c

Pistlar:

17. maí 2020 kl. 16:22

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Skattar og álögur á fiskeldi

Vöxtur fiskeldis hér við land er ánægjuleg þróun fyrir land sem þarf að auka fjölbreytni útflutningsgreina sinna. Fiskeldi er einhver heppilegasta leið sem hægt er að finna til að búa til hollan mat fyrir hungraðan heim. Eins og var rakið hér í grein fyrir stuttu hefur fiskeldi risið upp á skömmum tíma, meðal annars vegna erlends áhættufjármagns og við Íslendingar höfum ekki þurft að kosta miklu til. Afraksturinn er atvinnugrein sem styður við viðkvæmar byggðir landsins og mun skila okkur mikilvægum gjaldeyristekjum í framtíðinni.fiskaust

En frá upphafi hefur verið fyrirferðamikil sú umræða að skattleggja þurfi þessa grein sérstaklega. Það minnir á þá umræðu sem ferðaþjónustan mátti þola þegar best lét en þær raddir hafa þagnað núna. En fiskeldi virðist nú í skotlínu þeirra skattglöðu eins og rakið er í ágætri grein í Morgunblaðinu um helgina. Rétt er að hafa í huga að fiskeldi greiðir að sjálfsögðu sömu skatta og önnur fyrirtæki í landinu en umræðan snýst um að það greiði sérstök aðstöðugjöld fyrir að setja upp aðstöðu sína. Eðlilegt er að sveitafélög hafi heimild til að innheimta slíkt og þá að einhverju leyti í samhengi við veitta þjónustu.

Oft er því haldið fram að Íslendingar séu að gefa vondum erlendum kapítalistum verðmæti og skiptir engu að þau verða ekki til nema vegna áhuga þessara sömu kapítalista á að fjárfesta hér. Horfum því framhjá rökvillunni.

Hærra gjald en í Noregi

Lög um töku gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóð sem tóku gildi í byrjun þessa árs gera ráð fyrir að fyrirtækin greiði gjald í ríkissjóð fyrir hvert framleitt kíló. Gjaldið ræðst af verði á laxi á heimsmarkaði á hverjum tíma. Í Morgunblaðinu kemur fram að gjaldið verður á þessu ári einn sjöundi af fullu verði, fer stighækkandi og fullt gjald verður innheimt árið 2029. Þá er gert ráð fyrir að um þriðjungur af gjaldinu renni til uppbyggingar innviða og þjónustu á vegum sveitarfélaga þar sem eldi í sjókvíum er stundað.

Í grein Morgunblaðsins er bent á að ef gert er ráð fyrir að gjaldið verði í miðþrepi, eins og helst var gert ráð fyrir þegar frumvarpið var lagt fram, verður það 2% af söluverði og gæti, miðað við núverandi aðstæður, orðið 14 krónur á kíló. Morgunblaðið hefur farið á stúfana og aflað sér upplýsinga frá Noregi og kemur ljós að gjaldið hér er meira en tvöfalt það gjald sem lagt verður á í Noregi! Það eru nú öll ósköpin og samt er því haldið fram að Norðmenn séu að koma hingað til lands að flýja skattheimtu. Gjaldið verður tæpar 25 krónur, miðað við núverandi forsendur, ef laxaverð verður hærra en 4,8 evrur á kíló en sérfræðingar telja líkur á að heimsmarkaðsverð verði yfir þeim mörkum þegar til lengri tíma er litið. Samkvæmt því verður framleiðslugjaldið rúmlega fjórum sinnum hærra hér á landi en í Noregi segir í samantekt Morgunblaðsins.

Mun lægra gjald en á Íslandi

Verði tillögur stjórnarflokkanna í Noregi um álagningu framleiðslugjalds á lax úr sjókvíum að lögum verður gjaldtaka af norsku fiskeldi mun lægri en af íslensku. Munurinn ræðst af verðþróun á mörkuðum en gjaldið verður að minnsta kosti tvöfalt á við það sem hér er, jafnvel fjórfalt hærra ef langtímaspár um laxaverð á heimsmarkaði ganga eftir.

Tillaga norsku ríkisstjórnarinnar um að taka upp framleiðslugjald af sjókvíaeldi kveður á um að innheimta skuli 40 norska aura á hvert kíló af eldislaxi og silungi sem framleiddur er í sjóeldi sem svarar til tæplega 6 króna íslenskra. Gjaldtakan hefst á næsta ári. Tekjurnar eiga að renna til sveitarfélaga og fylkja þar sem fiskeldi er stundað. Á móti mun ríkið taka stærri hlut af öðrum tekjum sem sveitarfélögin hafa af fiskeldinu.

Falla frá hækkun tekjuskatts

Eru þessi áform mikil breyting frá tillögum sem meirihluti stjórnskipaðrar nefndar gerði í á síðasta ári. Þar var gert ráð fyrir afkomutengdu auðlindagjaldi í formi 40% viðbótar við tekjuskatt fyrirtækjanna. Tillögurnar féllu ekki í frjóan jarðveg segir í frétt Morgunblaðsins. Stjórnarflokkarnir höfnuðu þeim og einnig var andstaða meðal sveitarstjórnarmanna sem óttuðust að mikil skattlagning drægi úr getu og vilja fiskeldisfyrirtækjanna til að fjárfesta og auka umsvif sín og það hefði þar með neikvæð áhrif á byggðirnar og uppbyggingu atvinnu.

Svo virðist sem Norðmenn hafi áttað sig á að gjald­taka af þessu tagi gæti haft neikvæð áhrif í norsku fiskeldi, ekki síst í vinnsluþættinum, og draga úr atvinnusköpun.fiskel

Fyrirmyndir sóttar til Færeyja

Í frétt Morgunblaðsins er bent á að íslensku reglurnar um gjaldtöku á sjókvíaeldi eru sniðnar eftir reglum sem verið hafa í gildi í Færeyjum í sjö ár. Gjaldhlutfallið er þó heldur lægra hér. Í greinargerð með frumvarpinu á Alþingi voru rökin fyrir því sögð vera að tekjuskattur væri lægri í Færeyjum en á Íslandi auk þess sem íslensk fiskeldisfyrirtæki greiði þegar gjald í umhverfissjóð sjókvíaeldis. Fleiri atriði flækja þennan samanburð.

Gjaldið í umhverfissjóðinn hækkaði um áramót um 67% og samsvarar nú 4 krónum á hvert kíló sem fiskeldisfyrirtæki hefur leyfi til að framleiða. Tekur tíma að ná framleiðslunni upp þannig að iðulega er verið að greiða gjald af framleiðslu sem ekki fer fram.

Varðandi samanburð á milli Íslands og Nor­egs má minna á að Norðmenn hafa boðið út ný lax­eld­is­leyfi síðustu ár. Um­fang þeirra er tak­markað enda áður búið að út­hluta flest­um bestu svæðunum og það var­an­lega. Í ís­lensku fisk­eld­is­lög­un­um er sömu­leiðis gert ráð fyr­ir upp­boðum við út­hlut­un nýrra leyfa í framtíðinni. Er þar miðað við tíma­bundna út­hlut­un, ekki var­an­lega. Á eft­ir að reyna á hverju það skil­ar en mikilvægt er að ganga ekki of nærri þessari nýju atvinnugrein með óhóflegri skattlagningu.