Mannkynssagan geymir frásagnir af margvíslegum þjóðflutningum, landnámi nýrra landa og tilraunum fólks á öllum tímum til að bæta líf sitt með því að færa sig um set. Í dag búa tæplega átta milljarðar manna á jörðinni og þó að mannfjöldaspár hafi breyst verulega undanfarin misseri og gefi vísbendingar um að fólksfjölgun steypi ekki mannkyninu í glötun þá er víða þröngt hjá fólki og erfitt að lifa. Sum samfélög búa þegnum sínum afskaplega takmarkaða möguleika til að bæta líf sitt og önnur eru beinlínis hættuleg. Við höfum tvö skýr dæmi um þetta núna, frá Sýrlandi hafa um sjö milljónir manna flúið styrjaldarástand sem hefur sundrað samfélaginu. Frá Venesúela hafa fjórar milljónir manna flúið óstjórn og efnahagslegt hrun. Fólki frá báðum þessum svæðum hefur skolað að strönd Íslands.
Með allt þetta fólk í heiminum hafa risið margvísleg vandamál, fólk vill flytja sig til í leit að betra lífi og oft er erfitt að gera greinarmun á efnahagslegum flóttamönnum og þeim sem óttast um líf sitt, hvort sem það er af pólitískum eða menningarlegum ástæðum. Við höfum reist upp kerfi sem á að reyna að greiða úr þessu en í raun eru einu gögnin sem hægt er að styðjast við frásagnir fólksins, vegabréf þeirra og upplýsingar sem berast í gegnum alþjóðlegt samstarf. Ísland hefur tekið á sig margvíslegar skuldbindingar í gegnum þetta alþjóðlega samstarf en þar hefur Dyflinnarreglugerðin verið fyrirferðamest en hún barst okkur í gegnum samstarf við Evrópusambandið. Dyflinnarreglugerðin er fyrst og fremst löggjöf ESB og sambandið hefur því forræði hvað hana varðar. Við höfum tækifæri til þess að koma sjónarmiðum okkar á framfæri en ekki að ákvarðanatökum sem slíkum.
Hugmyndir framkvæmdastjórnar ESB eru þær að Schengen-ríki skipti með sér þeim sem óska eftir hæli innan svæðisins í stað þess að vera á ábyrgð móttökuríkis eins og nú er. Það þýðir væntanlega að Útlendingastofnun þyrfti að taka til meðferðar stóraukinn fjölda mála. Ef ESB ákveður að fella Dyflinnarreglugerðina úr gildi höfum við Íslendingar væntanlega val um að sætta okkur við það eða ekki. Ef við gerum það ekki gæti það þýtt úrsögn úr Schengen. Það er allavega ljóst að ESB lítur á þetta fyrst og fremst sem sitt mál eins og með regluverk sambandsins sem fellur undir EES.
Flóttinn frá Egyptalandi
Um þessar mundir skekur íslenskt samfélag deila um hvernig eigi að taka á máli egypskrar fjölskyldu sem hingað kom fyrir einu og hálfu ári. Málið reynir á allar þær reglur sem við höfum um úrlausn slíkra mála. Almennar reglur segja að fjölskyldan eigi að fara úr landi en þeir sem berjast fyrir sértækum úrræðum vilja að hún verði hér áfram. Ekki er annað vitað en að Egyptaland sé til þess að gera öruggt land og það má hafa rökstudda ástæðu til þess að efast um frásagnir heimilisföðurins um þá ógn sem að honum og fjölskyldu hans steðjar. Við vitum það þó ekki fyrir víst, því þrátt fyrir allt er Egyptaland tæpast réttarríki í þeim skilningi sem við leggjum í það en sumum kann að þykja heldur ósennileg sagan sem borin er á borð. Það getur því verið að þessir foreldrar hafi einfaldlega komið hingað til að flýja lök lífskjör og daprar framtíðarhorfur í heimalandi sínu. Á því má hafa skilning og það styður slíkt að umtalsverður hluti fólks sem leitar að hæli er í reynd efnahagsflóttafólk. Það er ekki endilega í hættu á að vera fangelsað og drepið en það er vissulega varasamt að ögrar stjórnvöldum. En regluverkið tekur bara mið af þeim sem eru að flýja hættu. Enginn fær að ég held skjól í Evrópu vegna þess að það er enga vinnu eða lífsafkomu að fá í heimkynnum þess. Breytir engu þó Vestur-Evrópa treysti í vaxandi mæli á aðflutt vinnuafl.
En vandamál flóttamanna og hælisleitenda endurspegla margvísleg vandamál og leggja auknar álögur á velferðakerfi nútímans. Hér hefur í pistlum alloft verið fjallað um mannfjöldaþróun á Íslandi og í heiminum. Athyglisverð hlið á því er að fólki fækkar víða og það umtalsvert. Heilu héruðin á Ítalíu eru mannlaus og sama á við um Balkanskagann. Fólksfækkun blasir við víða sem leggur nýjar áskoranir á hagkerfi þeirra landa og getu til að uppfylla skyldur velferðakerfa þeirra. Samhliða fjölgar þeim sem eiga réttindi á þessi velferðakerfi, svo sem öldruðum og fólki sem þarf á umönnun. Það blasir hins vegar við að mörg „öldruð“ hagkerfi þurfa á nýju fólki til að geta staðið við skyldu sína en þessu nýja fólki fylgja margvíslegar samfélagslegar áskoranir því nýtt fólk flytur með sér nýja siði. Líklega er skynsamar aað leyfa þessum málum að þróast frekar en að stuðla að of hröðum breytingum, þá er hætt við að rask komi á samfélögin. Allt mun hvort sem er breytast að lokum.
Réttindi og skyldur velferðakerfisins
Og þá erum við komin að velferðarkerfinu sem einmitt var fjallað um hér fyrir ekki löngu síðan. Á Íslandi og hinum Norðurlöndunum eru svo ríkuleg velferðarkerfi að heimurinn öfundar þessi lönd. Aðflutningur fólks skapar álögur á þessi velferðarkerfi og hér á Íslandi sjáum við að aðstoð við flóttamenn og hælisleitendur kostar meira og meira með hverju árinu. Við sjáum að ekki þarf mikið til að þessi liður vaxi enn hraðar, svo mjög að hann hefur óhjákvæmilega áhrif á getu samfélagsins til að sinna öðrum skyldum sínum. Ákvarðanir sem teknar eru af tilfinningu augnabliksins geta þannig strítt gegn skynsamlegri nýtingu fjármuna. Það er hægt að gera það sama fyrir 100 manns og hægt er að gera fyrir einn ef skynsamar ákvarðanir eru teknar. Fjármunirnir nýtast best ef þeim er varið sem næst heimkynnum flóttamannanna, allar rannsóknir sýna það. Þá er hægt að hámarka hamingju sem flestra.
Á öllum samfélögum eru tvær hliðar; skyldur og réttindi. Það er ekki hægt að taka meira út úr velferðakerfi en inn í það er lagt. Heimspekingurinn Immanuel Kant kynnti fyrir okkur „skilyrðislausa skylduboðið“ sem grunnreglu í siðfræði sem eðlilegt sé að styðjast við. Kant orðaði hana með eftirfarandi hætti: „Breyttu einungis eftir þeirri lífsreglu sem þú getur jafnframt viljað að verði að almennu lögmáli.“ Þessi regla hjálpar okkur ekki endilega að taka ákvarðanir í einstökum úrlausnarmálum þegar kemur að flóttafólki en hún segir okkur þó að okkur bera að reyna að vinna að skynsömum lausnum sem styðjast við almennar reglur. Og þá erum við aftur komin að því hvort við eigum að láta lög og reglur gilda eða taka hvert og eitt mál út frá því hve mikla tilfinningasemi hægt er að setja í það? Þá óháð því hvað almennu markmið við höfum sett okkur að ná fram með okkar samfélagi.