c

Pistlar:

18. september 2020 kl. 10:09

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Almenningur mættur í kauphöllina

Helsta niðurstaða hlutafjárútboðs Icelandair er sú að almenningur er farin að fjárfesta á ný í hlutabréfum hér á landi. Niðurstaða útboðsins er glæsileg og rós í hnappagat stjórnenda sem hafa lagt nótt við dag í undirbúning útboðsins og reynt að sannfæra væntanlega fjárfesta um ágæti áætlana sinna. Það virðist hafa tekist. Um leið er augljóst að úrtöluraddir þjóðfélagsins fengu ekki brautargengi en það fór ekki framhjá neinum að formaður Eflingar sendi félaginu bölbænir nánast daglega. Blessunarlega hlustar enginn á það enda hefur stefna formannsins ekki kallað annað en ógæfu yfir félagsmenn hennar. Rétt eins og leiðarahöfundur Fréttablaðsins bendir á í dag þá hlýtur Fjármálaeftirlitið að rannsaka tilraunir stjórnenda innan verkalýðshreyfingarinnar til að hafa áhrif á ákvarðanir stjórnenda lífeyrissjóðanna.icelanairsaf

Umframeftirspurn

Alls bárust yfir 9 þúsund áskriftir í útboðinu og verða hluthafar félagsins um 11 þúsund eftir útboðið. Umframeftirspurn í útboðinu var því upp á 85% frá bæði fagfjárfestum og almennum fjárfestum. Ákveðið var að stækka útboðið úr 20 milljörðum króna í 23 milljarða króna. Þá virkjaðist sölutrygging Íslandsbanka og Landsbankans ekki, en hún miðaðist við allt að 6 milljarða króna að því gefnu að það tækist að ná í 14 milljarða króna í útboðinu. Þannig að ríkisbankarnir þurfa ekki að koma inn að svo stöddu. Þátttaka almennings dregur síðan úr líkum á að ríkið þurfi að virkja lánalínur sínar. Almenningur sendir hér sterk skilaboð um að hann standi með atvinnulífinu þegar á reynir.

Alls bárust tilboð upp á 37,3 milljarða í útboði Icelandair en tilboð upp á 30,3 milljarða voru samþykkt. Hlutafé félagsins var 5,4 milljarðar hluta fyrir útboðið en verður um 28,4 milljarðar hluta og því þynnist eignarhlutur fyrri hluthafa sem ekki tóku þátt í útboðinu verulega.

Velgengni útboðsins verður vonandi öðrum fyrirtækjum hvatning til að leita í almenna skráningu. Almenningur er komin aftur í kauphöllina.