Nú er að verða liðið ár síðan Ríkisútvarpið hóf umfjöllun sína um meint spillingarmál sjávarútvegsfyrirtækisins Samherja í Namibíu. Mikið af gögnum voru lögð á borðið og uppljóstrari sem var öllum hnútum kunnugur sagði söguna. Frásögnin hafði eðlilega mikil áhrif á landsmenn og síðan má segja að Samherji hafi verið í mikilli vörn í málinu sem hefur verið rannsakað af yfirvöldum í Namibíu og hér á Íslandi. Angar rannsóknarinnar hafa borist víðar en ekki sér fyrir endann á henni. Þó vekur athygli að sakborningar í Namibíu hafa nú setið í tæpt ár í gæsluvarðhaldi án þess að það hafi gengið dómur og þætti sjálfsagt mörgum það nokkur ljóður á réttarríkinu. Upp á síðkastið hefur athyglin verið á vörn Samherja sem hefur reynt að segja sína hlið málsins og beitt til þess óvenjulegum aðferðum, sem þó eru í takt við upplýsingastreymi nútímans.
Í þessu máli fléttast saman margar sögur. Ein sú helsta lýtur að sjávarútvegi í Namibíu og fyrirkomulagi við rekstur hans. Á sínum tíma voru Íslendingar með þróunarhjálp í landinu sem að mestu beindist að sjávarútvegi og vörðu til þess allnokkrum fjármunum. Það virðist ekki hafa leitt til þess að Namibíu-menn hafi orðið færir um að sækja sjálfir fisk á djúpmiðum í landhelgi sinni. Því var sett upp kvótafyrirkomulag og veiðiheimildum úthlutað á grundvelli þess. Veigamestu ásakanirnar í Samherja-málinu lúta að því að félagið hafi beitt mútum til þess að tryggja sér aðgang að kvóta Namibíu-manna. Allnokkru rými er varið í að rekja fyrirkomulag við veiðarnar í bókinni Ekkert að fela sem kom út samhliða umfjöllun Kveiks Ríkisútvarpsins. Þær frásagnir einfölduðu ekki skilning á því kerfi sem ríkir við kvótaúthlutun í Namibíu.
Uppboð endar með tárum
En þó að Samherja-menn hafi nauðugir viljugir orðið að hætta veiðum við strendur Namibíu þarf að halda áfram að sækja fiskinn. Ákveðið var að fara uppboðsleið. Nú hafa hins vegar borist fréttir af því að í liðinni viku hafi uppboð stjórnvalda á fiskveiðikvóta í Namibíu farið fullkomlega í vaskinn. Aðeins hafi tekist að koma örlitlu af kvótanum út eða um 1,3 prósent af því sem átti að selja. Morgunblaðið sagði stutta frétt af þessu í gær og studdist við frásagnir namibíska blaðsins The Namibian. Talið er að þarna hafi namibísk stjórnvöld orðið af jafnvirði um 6 milljarða króna, en að tjón hagkerfisins geti í heild numið um 25 milljörðum króna vegna þessa. Þetta eru allnokkur tíðindi og merkilegt að ekki skuli fleiri íslenskir fjölmiðlar hafa greint frá þessu. Síðasta árið hafa þeir iðulega vitnað í fréttir blaðsins og ekki vantar að fréttin sláandi með fyrirsögninni; Uppboðið endar með tárum (Auction ends in tears). Í aðdraganda kvótauppboðsins flutti þannig vefmiðillinn Kjarninn tvær fréttir af því að útboðið væri í bígerð og að nota ætti afraksturinn í baráttuna við Covid-19. Miðillinn hefur hins vegar þagað þunnu hljóði um niðurstöðuna.
Þetta er fyrsta kvótauppboð í Namibíu af þessu tagi, en þar var boðinn upp kvóti í þremur tegundum, 11.000 tonn af lýsingi (e.hake), 72.000 tonn af hrossamakríl (e.horse mackerel) og 392 tonn af skötusel (e. monk). Ætlunin var að selja 60 prósent af hrossamakríls- og lýsingskvótanum til hæstbjóðanda, en 40 prósent áttu að fara til fyrirtækja sem starfa í Namibíu á lægra verði í þeim tilgangi að skapa atvinnu í landinu. Allur skötuselskvótinn var boðinn upp en hann mun vera veiddur í troll á þessum slóðum.
Niðurstaðan liggur fyrir núna. Aðeins voru seldar heimildir fyrir 100 tonn af lýsingi og 1.517 tonn af hrossamakríl, en ekkert af skötusel. Samkvæmt fréttum The Namibian eru fyrir vikið fiskveiðar í landinu í nokkru uppnámi og óljóst um framhaldið. Hvernig getur það verið? Var ekki Samherji vandamálið? Félög tengd Samherja tóku ekki þátt í uppboðinu, en á föstudag lauk einmitt rannsókn á úthlutun fiskveiðiheimilda í Namibíu, þar sem grunur leikur á spillingu. Málið er nú komið til saksóknara.
Ævintýramenn að bjóða
Víkjum aftur að uppboðinu. Komið hefur fram að þátttaka í því var mjög dræm og þeir sem tóku þátt voru oftar en ekki nýgræðingar án skipa eða veiðireynslu. Hugsanlega einhverskonar ævintýramenn sem ætluðu að nýta sér augljósa veikleika í stjórnkerfinu. Í fyrstu umferð útboðsins voru boðnar háar fjárhæðir í kvótann sem engin gat staðið við. Því varð að fara í aðra umferð. Aðeins fimm bjóðendur stóðu við tilboðin þegar á reyndi. Þeir buðu fyrir alls 8,4 milljónir namibískra dala, en það er jafnvirði um 86,5 milljóna íslenskra króna. Eins og áður sagði höfðu stjórnvöld vænst þess að fá jafnvirði tæpra 6 milljarða króna fyrir kvótann. Þessar lyktir eru því mikið áfall, bæði fyrir ríkissjóð Namibíu og fiskveiðistjórn þar, sem sætt hefur mikilli gagnrýni.
Þetta var í fyrsta sinn sem namibíska ríkið býður upp kvóta á markaði með þessum hætti. Til þessa hefur stórum hluta aflaheimilda verið úthlutað til ríkisfyrirtækisins Fishcor, sem sá svo um að úthluta kvótanum áfram, meðal annars til Samherja. Samkvæmt frétt The Namibian hefði fyrra fyrirkomulag, þar sem kvóta var úthlutað gegn gjaldi, skilað um 315 milljónum Namibíudala í ríkiskassann þar syðra, jafnvirði um þriggja milljarða íslenskra króna.
En eins og oft áður þarf að huga að mörgum þáttum þegar skýringa er leitað. Öllum landamærum Namibíu hefur verið lokað frá því í mars og heimildir herma að einungis eitt flug hafi verið síðan þá út úr landinu. Covid-19 hefur haft mikil áhrif á efnahag Namibíu eins og annarra landa og hugsanlega getur það einnig haft nokkuð með þennan litla áhuga á uppboðinu að gera en eins og áður sagði átti andvirðið einmitt að fara í að mæta efnahagslegum áhrifum faraldursins. Af fréttum að dæma í The Namibian hafa heimamenn meiri áhyggjur af því að fjármunir frá hinni viðamiklu námastarfsemi, sem þar er stunduð, skili sér í kassann en hvað gerist með uppboð á hrossamakríl. Hann virðist í það minnsta ætla að vera friðaður þetta árið.