Stundum detta orð í fangið á okkur sem verða töm í umræðunni án þess að við skiljum þau til fullnustu. Það á til dæmis við um samsetta orðið nýsköpun. Hvernig skilur þú það, var ég spurður í framhaldi af pistli hér fyrir stuttu. Hvernig getur sköpun verið annað en ný? Já, það má velta fyrir sér af hverju við tökum allt í einu orð eða hugtak og teljum það allra meina bót? Jú, af því að á bak við það liggur einhver stefnumótun eða pólitísk hugsun sem verið er að halda að okkur öllum stundum. Það þarf ekki að vera slæmt, það er oft þörf á því að hugsa hluti upp á nýtt og fara út fyrir þægindarammann eins og sagt er. En svona hugtök geta líka orðið klisja.
Viðskiptablaðið benti á það á sínum tíma að orðið „nýsköpun“ kemur átján sinnum fyrir í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Til samanburðar er aðeins sjö sinnum vikið að landbúnaði og fjórum sinnum að sjávarútvegi. Meira að segja ferðamenn blikna í samanburði við nýsköpun og koma aðeins sex sinnum fyrir. Ellefu sinnum er vikið að innviðum, sem komast ekki með tærnar þar sem nýsköpun hefur hælana bendir Viðskiptablaðið á. Já, hugsanlega er þetta leið nýrrar ríkisstjórnar, sem allir vissu að var stofnuð til að skapa pólitískan stöðugleika, til að skilgreina sig með nýjum og ferskum hætti.
Nýsköpun hins opinbera?
En í sáttmálanum eru gefin fyrir heit um að þessi nýsköpun eigi að ná til fleiri þátta en hins ytra viðskiptaumhverfis. Þannig virðist ríkisvaldið skammta sér verkefni. Það eigi meðal annars að efla eigi nýsköpun í heilbrigðismálum. Þá verði að efla nýsköpun og þróun á öllum skólastigum, tryggja verði að til staðar sé umhverfi sem hvetur til nýsköpunar á öllum sviðum, þar með talið hjá hinu opinbera og í rótgrónum greinum. Nú sýnist manni að ríkisstjórnin verði að útskýra betur hvað hún á við með nýsköpun í heilbrigðismálum undir stjórn núverandi heilbrigðisráðherra. Nýsköpun hjá hinu opinbera gæti virst sem mótsögn, einfaldlega vegna þess að opinber störf snúast um að styðja við og þjóna þörfum borgaranna.
Leiðin að nýsköpun getur þess vegna verið umdeilanleg. Velta má því upp hvort ríkissjóður hafi til lengri tíma meiri hag af því að stilla álögum í hóf og hvetja þess í stað til nýsköpunar í rótgrónu fyrirtækjum sem dags daglega eru að sligast undan nýjum sköttum. Það er umhugsunarverð nálgun.
Nýsköpunarstjórnin - ill nauðsyn?
Í eina tíð var sett hér á stofn ríkisstjórn sem fékk nýsköpun í heiti sitt. Nýsköpunarstjórnin 1944 til 1947 hafði það að markmiði að nýta mikinn gjaldeyrisforða sem hafði safnast upp í sjávarútvegi til að fjárfesta til framtíðar eins og myndi vera sagt í dag. Sósíalistar vildu meira að segja eigna sér stefnumörkun þessarar stjórnar, það hafi verið Einar Olgeirsson, með fulltingi Brynjólfs Bjarnasonar, sem fyrstur hafi lagt línurnar fyrir stefnu stjórnarinnar eða svo segir ævisagan Einars.
Einar taldi Íslendinga á þessum tíma standa frammi fyrir einstöku tækifæri sem alls ekki mætti glopra niður eins og hann orðaði það í svonefndri „nýsköpunarræðu“ í september 1944. Þá yrði lítið um uppbyggingu í þágu þjóðarinnar og fjármununum þess í stað eytt í neyslu. „Og glæsilegasta tækifæri sem Ísland hefur haft til að verða atvinnulega sjálfstætt og velmegandi þjóðfélag væri glatað,“ sagði Einar.
Þegar þessi ummæli eru skoðuð í dag blasir við augljóst stjórnlindi sósíalista, þeir töldu að frumkvæði og nýsköpun væri best komið í höndum þeirra. Pólitískt ástand á þessum tíma stuðlaði að myndun stjórnarinnar sem líklega er oflofuð í sögunni. Eftir hana situr helst minningin um gott vináttusamband sem myndaðist á milli hatrammra pólitískra andstæðinga. Það voru hins vegar utanaðkomandi aðstæður sem löguðu atvinnuástandið og sköpuðu verðmæti. Og nýsköpunin fólst helst í því að eyða fjármunum annarra mjög hratt!