c

Pistlar:

4. september 2020 kl. 12:51

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Félagsleg yfirboð

Eins og á hinum Norðurlöndunum ríkir góð sátt um að reka traust og öruggt velferðarkerfi á Íslandi. Þannig styðji samfélagið við þá sem minna mega sín eða lenda í tímabundnum áföllum. Við getum kallað þetta öryggisnet eða samfélagslega tryggingu en hugmyndin er sú að allir hafi rétt til mannsæmandi lífs óháð hvaða aðstæðum sem þeir lenda í. En þó að sátt ríki um þetta getur verið ágreiningur um stærð velferðarkerfisins og útfærslu. Þó að enginn hafi treyst sér til að segja til um hve hátt hlutfall þjóðartekna hverju sinni renni í gegnum slíkt kerfi þá stækkar það og vex eins og annað sem er ríkisrekið. Þannig fer smám saman meira og meira af verðmætasköpun í landinu í gegnum hina sameiginlegu sjóði sem getur haft áhrif á verðmætasköpun í framtíðinni.

Á hverjum tíma hlýtur að vera umdeilanlegt að reka velferðarkerfið (eins og aðra starfsemi hins opinbera) á lánum. Eðli lána er, að það er verið að færa til neyslu eða útgjöld og það er þá framtíðarinnar að greiða fyrir þessi sömu útgjöld. Fólk framtíðarinnar greiðir þannig fyrir neyslu dagsins í dag. Ef við setjum það í samhengi við velferðarkerfið þá er með lánum til þess að fjármagna rekstur þess á einum tíma verið að rýra möguleika samfélagsins að reka velferðarkerfi á öðrum tíma. Með öðrum orðum, ef velferð er rekið á lánum í dag þá verður það rýrara í framtíðinni. Til að skilja þetta þá þarf fólk bara að horfa á eigið heimilisbókhald. Þegar fólk fjármagnar sig á lánum kemur alltaf að skuldadögum. Það sama á við um hið opinbera þó svo virðist að margir á vinstri væng stjórnmálanna telji að unnt sé að „seðlaprenta“ sig út úr vandanum. Ein birtingamynd þessa hugsunarháttar er sú hugmynd að unnt sé að vinna bug á atvinnuleysi með því að ráða fleiri starfsmenn til hins opinbera. Minnir á þekkta skopmynd eftir danska skopmyndateiknarann Storm P þar sem broddborgari lætur hundinn sinn éta eigið skott.stormp

Að láni frá framtíðinni

Þetta er mikil skammsýni. Samfélagið á hverjum tíma hefur ekki leyfi til þess að ganga á möguleika framtíðarkynslóða til að reka sitt velferðarkerfi. Auðvitað er þetta vandmeðfarinn samanburður en það er nauðsynlegt að þeir sem stunda félagsleg yfirboð í dag hafi það í huga að um leið og þeir krefjast meira og meira til velferðarkerfisins á tímum hallarekstrar hins opinbera eru þeir að ganga á rétt framtíðarkynslóða til að reka sitt eigið velferðarkerfi. Þessi félagslegu yfirboð eru oft studd gífuryrðum og gildishlöðnum ummælum um eigið ágæti og mannfjandsamlega nálgun þeirra sem vilja fara varlega í fjármálum. Og fjölmiðlar dansa með eins og lesa mátti í þessum kostulegu ummælum sem birtust í leiðara Fréttablaðsins í sumar: „Öryrkjar hata Tryggingastofnun ríkisins, sjúkir hata Sjúkratryggingar Íslands, atvinnulausir hata Vinnumálastofnun og allir sem hafa mannlegar tilfinningar hata Útlendingastofnun.“ Það er vona að menn spyrji sig hvort að velferðarkerfið sé að éta börnin sín?

En hluti vandans við þessa umræðu er að umfang og ábyrgð velferðarkerfisins er illa skilgreint og í stöðugri breytingu. Þegar menn segja að allir eigi rétt á grunnþjónustu þá skortir oft að skilgreina hvað fellst í þessari grunnþjónustu. Því segja menn gjarnan „gjaldfrjáls“ þetta eða hitt, en það er aldrei neitt gjaldfrjálst, það er alltaf einhver sem borgar, einhver tilflutningur á peningum frá einum hópi til annars og stundum milli kynslóða eins og hér er til umræðu. Er það aðför að grunnþjónustu skólakerfisins að aðföng eru ekki greidd af hinu opinbera eins og nýleg umræða vekur athygli á? Vitaskuld eru ýmsir grunnþættir sem við viljum að sé til staðar, svo sem að sjúkum, heimilislausum og fátækum sé sinnt. Það er ekki vandalaust og má sem dæmi taka þá heimilislausu. Það er óboðlegt að fólk hafi ekki þak yfir höfuðið en það er hins vegar erfitt að sinna mörgu því fólki sem svo er ástatt um þar sem það hefur brennt allar brýr að baki sér og getur ekki tekist á við neinar þær skyldur sem fylgja því að deila þaki með öðrum.

Það er sterk tilhneiging í samfélaginu að telja hvert það eitt vandamál sem kemur upp vera þess eðlis að hinir opinberu sjóðir komi að. Hve oft byrja ekki fréttir sjónvarpsstöðva á því að tíunda að þessi eða hinn eigi við þetta eða hitt að etja og það sé bara ótrúlegt að það sé ekki „gjaldfrjálst“ úrræði til staðar. Að sumu leyti má líkja þessu við umræðu um gjafsókn en sumir virðast telja að ríkið eigi á öllum tíma að greiða allan málakostnað þeirra sem á hverjum tíma telja sig þurfa að leita til dómstóla. Í upphafi gat verið um ákveðna sanngirni að ræða í afmörkuðum tilvikum en svo taka hin félagslegu yfirboð við og liður sem þessi getur óhjákvæmilega sogað til mikið fjármagn. Þetta á við á mörgum sviðum. Við getum tekið sem dæmi málefni hælisleitenda og flóttafólks en þar koma yfirboðin í bylgjum frá lýðsleikjum hversdagsumræðunnar. Í vikunni mátti hlusta á kennara við Háskóla Íslands segja frá því í viðtali á Rás 1 að Íslendingum bæri að fara suður til Miðjarðahafsins og sækja flóttafólk og taka það inn í íslenska velferðarkerfið. Er ekki svona tal ábyrgðalaust, sérstaklega þegar engin tilraun er gerð til að meta kostnað af slíku eða áhrif á samfélagið? Í þessu málaflokki getur tilgerðin orðið yfirþyrmandi, eins og sést þegar frægðarfólk í Reykjavík býður sumarhús sín í afdölum til handa flóttafólki.

Stöndum vörð um velferðakerfið

Þessum pistli er ekki ætlað að tala niður velferðarkerfið, þvert á móti þurfum við að treysta grunn þess og tryggja að það sé hér fyrir næstu kynslóðir. Í dag fögnum við því að staða ríkissjóðs var góð og hann því fær um að taka við efnahagsáfallinu sem fylgir faraldrinum sem nú dynur yfir. Það hefði auðvitað ekki verið svo ef hin félagslegu yfirboð undanfarinna ára hefðu orðið að veruleika. Þetta finna sveitarfélögin sem nú strax eru við það að kikna undan álaginu, aðeins nokkrum mánuðum eftir að faraldurinn fór af stað en þeim hefur verið úthlutað verkefnum í gríð og erg undanfarin ár af löggjafanum án þess að hugsað sé fyrir fjármögnun þeirra.

Eitt mikilvægasta hlutverk félagslegs kerfis er að tryggja félagslegan hreyfanleika, að öll börn hafi aðgang að menntun og heilsugæslu og að margvíslegum þörfum þeirra sé sinnt. Hér á landi hefur fólk á einni kynslóð getað gjörbreytt stöðu sinni. Þannig má segja að Ísland sé land tækifæranna en það er ekki sjálfgefið að svo verði áfram og það verður að gæta þess að rýra ekki tækifæri komandi kynslóða með óskynsömum og ófjármögnuðum ákvörðunum.