c

Pistlar:

11. október 2020 kl. 17:35

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bændur og lífstíll

Það vekur óneitanlega athygli hve sterk viðbrögð ummæli Kristjáns Þórs Júlíussonar landbúnaðarráðherra, um að bændur hafi valið sér starfið, hafa vakið. Hann klykkti út með að benda á að margir bændur segja sauðfjárbúskap vera frekar spurningu um lífsstíl en um afkomu. Kristján Þór er sannarlega ekki fyrsti Íslendingurinn til að benda á sumt í starfi bóndans minnir á sjálfvalinn lífstíl. Rifjað hefur verið upp að aðrir stjórnmálamenn hafa sagt slíkt hið saman og oft hafa bændur sjálfir tekið þannig til orða, vissulega oft í hálfkæringi. Það dregur ekkert úr mikilvægi eða ágæti starfs bóndans þó það sé kennt við sjálfvalinn lífstíl. Í dag eru væntanlega flestir bændur af því að þeir hafa valið starfið sjálfir. En Kristján Þór er maður til að útskýra ummæli sín sjálfur.landb

Fegurðin í hinu smáa

Það er hins vegar áhugavert að velta fyrir sér stöðu landbúnaðarins á Íslandi í dag en þegar grannt er skoðað sést að allmargar nefndir eru að rýna í starfsskilyrði landbúnaðarins, væntanlega til að skerpa á stefnumótun sem til þessa hefur fyrst og fremst birst í búvörusamningum. Reglulega er því haldið fram að stuðningskerfi landbúnaðarins sé komið í þrot en saga íslensks landbúnaðar undanfarna áratugi er saga ríkisafskipta og tilrauna til að hafa stjórn á breytingum sem að nokkru leyti hafa verið óhjákvæmilegar.

Af þessu leiðir að það að stunda landbúnað á Íslandi verður ekki gert nema í allgóðu samkomulagi milli stjórnvalda og greinarinnar sjálfrar. Landbúnaður á Íslandi mun seint hafa samkeppnisstöðu við erlendan landbúnað, sérstaklega ekki þann sem gengur út á magnframleiðslu. Hér er beinlínis gert út á að fegurðin felist í hinu smáa! Sérstaða íslenskrar framleiðslu hlýtur alltaf að vera sú sama og sérstaða landsins, að hreinleiki og náttúruvernd geri það að verkum að íslenskar landbúnaðarvörur séu betri en erlendar. Það er auðvitað ekki einhlýtt en við sjáum endurtekið að lyfjagjöf og sýklalyfjanotkun hér á Íslandi er hverfandi miðað við það sem þekkist víða erlendis.Það hlýtur að vera umhugsunarefni og einnig sú ákvörðun að hefja innflutning á hrávöru þegar við höfum sannarlega eitthvað að vernda. Stærstu slysin í okkar landbúnaðarsögu hafa einmitt orði þegar við höfum farið óvarlega í innflutningi.

Lengst af hefur umræða um íslenskan landbúnað staðið snúist um stöðu sauðfjárræktenda og mjólkurframleiðenda. Augljóslega eru kjör ólík eftir því hvaða greinar menn velja sér enda þekkt að fáir lifa af sauðfjárræktinni einni. Það er svo sem ekkert að því, margir í sveitum vilja taka að sér fleiri störf og sauðfjárræktin bíður uppá það en þar eru árstíðarbundnar sveiflur, með álagstoppum en rýmri tíma á milli. Afkoma sauðfjárbænda hefur þannig miðast við að þeir séu í þessu sem hlutastarf. Það er auðvitað ekki einhlýtt og tilraunir hafa verið gerðar til að innleiða stórbúskap í sauðfjárrækt en eftir því sem best er vitað hefur það ekki tekist. Ég minnist þess að hafa tekið viðtal við mann sem var að reyna fyrir sér með bú þar sem hann ætlaði að hafa vel á annað þúsund kindur. Mér fannst hafa sannfærandi rök á takteinunum en því miður gekk dæmið ekki upp. Þeir finnast þó sem reyna að reka nokkuð stór bú en þær einingar eru alltaf smáar í alþjóðlegu samhengi. Ætli stærstu sauðfjárbúin hér á landi séu ekki með um 1000 ær og þau eru ekki mörg.mjolkk

Miklar fjárfestingar í mjólkurframleiðslu

Í mjólkurbúskap hefur orðið mikil breyting á undanförnum árum og áratugum og þar er augljóslega stórbúskapur að halda innreið sína. Eins og oft áður snýst þetta um fjárfestingu. Margir mjólkurframleiðendur hafa fjárfest í nýjum fjósum og búnaði sem auðveldar þeim að reka miklu stærri bú en áður hafa tíðkast. Miklar fjárfestingar eru í sjálfvirknivæðingu hverskonar og mjólkurþjónar (róbótar) létta störfin. Að baki stærstu mjólkurbúunum eru nú fjárfestingar upp á mörg hundruð milljónir króna. Rétt eins og við höfum séð í sjávarútvegi þá snýst hagræðingin um samþjöppun og fjárfestingar í nýrri tækni og framleiðslukvótum. Þetta hefur meðal annars í för með sér að bilið á milli sauðfjárbænda og mjólkurbænda eykst. Að reka sauðfjárbú snýst um lífstíl en að reka mjólkurbú snýst um rekstrarhagkvæmni og fjárfestingagetu.