c

Pistlar:

2. október 2020 kl. 16:01

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Gullið í Ghana til sölu

Það var alltaf ævintýrabragur yfir nafngiftinni Gullströndin þegar maður rakst á það í skáldsögum eða sögubókum. Nafnið vísar til þess óheyrilega magns af gulli sem Evrópubúar komust í tæri við í þessum hluta Afríku í kjölfar þess að Portúgalar fóru að gera sig heimakomna þar á tímum landafundanna miklu. Auðvitað þekktu heimamenn undur gullsins og frægar sögur eru af auði kónga þar um slóðir. Þekktust er sagan af Mansa Musa sem var á sinni tíð einn ríkasti maður veraldar. Mansa Musa ríkti í Malí og vakti mikla athygli í Norður-Afríku og Miðausturlöndum þegar hann á fyrri hluta 14. aldar lagði upp í fræga pílagrímsför til Mekka eins og múslimum er uppálagt að gera. Malí var á ytri mörkum þess stóra svæðis sem áhrif kenninga Múhameðs spámanns náðu til á þeim tíma. Föruneyti Musa í pílagrímsferðinni var gríðarlega fjölmennt, sennilega voru tugþúsundir með í ferð og bæði úlfaldar og menn klyfjaðir gulli. Á leið sinni gaf Musa gull á báðar hendur en allur þessi gullaustur bjó til verðbólgu í löndunum sem hann fór um og var því hálfgerður bjarnargreiði.

Þegar portúgalskir sjómenn köstuðu akkeri við ósa árinnar Pra heyrðu þeir af auðugum gullnámum í landinu. Þær voru reyndar svo auðugar að næstu fimm aldirnar var allt svæðið kallað Gullströndin. Það leiddi til mikils kapphlaups um landið, bæði til að tryggja sé aðgang að gullinu og þrælaverslun á svæðinu. Virki voru reist og gullið streymdi frá svæðinu en landið er í dag þekkt sem ríkið Ghana.ghana

Að breyta náttúruauðlindum í auð

En nafngiftin Gullströndin var aflögð 1957 og síðan hefur Ghana verið helsta uppspretta gulls á þessum slóðum. En það getur verið hægara sagt en gert að breyta náttúruauðlindum í auð og geta Afríkuþjóða til að nýta auðlindir sínar hefur nokkuð verið til umræðu hér á landi undanfarin misseri í kjölfar frétta af fiskveiðum Samherja í Namibíu. Þetta er umræða sem endurtekur sig aftur og aftur og nú síðast í kjölfar frétta af því að Ghana hyggist selja réttinn að gullnámum sínum en viðskiptaritið Economist fjallaði nokkuð um þetta fyrir stuttu.

Það er svo sem ekkert óðagot á mönnum núna en ljóst er að ákvarðanir næstu missera verða umdeildar og afdrifaríkar fyrir íbúa Ghana. Stjórnvöld hafa ákveðið að selja þóknunarréttinn vegna gullvinnslu í landinu og tekist er á um aðferðafræðina og hvernig er að málum staðið. Það sem vakir fyrir stjórnvöldum er að tryggja sér fast tekjustreymi gegn leyfum í réttinum til að vinna gull. Það sem rekur á eftir er að fjármunir Ghana-búa eru uppurnir og efnahagsástandið dapurt vegna áhrifa COVID-19. Opinberar skuldir nálgast nú 70% af landsframleiðslu og það vantar sárlega gjaldeyri. En ferlið við leyfissöluna hefur verið gagnrýnt fyrir ógegnsæi og að bjóða spillingunni heim. Nema hvað?

Það sem er í húfi er rétturinn að tekjustreyminu sem fellst í 4% þóknun (e.royalties) af hverri únsu gulls sem unnin er í landinu. Það er þóknunin sem hingað til hefur runnið til stjórnvalda en þau hyggjast selja frá sér sem fjármálaafurð. Þetta eru allnokkrir fjármunir þar sem gull er verðmætasta útflutningsvara landsins. Talið er að árið 2018 hafi gull verið flutt út frá Ghana fyrir um sex milljarða Bandaríkjadala eða um 840 milljarða króna. Nú vilja stjórnvöld búa til vafning sem inniheldur 75% af þóknuninni frá 16 námum, þar af eru fjórar þeirra í undirbúningi. Vafningurinn verður settur upp í gegnum félag á Jersey sem hefur fengið heitið Agyapa. Stjórnvöld hyggjast selja 49% í félaginu með fleytingu á markað í London og Ghana. Áætlað markaðsverð fyrir hlutinn er um 500 milljónir dala eða 75 milljarðar íslenskra króna.

Stjórnvöld segjast þannig geta aflað sér lausafjár án þess að auka við skuldir ríkisins. En auðvitað eru gagnrýnisraddirnar margar. Sumir segja að með þessu séu ríkið að minnka líkurnar á að geta þjónustað núverandi lán. Þar fyrir utan hefur Ghana, eins og mörg önnur Afríkuríki, selt framtíðarsjóðstreymi sitt við flest tækifæri. Það er að verða komið að endimörkum þess hve mikið er hægt að selja af auðlindanýtingu framtíðarinnar. Fyrir utan hve ósanngjarnt það er gagnvart framtíðarkynslóðum landsins. Það á við um olíulindir, báxítnámur og rafmagnsframleiðslu. Economist heldur því fram að þeim fjármunum sem þannig hafi verið aflað hafi ekki alltaf verið varið skynsamlega. Oft sjái merki aukinnar eyðslu á kosningaári sem varla kemur neinum á óvart, auk þess sem opinberir starfsmenn fá launahækkanir hvenær sem tækifæri gefst.ganagold

Er samningurinn skynsamur?

Þá er samningurinn sjálfur talinn heldur vafasamur enda skortir skýr tímamörk eða önnur viðmið sem getur gefið stjórnvöldum framtíðarinnar tækifæri til þess að hafa stjórn á útgreiðslunum. Þannig muni hluthafar Agyapa halda áfram að fá tekjur kjósi þeir að framlengja samninginn auk þess sem þeir hafa öll tækifæri til að njóta hækkan á verði eða ef aukið magn finnst í námunum. Því segja margir sem hafa rýnt í málið að verðmæti vafningsins sé langt umfram þá 500 milljónir dala sem settirr hefur verið á hann. Sumir segja að verðmætið ætti að vera tvöfallt eða jafnvel fimmfallt hærra en á móti benda menn á þá fjárfestingaáhættu sem fylgir Ghana. En þá má spyrja sig; af hverju eru stjórnvöld að snuða sig um þessa fjármuni? Þar gæti spilling verið rétta svarið því margir telja að embættismenn og stjórnmálamenn í Ghana séu sjálfir að taka umtalsverðar fjárhæðir út úr samningsgerðinni og muni halda áfram að gera það á rekstrartímanum. Getur það verið?

Fjármálaráðherran Charles Adu Boahen hefur að sjálfsögðu neitað öllum slíkum ásökunum en hefur átt erfitt með að útskýra þá ákvörðun að setja félagið Agyapa upp í Jersey en ekki London. En auðvitað vitum við ekki sannvirði samningsins fyrr en félagið hefur verið sett á markað.