildum er næsta lítið að eiga sér stað hjá WTO. Slíkar viðræður lúta margvíslegum lögmálum sem tengjast oft frekar stjórnmálum en öðru og þá þurfi að klára allskonar baktjaldamakk um leið. Því er hætt við að úrlausn fiskimála tengist úrlausn margra annarra óskyldra mála segir í grein Economist.