c

Pistlar:

20. júlí 2020 kl. 10:46

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Á ríkið að bjarga Icelandair?

Helgin reyndist undirlögð af málefnum Icelandair en það fór eins og sagt var fyrir um í pistli hér á föstudaginn að enginn getur leyst launaþrætur félagsins nema starfsmenn og stjórnendur fyrirtækisins. En samningurinn sem nú liggur á borðinu minnir á fyrri samning sem flugfreyjur felldu og því óvíst að málið sé komið í höfn. En hvað hefur breyst? Jú, nú er félagið búið að semja við allar starfsstéttir sínar og getur þá einhent sér í að reyna að sannfæra fjárfesta um að koma til liðs við félagið. Augljóslega mun þurfa mikinn sannfæringakraft til að fá fjárfesta til að koma að félaginu og forvitnilegt verður að sjá hvort nokkur treystir sér til að leggja eigin fjármuni undir í því veðmáli. Því má velta fyrir sér hvort félagið sé að færast yfir í hálfopinbert eignarhald, nú ef það ekki gengur þá blasir líklega ekkert annað en gjaldþrot við. Það er erfitt að finna fjárfesta sem eru tilbúnir að leggja undir í félagi eins og Icelandair. Síðasta árið voru nokkrir af stjórnendum félagsins að senda inn traustsyfirlýsingar í formi hlutafjárkaupa en ljóst er að þeir aðilar munu ekki geta endurtekið leikinn. Nýa aðila og nýtt fjármagn þarf að félaginu. Meðal annars fjárfesta sem geta séð út úr flugvélastöðu þess.icelanairsaf

Íslensk laun og alþjóðleg samkeppni

Vissulega hjálpar að hafa lokið samningum við flugfreyjur en skilja mátti forráðamenn félagsins þannig að laun þeirra séu um 7 til 10% af rekstrarkostnaði félagsins. Launakostnaður Icelandair er sá þáttur sem helst hefur dregið úr samkeppnishæfni félagsins. Því miður, en félagið býr við alþjóðlega samkeppni og þar hafa rekstraraðilar keppst við að lækka launakostnað og má sem dæmi taka að talið er að WOW air hafi haft 30% lægri kostnað af samningum sínum við sínar flugfreyjur. Ný félög (Play) sem bíða á hliðarlínunni virðast horfa til þess. Það má alveg kalla það félagsleg undirboð en fólk sem vill fljúga mikið og ódýrt hefur í raun samþykkt þetta fyrirkomulag þegar það lætur bókunarvélarnar velja hagstæðasta verðið. Nú er svo komið að einföld leit segir okkur að SAS býður farmiða til Kaupmannahafnar á einum þriðja af því verði sem Icelandair kynnir. Er trúlegt að slíkur aðili lifi lengi í samkeppni þó hann njóti velvildar ríkisstjórnarinnar og lífeyrissjóðanna?

Nýliðin helgi var farsakennd og sýnir hvað umræðan er oft á tíðum undarleg þegar kemur að vinnumarkaðsmálum hér á Íslandi. Fjöldi fólks virðist þannig halda að það sé hægt að halda úti sér vinnumarkaði á Íslandi, óháð því samkeppnisumhverfi sem fyrirtæki okkar búa við. Nú verður skekkjan ekki leiðrétt í gegnum verðbólgu og því blasir við að störf tapast umvörpum um leið og samkeppnisstaðan versnar.

Ríkisstjórnin með lán eða hlutafé?

Ríkisútvarpið gerði talsvert úr því í kvöldfréttum í gær að forsætisráðherra hefði átt einhverja aðkomu að lausn deilunnar án þess að útskýra í hverju þau afskipti fólust. Var það með samtali við deiluaðila eða spjall við ríkissáttasemjara? Var verið að koma einhverjum skipaboðum áleiðis og leggja grunn að aðkomu ríkissjóðs að málinu? Er það traustvekjandi að stjórnvöld geri kröfu um ósamkeppnisfæra uppsetningu á launastrúktúr flugfélagsins og skilyrði aðkomu skattpeninga að starfseminni við það? Fer ekki að verða tímabært að útskýra hvernig stjórnvöld sjá aðkomu sína að fjárhagslegri endurreisn Icelandair? Er kannski nær að tala um félagslega endurreisn? Verðu það virkilega svo að fyrst þurfa lífeyrissjóðirnir (og hinir háværu skuggastjórnendur þeirra) að samþykkja að koma að borðinu og svo kemur ríkisstjórnin og hnýtir slaufu á pakkann? Er það svona sem við ætlum að standa að alþjóðlegum samkeppnisrekstri frá Íslandi? En þetta eru kannski fullmargar spurningar í einni málsgrein en sjálfsagt táknrænt fyrir stöðuna nú. Niðurstaða helgarinnar skilur eftir margar spurningar.

En það er eðlilegt að menn velti fyrir sér hvernig fyrirgreiðslu ríkisstjórnarinnar verður háttað. Vefmiðillinn Túristi kemur með ágæta útleggingu á því í morgun. Verður það með láni eða hlutafé. Hinn norski álitsgjafi miðilsins telur að ríkið verði að koma með hlutafé og jafnvel eignast helmingshlut í félaginu. Jafnframt bendir hann á þá augljósu staðreynd að um leið og félagið er að stórum hluta komið í ríkiseigu breytist samningsstaða þess. Viðsemjendur muni hafa meiri væntingar og samningsstaðan versna. Er það vænlegt, sérstaklega þegar horft er til þess að ríkisflugfélag eins og Icelandair mun ryðja frá mögulegum innlendum samkeppnisaðilum.

Saga íslenskra athafnamanna búin?

Sagan segir okkur að það er að mörgu leyti hagfellt að halda úti flugrekstri frá Íslandi og ævisögur íslenskra athafnamanna úr flugheiminum eru lýsandi fyrir það. Lengi vel var reglugerðarumhverfið lítt íþyngjandi og afgreiðsla stjórnsýslunnar hér skilvirk og góð. Það gerði mörgum auðvelt að gera út flugrekstur frá Íslandi. Væri ekki nær að stjórnvöld gerðu sitt besta til að styrkja samkeppnishæfni íslensk flugiðnaðar með því að einfalda regluverk og lækka kostnað við þjónustu í stað þess að koma inn með beinum hætti í rekstur félaganna? Er það ekki atvinnustefna sem á sér meiri framtíð en ríkisrekstur í flugi?