Í tilraunum sínum til að útbúa nýja heilbrigðisstefnu tekur heilbrigðisráðherra á sig ýmsa króka til að sneiða framhjá einkarekinni heilbrigðisþjónustu, skiptir engu þó að hagkvæmni þess geti verið umtalsverð um leið og hún getur bætt þjónustu við sjúklinga. Dags daglega undrumst við mest það að fólk sé sent til útlanda vegna einfaldra liðskiptaaðgerða sem einkasjúkrahús hér heima ráða fullkomlega við. Þar er verið að spara aurinn og henda krónunni, það sjá allir. Heilbrigðisráðherra hefur gefið upp boltann og sagt að um langt árabil hafi útgjaldaaukning til heilbrigðismála runnið fyrst og fremst til einkaaðila og annarra sem veita þjónustu samkvæmt samningi við Sjúkratryggingar Íslands en opinber þjónusta setið á hakanum. Þannig hefur ráðherra í raun efnt til klofnings milli þessara tveggja arma heilbrigðisþjónustunnar sem mun að endingu koma niður á þjónustu við sjúklinga.
En að mörgu má hyggja í þessu en þessi mál voru gerð að umtalsefni hér í pistli fyrir stuttu. Víða sjáum við undarleg dæmi um þessa stefnu. Gunnar Alexander Ólafsson, heilsuhagfræðingur, benti til dæmis á það í Morgunblaðinu í gær að engar skurðaðgerðir hafa verið framkvæmdar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) í hátt í 15 ár, þrátt fyrir að sett hafi verið upp ein fullkomnasta skurðstofa landsins á stofnuninni. Nú hefur sú skurðstofa verið lögð niður. Var það skynsamlegt? Mátti ekki allt eins ýta undir þá starfsemi sem hafði meðal annars að markmiði að þjónusta erlenda sjúklinga. Slík starfsemi hefði getað búið til verðmæta þekkingu og störf, rétt eins og við sjáum í starfsemi þeirra lyfjafyrirtækja sem hér starfa. Þau byggja jú að mestu á erlendu áhættufé og skapa verðmæt störf og nauðsynlega þekkingu. Hefði einhver viljað vera án aðstoðar Íslenskrar erfðagreiningar á þessu ári en nauðsynleg aðstoð fyrirtækisins hefur afhjúpað ákveðið andvaraleysi íslenskra heilbrigðisyfirvalda í farsóttinni.
Meiri miðstýring
Nú um stundir virðist þeirri stefnu fylgt að efla miðstýringu heilbrigðisþjónustunnar á kostnað þjónustu við landsmenn. Þannig var mikið dregið úr fæðingarþjónustu HSS árið 2010. Þá er mikill skortur á hjúkrunarrýmum á Suðurnesjum, meðal annars var gamalt hjúkrunarheimili lagt niður í Garði árið 2011. Landlæknisembættið gerði úttekt á HSS árið 2005. Meðal annars voru gerðar notendakannanir og viðhorfskannanir meðal starfsfólks. Einnig voru fengnar upplýsingar frá stjórnendum um stjórnun, starfsmenn, starfsemi og þjónustu, gæði og öryggi, skráningu, húsnæði og búnað. Það sem helst var fundið að þjónustu heilsugæslu Suðurnesja varðaði framboð á þjónustu og bið eftir henni.
Þrjár einfaldar aðgerðir
Gunnar Alexander leggur til ýmsar aðgerðir sem eðlilegt virðist að skoða. Hann nefnir þrjá kosti sem lúta að bættri heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum sem manni virðist að megi skoða í fullri alvöru:
Í fyrsta lagi að sett verði á stofn nýja heilsugæslustöð í Suðurnesjabæ, en það sveitarfélag er eina bæjarfélagið á landinu sem hefur ekki heilsugæslu eða heilsugæslusel segir Gunnar Alexander. Íbúar þess eru um 3.500 og þurfa að sækja alla heilsugæsluþjónustu til Reykjanesbæjar.
Í öðru lagi megi efla þjónustu heilsugæslu í Reykjanesbæ og byggt viðbyggingu við heilsugæsluna eða byggt nýja. „Eins ótrúlegt og það kann að hljóma, þá nota um 30% íbúa svæðisins Læknavaktina í Reykjavík í stað þess að fá þá þjónustu í heimabyggð,“ segir Gunnar. Í þriðja lagi telur hann að byggja megi nýtt hjúkrunarheimili í Suðurnesjabæ og þar með auka framboð á hjúkrunarrýmum á svæðinu.
Meiri þjónusta
Allar þessar ábendingar Gunnars Alexanders eru athugunar virði. Á síðasta ári ákvað ríkisstjórnin að tillögu ráðherra að Heilbrigðisstofnun Suðurnesja fengi aukna fjármuni til að efla ýmsa þætti í þjónustu sinni og laga hana að breyttum þörfum og aðstæðum íbúa vegna stóraukins atvinnuleysis á svæðinu. Eins og oft áður er verið að bregðast við tilfallandi vanda í stað heildstæðrar stefnumótunar.
Það er ljóst að með því að styðja við og efla þær hugmyndir sem eru um einkarekstur á svæðinu er unnt að efla heilbrigðisþjónustu þar öllum til hagsbóta. Heilsugæslan í Reykjanesbæ er nú ein fjölmennasta heilsugæslustöð landsins með um 21 þúsund skráða skjólstæðinga og hefur komufjöldi aukist ár frá ári. Einnig hafa verið um eða yfir 13 þúsund komur árlega á slysa- og bráðamóttöku HSS. Með samstarfi við einkaaðila á svæðinu væri án efa hægt að auka betur þjónustu við íbúa þar.