Stóra myndin á íslenskum vinnumarkaði um þessar mundir er þannig að um 20.000 manns eru án atvinnu. Þeim fjölgar hratt og geta hugsanlega nálgast 30.000 í haust. 22.000 manns eru á örorkubótum hér á landi og fjölgar hratt. Hjá hinu opinbera starfa um 60.000 manns og fjölgar einnig umfram fólksfjölgun. Þá má geta þess að um 20.000 manns taka alfarið ellilífeyri frá Tryggingastofnun. Enginn þessara hópa (kannski fyrir utan opinberu starfsmennina) er of sæll af sínu. Augljóslega eru skammtímahorfur á íslenskum vinnumarkaði erfiðar en eðlilegt er að velta fyrir sér hvort við séum að sjá þróun á íslenskum vinnumarkaði sem ástæða er til að hafa áhyggjur af?
Lítum nánar á þetta. Alls voru 17.104 einstaklingar atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok júlí, samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar. Því til viðbótar voru 3.811 í skertu starfshlutfallinu, eða alls 21.435 manns. Atvinnuleitendum hafði meðal annars fjölgað í mannvirkjagerð milli mánaða. Mannfjöldi (16-74 ára) í maí 2020 var 259.000 en vinnuafl telst vera 209.500 manns eða 81% af mannfjölda. Atvinnulausir eru þá tæplega 10% af vinnuafli.
Í ágætri grein í Morgunblaðinu á laugardaginn var þeirri spurningu varpað fram hvort atvinnuþátttaka hér á landi væri að dragast varanlega saman. Sérfræðingar á vinnumarkaði treysta sér ekki til að segja af eða á um það en ætla má að vegna minni atvinnuþátttöku sé mælt atvinnuleysi, samkvæmt alþjóðlegum stöðlum, minna en ella. „Fólkið sem stendur utan vinnumarkaðar er án atvinnu líkt og þeir sem eru skráðir atvinnulausir. Það uppfyllir hins vegar ekki skilyrði þess að vera atvinnulaust, samkvæmt skilgreiningu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar,“ segir Ólafur Már Sigurðsson, sérfræðingur á félagsmálasviði Hagstofunnar, í samtali við Morgunblaðið.
Mikil fjölgun örorkubótaþega
Fyrr í sumar var forvitnilegt viðtal í Morgunblaðinu við Héðinn Unnsteinsson, formann Geðhjálpar en hann var augljóslega hugsi yfir þróuninni og benti á að: „Sorg er orðin geðröskun; „bereavement disorder“. Það er orðin ofboðsleg fjölgun greininga...Við þurfum e.t.v. að fara huga að „afsjúkdómavæðingu“.“ Héðinn sagði að það mætti að einhverju leyti tengja við þessa þróun mikla fjölgun örorkubótaþega hér á landi.
Í viðtalinu við Héðinn kom fram að árið 1990 voru örorkubótaþegar 7.506 hér á landi en í ár eru þeir orðnir 21.979. Þetta er 190% fjölgun á sama tíma og þjóðinni hefur fjölgað um 43% á þessum árum. Héðinn segist ekki geta skýrt þessa þróun en benti á að 37% örorkubótaþega búi við geðfötlun og hefur sá hópur vaxið að stærð og hlutfalli af heild. Aðrir eru þroskahamlaðir og líkamlega fatlaðir. „Hópur geðfatlaðra er eini hópurinn hvers fötlun getur orðið að fullu afturkræf. Það eru fjölmörg dæmi þess að fólk hafi farið á örorkubætur en unnið sig út úr því og orðið virkt aftur,“ sagði Héðinn.
Hve stórt velferðarkerfi?
Á hverjum tíma verður samfélagið að meta hve stórt velferðarkerfi það getur rekið án þess að skaða möguleika sína til framtíðar til að reka þetta sama velferðarkerfi. Allar viðbætur við velferðarkerfið verða að skoðast með það í huga. Eðlilega eru þarfirnar endalausar. Og vissulega má spara á mörgum öðrum sviðum áður en reynt er að spara í velferðarkerfinu enda er ekki verið að mæla með því hér. En menn hljóta að hafa einhverja sýn á framtíðina og samsetningu á vinnumarkaði þegar þeir ákveða að stækka velferðarkerfið. Hér má nefna að kostnaður vegna hælisleitenda og flóttamanna nemur milljörðum króna og er liður sem getur vaxið mjög hratt ef menn gæta ekki að sér. Það á við um ýmsa aðra þætti velferðarkerfisins. Áskoranir vegna breyttrar aldurssamsetningu þjóðarinnar og tíðari lífsstílssjúkdóma koma af sjálfu sér. Og þær verða sameiginlegum sjóðum dýrar.
Um uppruna íslenska velferðarkerfisins og samanburð við það norræna hefur áður verið fjallað hér í pistli. Kerfið var hugsað fyrir hinn breiða fjölda, ekki aðeins fyrir lítinn hóp þurfandi eins og gamals fólks og einstæðra mæðra. En hér eins og á hinum Norðurlöndunum þarf stöðugt að vera að skoða og endurmeta kerfið svo fjármögnun þess sé trygg og það uppfylli vonir og væntingar borgaranna.