Markaðsvirði Icelandair er núna 1/20 þess sem það var þegar best lét. Þetta flaggskip íslenskrar ferðaþjónustu, flugfélag allra landsmanna og stolt Íslendinga í flugheiminum berst nú fyrir lífi sínu. Það þarf ekki að hafa mörg orð um þær sársaukafullu aðgerðir sem félagið hefur þurft að grípa til undanfarnar vikur en búið er að segja upp stærstum hluta starfsmanna. Félagið berst nú fyrir lífi sínu á meðan stjórnendur félagsins reyna að sannfæra hluthafa og stjórnvöld um að það sé yfir höfuð einhver glóra í því að koma félaginu til hjálpar. Mikið er undir því flugsamgöngur eru Íslendingum lífsnauðsynlegar en þurfa þær að vera undir merkjum Icelandair? Nú reynir á hvað felst í því að skilgreina félagið sem þjóðhagslega mikilvægt.
Í ágætri frétt í Morgunblaðinu í dag er minnt á hve sársaukafull aðgerðin verður að vera enda má segja að félagið neyðist til að aðlagast nýjum veruleika eigi það að lifa. Flugrekstur tekur stöðugum breytingum og hefur breyst mikið undanfarin áratug og því miður stendur ekkert flugfélag í samkeppnisrekstri undir þeim launakjörum sem Icelandair hefur boðið sínu fólki. Þetta er búið að blasa við undanfarin ár og hefur bæði birst í orðum greinenda og samkeppnisaðila Icelandair. Í öllum þeim tilraunum sem eru gerðar til að setja ný flugfélög á fót - sem voru nokkrar í kjölfar falls WOW fyrir rúmu ári - hefur alltaf verið vísað til erfiðar samkeppnisstöðu Icelandair með sinn þunga launakostnað. Þetta vita allir.
Launalækkanir óhjákvæmilegar
Flugmenn hafa riðið á vaðið og boðið 25% launalækkun og breytingu á öðrum kjörum. Þar með viðurkenna þeir vandann, sama á við um flugvirkja. Báðar þessar stéttir geta selt starfskrafta sína á alþjóðlegum markaði en vita að sem stendur mun það taka flugheiminn mörg ár að ná einhverju í líkingu við fyrri stöðu. Betri kjör verða ekki sótt annars staðar. Viðræður við flugfreyjur hafa farið illa af stað og undir rær það fólk verkalýðshreyfingarinnar sem veitir verstu ráðin. Því miður er hætt við að það skilningsleysi sem nú ríkir á rekstri og fjármögnun innan hreyfingarinnar spilli fyrir þeirri óhjákvæmilegu aðlögun sem nú blasir við í íslensku atvinnulífi. Breytingarnar blasa allsstaðar við en eru mest áberandi í flugheiminum. Í útvarpsviðtali í gær, spáði Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, verulegum breytingum á viðskiptaferðum eftir faraldurinn og byggði á eigin reynslu og fyrirtækisins. Taldi hann að þeim gæti jafnvel fækkað um þriðjung og þannig er höggvið skarð í þann farþegahóp flugfélaganna sem skilar mestri framlegð.
En það er ekki einföld ákvörðun fyrir fjárfesta að ákveða að koma félaginu til bjargar núna. Er það verjanlegt að setja inn ríflega þrefalt markaðsvirði félagsins í nýju fjármagni núna? Er hægt að réttlæta það að setja inn fjármagn til að halda við rekstri sem hefur ekki verið sjálfbær án þess að gera þar óhjákvæmilegar breytingar? Ef félagið fer í gjaldþrot losnar um marga samninga sem fjárfestar hljóta að velta fyrir sér hvort borgi sig að fjárfesta í. Hvað með Max vélarnar, er ekki best að losna frá þeim samningum alfarið? Nú eða flugreksturinn hér innanlands. Hvernig geta hluthafar í Icelandair réttlætt það að greiða hann niður endalaust? Svona má lengi spyrja.
Auðvitað er þetta dauðastríð dapurlegt og það eru ekki aðeins hluthafar og starfsmenn Icelandair sem eiga mikið undir. Það skiptir gríðarlega miklu fyrir endurreisn landsins að það takist að keyra upp sem fyrst öflugar flugsamgöngur. En verður það best gert undir merki Icelandair?